Skírnir - 01.04.2006, Page 238
236
AUÐUR ÓLAFSDÓTTIR
SKÍRNIR
Verkin þrjú hafa öll mikið aðdráttarafl fyrir sýningargesti. Hið
fallega handbragð er tvímælalaust tálbeitan sem notuð er til að
laða áhorfanda nógu nálægt verkinu til að hann greini hin þýðing-
armiklu smáatriði sem eru lykillinn að myndhugsuninni og þar
með inntakið.
Meðal þeirra verka sem hefur verið að finna á nýlegum sýning-
um Hildar Bjarnadóttur má nefna auða striga með heklaðar dúll-
ur á jöðrunum, köflótt ofin málverk sem strekkt hafa verið á
blindramma, veggteikningar sem listamaðurinn kennir við síma-
krot en reynast vera mynstur gerð úr orkeruðu garni og lituð með
blekbláu, brot úr myndbandi sem sýnir kúreka leika listir sínar
með snöru, röð teikninga unnin á grundvelli þess mynsturs sem
snaran myndar, útsaumaðir fjöldaframleiddir dúkar sem listakon-
an hefur bætt á sínu eigin upphleypta mynstri í ætt við mosa og
postulínsstyttur af gömlum konum við iðju sína.
I femínískri list er stundum litið á viðfangsefni verks sem eins
konar líkama, í merkingunni „sýnileiki“ verks, og í því sambandi
talað um efnislegan eða áþreifanlegan veruleika verks (e. corpo-
reality). Ef eingöngu er horft til sjónrænna þátta, eða til útlits
verka Hildar, þá virðast þau við fyrstu sýn spanna bilið frá hefð-
bundinni handavinnu til mínímalískra málverka, vega salt milli
handverks og hreinræktaðrar hugmyndalistar.
Hildur er sér fullkomlega meðvituð um tvíbent aðdráttarafl
handverksins og vissulega mætti njóta verka hennar á forsendum
hins vel unna handverks, dást að ótrúlegri verkfærni og flóknum
útsaumsaðferðum, sbr. lýsandi heiti eins af nýlegri verkum
hennar: Punt (2004). Fljótlega fær áhorfandi þó á tilfinninguna
að ekki sé allt sem sýnist, að verkin séu ekki einhlít, og að hafa
þurfi fyrir því að afhjúpa merkingu þeirra, jafnvel lesa sig í gegn-
um þau eins og jarðlög, lag fyrir lag. Þá er ekki laust við að upp-
setning verkanna setji áhorfanda út af laginu því í stað þess að
Hildur tylli blúndum sínum og annarri „handavinnu" á stólbök
og sófaborð, eins og hefðin gerir ráð fyrir, hengir hún mjúk verk
sín upp á vegg eins og málverk eða kemur þeim fyrir á stöplum
eins og skúlptúr.