Skírnir - 01.04.2006, Qupperneq 232
230
JÓN KALMAN STEFÁNSSON
SKÍRNIR
Við segjum stundum að galdur ljóðsins liggi í hinu ósagða, í þögninni á
milli orðanna, það er alveg rétt en samt bölvuð vitleysa, galdurinn vex
ekki á milli orðanna heldur af orðunum sjálfum — og þessi galdur er í
mörgum sögum Gyrðis. Við fáum, svo dæmi sé tekið, sjaldan að vita mik-
ið, og stundum ekki neitt, um forsögu persóna, en virðumst þó vita allt
sem vert er að vita, án þess að ljóst sé hvaðan sú þekking kemur. Bóksal-
arnir í Berjasaftinni eru með lykil að dularfullu húsi í þessu þorpi sem
dreifir ósýnilegt úr sér í kvöldmyrkinu. Þegar þeir eru komnir inn í hús-
ið, og búnir að koma sér fyrir, finnst sögumanni ástæða til að taka fram
að það sé of langt mál „að segja hvernig til kom að við fengum að gista
hér, en það var allt dálítið undarlegt." Þessi óvænta en snubbótta skýring,
sem er náttúrlega engin skýring, þetta snjalla innskot, bæði stríðir lesand-
anum og gefur í skyn að nú sé ekki hægt að treysta því að veruleikinn hagi
sér eins og við ætlumst til af honum. Sem gengur eftir. Sögumaður opnar
ísskápinn og peran í honum blikkar eins og hún sé að morsa skilaboð sem
sögumaður getur ekki lesið; Guðbjörn velur rúm og yfir því er glæfralegt
málverk af frelsaranum með textanum „komið til mín“; þeir gantast með
líkkistur og dauða. Og þannig stráir Gyrðir táknunum eða fyrirboðunum
án þess að við tökum eftir því, fyrr en síðasta orðið er lesið. Og þá kallar
sagan á að hún sé lesin á ný, sem maður gerir, fúslega.
V
Okkur hættir til að einfalda allt, í lífi sem og í skáldskap. Þegar höfundur
er búinn að skrifa tvær, þrjár bækur er honum komið fyrir í ákveðnu
hólfi, hann fær á sig skýringarmiða sem er dreginn upp í hvert sinn sem
hann sendir frá sér nýja bók. Umfjöllun um reynda höfunda verður því
stundum sjálfvirk, og hún er óvenju sjálfvirk og þröng kringum vissa höf-
unda, ég gæti nefnt Þorstein frá Hamri, Hannes Pétursson — og Gyrði,
hin síðari ár. Það er yfirleitt lítið fjallað um húmor í verkum Gyrðis, lág-
stemmdur húmor, stundum eins og falið bros, jafnvel glott inn á milli
angistar, einmanaleika, depurðar og samskiptaleysis persóna, og það hef-
ur lítið verið fjallað um ádeilu hans, einnig lágstemmda; á gildismat okk-
ar og fálæti gagnvart því fíngerða í mannsandanum og náttúrunni. Ég veit
ekki afhverju við erum svo dugleg, næstum einbeitt, að horfa framhjá
þessum þáttum í skáldskap hans. Kannski erum við, eins og áður sagði,
vanari grófari pensildráttum, stórkarlalegu brölti, og fyndni fremur en
húmor. Það kann að vera. En ég þykist hinsvegar vita að ákveðið, og sjálf-
sagt tímabundið, fálæti gagnvart verkum Gyrðis komi sumpart til af því
að hvorki höfundur né skáldskapur hans þrífst vel í ofbirtu ljósvakamiðl-
anna, og að Gyrðir sé í eðli sínu langhlaupari, samtíminn allur í sprett-
hlaupunum, ólíkir hlauparar og hipsum-haps að leiðir þeirra liggi saman.
Gyrðir er líka óvenju afkastamikill, það líður skammt á milli hóka og