Skírnir - 01.04.2006, Page 241
SKÍRNIR
AÐ REKJA UPP ÞRÁÐ LISTASÖGUNNAR
239
verskins með heklunál“ eins og Ragna Sigurðardóttir kemst að
orði í myndlistargagnrýni um sýningu Hildar.2
Listamaðurinn lætur þó ekki staðar numið þegar búið er að
fletta ofan af grunni háleitasta listformsins, sjálfum strigafletinum,
því hið listsögulega grúsk heldur áfram á kostulega kómískan hátt;
eins og lúsiðinn maur tekur Hildur til við að rekja sjálfan strigann
upp þar til hann er orðinn að bandhnykli. Hún skilur þó eftir
nægilega mikið af upprunalegum striga til að skírskotunin fari
ekki á milli mála. Og þegar búið er að smætta menningarsögulegt
tákn niður í efnislegan kjarna sinn, vöndul af þráðum, þá má hefj-
ast handa við að fara aðra leið. Það má til dæmis gera, líkt og Hild-
ur, með því að hekla úr málarastriganum puntudúllur, sem er
vissulega húmorískur gjörningur.
Málarastrigaverk Hildar snúast í grundvallaratriðum um kven-
lega atlögu að þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar hinni
opinberu listasögu. Nálgunin er hins vegar óneitanlega frumleg og
jafnframt rökrétt í samhengi við uppruna Hildar í skóla hins
mjúka miðils, textílsins. Áhugi Hildar á að rannsaka efnislegar
rætur menningarinnar leiðir til þess að hún rekur sig ein fimm-
hundruð ár aftur í tímann, til upphafs olíumálverksins, að núll-
punkti vestrænnar listasögu. Þegar þangað er komið kemst hún að
því að málarastriginn er í grundvallareðli sínu ekki annað en efn-
isbútur eða dúkur sem hefur verið skorinn út úr bómullar- eða
hörstranga. Og ef haldið er áfram með hið sögulega grúsk er ekki
langsótt að ætla að efnisstranginn hafi einmitt verið ofinn af nafn-
lausum kvenmannshöndum. Á þennan hátt er Hildur búin að gera
strigann að tákni fyrir hina ósýnilegu undirstöðu, fyrir kvenna-
verkin sem liggja til grundvallar svo mörgu í samfélaginu. Með því
að rekja upp þráð málverksins rekur hún líka á táknrænan hátt
upp hinn línulega og líklega karlmannlega þráð listasögunnar. Án
efnislegrar undirstöðu eru engar stórkostlegar fjarvíddarblekking-
ar, engir Rúbensar og Rafaelar listasögunnar.
2 Ragna Sigurðardóttir. „Eðli málverksins krufið með heklunál." Morgunblaðið
30. ágúst 2004.