Ljósmæðrablaðið - des. 2020, Blaðsíða 46
46
Einu sinni var stelpa sem kom foreldrum sínum virkilega
á óvart þegar hún fæddist heima hjá sér í sveitinni á sum-
ardaginn fyrsta árið sem lýðveldið var stofnað. Foreldrar
hennar héldu að von væri á einu barni en svo skaust þessi
stelpa í heiminn alveg óvænt, sjö mínútum á eftir tvíbura-
systur sinni. Þessi stelpa ólst upp í sveitinni við það að eltast
við kýr og kindur. Hún átti kanínur, tvær grágæsir, kött og
hund. Stelpan hafði mikinn áhuga á flóru íslenskra jurta og
safnaði saman í bók þurrkuðum jurtum, sem hún skrifaði
fróðleik um.
Hún var mikið náttúrubarn og varð hugfangin í hvert sinn
sem hún sá ungviði koma í heiminn, hvort sem þau komu
úr legi eða eggi. Hún elskaði líka að hlusta á mömmu sína
sem talaði svo fallega um fæðingarnar sínar en hún eignað-
ist fimm stelpur.
Þegar fjölskyldan flutti á mölina fór stelpan í Kvennó, eins
og margar ákveðnar og duglegar stelpur gerðu á þessum
tíma. Síðar fór hún til Kaupmannahafnar og vann á sængur-
kvennagangi á stóru sjúkrahúsi. Þar ákvað stelpan að verða
ljósmóðir. Hún vann á Landspítalanum sem ljósmóðir í 25
ár á hinum ýmsu deildum.
Í Danmörku kynntist hún vatnsfæðingum og heillaðist af
þeim. Hún ákvað að gera allt sem í hennar valdi stóð til
að íslenskar konur gætu líka notið þess að fæða í vatni. Sá
fæðingarmáti getur auðveldað fæðinguna og gert konum
kleift að stjórna fæðingunni sinni sjálfar. Slíkt er valdeflandi
og getur gert konur sterkari fyrir lífstíð.
Stelpan náði þessu markmiði sínu, þrátt fyrir mótmæli ým-
issa fagstétta í ræðu og riti en stelpan vissi alltaf að hún væri
að gera rétt. Hún lét mótbárurnar ekki á sig fá og hélt sínu
striki. Þegar stelpan tilkynnti Landlækni að vatnsfæðingar
væru komnar til að vera á Íslandi, rak hann hana út. En hún
fékk líka góðan stuðning frá konum á öllu landinu og einnig
frá mörgu samstarfsfólki. Það tók mörg ár að ná takmarkinu
að fullu en að lokum voru það konur sem tóku völdin í sín-
ar hendur og kröfðust þess að fá að fæða í vatni á stærstu
fæðingardeild landsins.
Síðustu 14 árin sem stelpan var á vinnumarkaði valdi hún
að starfa við heimafæðingar en þar fann hún það andrúms-
loft og aðstæður sem hún hafði í raun alltaf verið að leita að.
Henni fannst að besta veganesti sem hægt væri veita litlu
barni við upphaf lífsins væri að fá að fæðast heima hjá sér í
faðm fjölskyldu sinnar. Að vera elskaður af öllum viðstödd-
um við upphaf lífsins.
Áslaug Hauksdóttir er hugsjónakona og hefur barist fyrir
valdeflingu kvenna og rétti þeirra yfir eigin líkama alla sína
tíð. Hún hefur verið ötul talskona þess að fordæma lim-
lestingar á kynfærum kvenna og stutt sjálfsforræði þeirra
varðandi þungunarrof. Hún hefur tekið á móti ótal börnum
og sinnt fjölskyldum þeirra á stofnunum og í heimahúsum.
Hún hefur einnig verið mikilvæg fyrirmynd og stutt aðrar
ljósmæður í námi og starfi. Störf Áslaugar hafa sett mark
sitt á barneignarþjónustu á Íslandi og mun arfleifð hennar
lifa áfram um ókomna tíð. Áslaug Hauksdóttir er heiðurs-
félagi Ljósmæðrafélags Íslands en þrátt fyrir að vera kom-
in á áttræðisaldur er hún enn viðloðandi heimafæðingar.
Fæðingarnar veita henni nú sem áður kraft og innblástur;
að sjá ungviði fæðast við kjöraðstæður í ástríku umhverfi á
eigin heimili.
Portrett:
Sunna María Schram
Áslaug Hauksdóttir
„Valdeflandi fæðing gerir konur sterkari fyrir lífstíð“