Skírnir - 01.04.2006, Page 205
SKÍRNIR
„Á TÍMUM VARANLEGRA ÁSTARSORGA*
203
leit að markmiðum sem aldrei nást. Tréð sem vex við kirkjugarðs-
vegginn hjá húsi prófessorsins má túlka sem útleggingu þversagn-
arinnar, sem tákn fyrir ómögulegt og kannski skelfilegt hlutskipti
söguhetjanna. Það vex milli tveggja heima og á kannski ekki að
vera til en er það samt:
Þegar götuspottinn hans opnaðist var ég steinhissa á trénu fast við kirkju-
garðsvegginn. Ég var búin að gleyma þessu tré sem fór þó langleiðina með
að fylla út í götuna. Tré sem var lifenda megin, en svo klesst upp við
kirkjugarðsvegg að það var á mörkum tveggja heima. Lífsins tré og dauð-
ans tré. Ég sá fyrir mér að það hefði verið gróðursett á leiði, vaxið og
dafnað, og menn hefðu ekki tímt að fella það þegar verið var að ganga frá
götunni og kirkjugarðsveggnum og því hefði tréið sem var ætlað hinum
dauðu lent lífsins megin. (71-72)
Og spáin rætist
Þegar Rosemary Sullivan hitti Elizabeth Smart, höfund skáldsög-
unnar By Grand Central Station I Sat Down and Wept (1945), en
saga Smart er byggð á reynslu höfundarins af stormasömu sam-
bandi við giftan mann, spurði Sullivan hvers vegna karlinn sem
söguhetjan er yfir sig ástfangin af væri aðeins skuggi, næstum því
andlitslaus. „Auðvitað hefur hann ekki andlit“, svaraði Smart
óþolinmóð: „Hann er viðfang ástarinnar".28 Ástarviðföngin í sög-
um Steinunnar eru að sama skapi andlitslaus, en það er eitt ein-
kenni sagna sem lýsa ástarþráhyggju. Þó að „kærastinn", karlinn
sem Lilla hrífst af í Sólskinshesti, endurgjaldi ást hennar er hann
jafn fjarlægur og Hans og grískuprófessorinn og rétt eins og í öðr-
um sögum Steinunnar fellur skuggi hans yfir allt líf Lillu. Hann
gefur henni nafnið Lí og þrátt fyrir áratuga aðskilnað hverfur
hann henni aldrei úr minni þó að árin líði:
Þegar ég hugsa um þig, á hverjum degi, líka daginn sem Haraldur dó og
dagana sem dætur mínar fæddust, þá heiti ég þessu nafni sem þú gafst
mér. (11)
28 Rosemary Sullivan: Labyrinth of Desire. Women, Passion and Romantic Ob-
session, bls. 105.