Blik - 01.05.1967, Síða 264
262
BLIK
listafögrum útskurði, þótt ekkert
slíkra muna sé e. t. v. lengur til.
5.
A Kirkjulandi tók Jón Guð-
mundsson út þroska sinn í skjóli
föður síns og Guðrúnar, systur sinn-
ar, sem var fjórum árum eldri en
bróðirinn. Bæði voru þau fædd á
Voðmúlastöðum, hún 1864, en hann
2. sept. 1868.
Jón var ekki eftirbátur föður síns
að því leyti að vera hugljúfi hvers
manns, sem honum kynntist. Hann
var lægri meðalmaður á hæð; fjör-
legur og kvikur til átaka, jafnvægis-
maður í skapi, enda þéttur á velli og
þéttur í lund. Hann var maður fríð-
ur sýnum, með ávallt nef, vel eygur
og svipfallegur, hýrlegur á yfir-
bragð, jarphærður og bjartur yfirlit-
um. Dagfarslega var hann prúður,
hógvær í orðum og hæverskur í allri
sinni framkomu. Bjarmaði af honum
velvildin, enda þótti ungum sem
gömlum gott með honum að vera.
Þess vegna var hann alls staðar au-
fúsugestur og sást hann hvergi glað-
ari en í glöðum vinahópi.
Hestamaður var hann prýðilegur
og átti ávallt, meðan hann var í
sveitinni, fjörmikla gæðinga — og
átti reyndar alla tíð góða hesta. En
kröfur til góðra hesta hlutu að breyt-
ast, eftir að hann fluttist til Vest-
mannaeyja, þar sem hver einn hestur
varð að vera góður til allra starfa,
dráttar, áburðar og reiðar.
Það leiðir þá og af sjálfu sér, að
Jón var vandur að virðingu sinni, og
stóðu orð hans jafnan eins og stafur
á bók. Aldrei hallaði hann viljandi á
neinn, en mildaði og bar í bætifláka
fyrir þá, sem bornir voru sökum.
Auk þess var hann hinn ágætasti
manasættir.
Þótt Jón stæði aldrei framarlega
í félagsmálum, eða væri áberandi
forystumaður, var hann engu að síð-
ur einn hinna traustustu bakhjarla,
sem mynda nauðsynlegan kjarna í
félagsmálum sveitar sinnar, enda
var gott til hans að leita. A þeim ár-
um var keypt orgel til Krosskirkju.
Kunni enginn þar í sveitinni á slíkt
hljóðfæri. Var þá leitað til Jóns, því
að hann var mjög söngelskur og
hafði góða söngrödd. Brá hann sér
þá til Vestmannaeyja og naut um
tíma tilsagnar Sigfúsar Arnasonar
organista. Keypti hann sér þá einnig
orgel, þrátt fyrir lítil efni, en upp frá
því var orgel á heimili Jóns, og þró-
aðist þar mikið sönglíf. Þannig varð
Jón fyrsti organisti Krosskirkju.
6.
Jón Brandsson bjó í Hallgeirsey, sem
þá var þríbýli og bjó hann í austur-
bænum. Hans kona hét Guðrún og
var Bergsdóttir.
Þau áttu þrjár dætur og einn son.
Steinvör hét sú elzta, Ingibjörg sú í
miðið og Guðbjörg þeirra yngst.
Bróðirinn hét Jón og var hann van-
gefinn. Náði hann aldrei fullum
þroska andlega, en var alla tíð eins
og gott lítið barn og hafði mikið
yndi af söng.