Ljósmæðrablaðið - des. 2020, Blaðsíða 69
69
læknir á Ármúla bað hana að læra fyrir Naut-
eyrarhrepp þegar hún var 19 ára, en hún taldi sig
ekki manneskju til þess. „Honum fannst ég svo
dugleg að ferðast, en mér þótti það nú ekki nóg“,
sagði hún í blaðaviðtali við Eðvarð T. Jónsson í
Vestfirska fréttablaðinu 1980. Hún fór suður frá Ísa-
firði, haustið 1928, með Nóvu, sem var að koma
að norðan og með skipinu var margt síldarvinnu-
fólk, maður við mann var í lestinni og vont veður
á leiðinni.
Í áðurnefndri ritgerð segir:
Það var haustið 1928, sem ég fór í Ljósmóð-
urskólann, þá þrjátíu og tveggja ára að aldri,
og varð að fá undanþágu til inngöngu í skól-
ann, aldurs vegna, en það gekk greiðlega.
Guðmundur Björnsson, landlæknir, sá mæti
maður, var aðalkennari í bóklegum fræðum,
kendi ljósmóðurfræði fjórar stundir í viku
og einnig meðferð ungbarna. Skólinn var til
húsa í Tjarnargötu 16, í húsi fröken Þuríðar
Bárðardóttur, ljósmóður.
Við vorum tíu skólasysturnar, frá öllum lands-
hornum. Var hópnum skipt niður milli hinna
þriggja lögskipuðu ljósmæðra í Reykjavík og
var ég ein af fjórum, sem lentu hjá fröken
Þuríði Bárðardóttur, og tel ég mig heppna
að hafa notið hennar ágætu kennslu, að
hinum ólöstuðum. Það var okkar verklega
nám að vera með þeim við fæðingar út um
bæinn. Við, þessar fjórar, sem landlæknir
ákvað að yrðum með fröken Þuríði, fengum
bæði húsnæði og fæði hjá henni. Og það
var ágætt að geta haft hvoru tveggja á sama
stað og var mjög gott að vera þarna.
Eftir vetrardvöl í Reykjavík lauk Salbjörg ljós-
móðurnáminu 26. júní 1929 og var skipuð í ljós-
móðurembættið í Snæfjallahreppi. Hún var einnig
ljósmóðir í Nauteyrarhreppi frá 1944 og þjónaði
Reykjarfjarðarhreppi frá 1953 til 1956.
Fyrstu ljósmóðurstörfin:
Þegar ég var kölluð til fyrstu konunnar, sem
ljósmóðir, sagði maðurinn sem sótti mig,
að komið hefði verið að fæðingunni, þegar
hann fór af stað. Konan hafði verið að koma
af engjum og borið tveggja ára barn með
sér, en svo ekki komist úr fötunum áður en
barnið fæddist. Ég flýtti mér sem mest ég
mátti og það tók ekki langan tíma að komast
til hennar – það var stutt bæjarleið og við á
hestum. Aðkoman var nokkuð einkennileg.
Konan liggjandi í öllum fötunum, blautum
og ötuðum mýrarrauðu, en kona af næsta
bæ hafði bjargað barninu frá köfnun. Og
mátti það heppni heita, að konan sem var
að fæða, gat kallað í dreng og hann svo kall-
að á nágrannakonu til hjálpar. Fylgjan var
ókomin þegar ég kom, en mitt fyrsta verk
var að fjarlægja óhreinindin. Eins og allt var í
pottinn búið, gat ég nú búizt við alvarlegum
afleiðingum, en Guð gaf að konu og barni
heilsaðist vel.
Fjölskyldan á Lyngholti haustið 1929 þegar Salbjörg
Jóhannsdóttir var nýkomin úr ljósmóðurnámi. Hún og
Ingvar Ásgeirsson sitja fremst með Engilbert Sumarliða,
tveggja ára (f. 1927). Aftar standa Jón Hallfreð (f. 1921)
og Ásgeir Guðjón (f. 1919). Dóttirin Jóhanna Sigrún er
ekki fædd (f. 1933). Ljósmynd: Simson, Ísafirði.