Skírnir - 01.04.2006, Page 172
170
EINAR KÁRASON
SKÍRNIR
calle de la tarde). Borges hafði verið trúlofaður annarri stúlku en
hann sleit þeirri trúlofun og þau Nóra urðu kærustupar. Mikil ást
og allt í lukkunnar velstandi.
En þessi kynni við Nóru Lange áttu eftir að leika Borges grátt.
í nóvember 1926 var haldið boð fyrir helstu bókmenntafrömuði
Argentínu og þangað kom meðal annars frægur og litríkur höf-
undur og heimsmaður, Oliviero Girondo; hann var þekkt skáld og
af forríku fólki, átti nóg af peningum og var fimmtán árum eldri
en Nóra. Hann heillaði stúlkuna upp úr skónum og þótt hún hafi
komið í veisluna með Borges, þá yfirgaf hún hana með Girondo.
Borges var auðvitað í sárum, ástarsorg og niðurlægingu eins og
margir ungir menn mega kynnast, en þetta lagðist svo þungt á
hann að það átti eftir að líða langur tími án þess hann bæri sitt
barr. Hann hafði verið afkastamikið ljóðskáld en frá og með þess-
um degi lagði hann ljóðlist á hilluna og það liðu mörg ár án þess
að hann reyndi að yrkja ljóð svo vitað sé. Það gaf honum örlitla
von um að geta unnið ástir „engilsins“ á ný að Girondo virtist í
fyrstu ekki mikil alvara með sambandinu við Nóru — sagan segir
að hann hafi átt bæði eiginkonu í London og ástkonu í París og
brátt var hann horfinn til Evrópu. Næstu árin reyndi Borges allt
til að fá Nóru til að taka við sér á ný en hún mun hafa gert honum
fullkomlega ljóst að hún vildi engan nema Girondo. Og Borges
sveiflaðist á milli vonar og ótta og niðurlægði sig á ýmsan hátt,
skreið fyrir stúlkunni, sem á móti virðist hafa sýnt honum kald-
lyndi eða jafnvel grimmd, hæðst að ást hans og fundið hann létt-
vægan í samanburði við hitt skáldið. Átta árum eftir að Nóra og
Girondo hittust fyrst flutti Girondo svo endanlega heim til Buen-
os Aires og þau Nóra urðu par — lífið og sálin í bókmenntalífi
höfuðborgarinnar, en Borges varð eftir gleymdur og bitur og nið-
urlægður úti í kuldanum.
Kaflinn um næstu tíu árin, 1934-44, heitir í ævisögunni eftir
Edwin Williamson „Árstíð íVíti", eins og frægur ljóðaflokkur eft-
ir Rimbaud. Borges hélt að vísu áfram að skrifa, gaf út litlar bæk-
ur með ritgerðum og hugleiðingum, en þær vöktu enga athygli og
seldust ekkert; ein þeirra mun hafa selst í þrjátíu eintökum. Hann
hélt líka áfram að reyna að stofna tímarit, en þau dóu yfirleitt