Studia Islandica - 01.06.1963, Page 18

Studia Islandica - 01.06.1963, Page 18
16 sitt.1 Þar beitir Frigg Óðin brögðum til að gefa þeim sig- ur, og um leið gefur hann þeim nafn. Þótt sumir fræði- menn vilji rekja þessa sögu til frásagnar um Seif og Heru í 14. kvæði Ilionskviðu, sýnir hún engu að síður, að Óðinn og Frigg hafa verið í miklum metum hjá Langbörðum. En bezt má marka stöðu Friggjar hjá Suður-Germön- um af því, að þeir kenndu föstudaginn við hana. Þann dag kenndu Rómverjar við ástagyðjuna Venus. Ef Freyja hefði verið kunn meðal þessara þjóðflokka, er líklegast, að þeir hefðu þýtt nafn Venusar með hennar nafni, því að hún líktist Venus miklu meira en Frigg, að minnsta kosti eins og þeim er lýst í íslenzkum heimildum. Þetta bendir eitt með öðru til þess, að Freyja hafi verið ókunn utan Norðurlanda. Ókleift er að skapa sér glögga mynd af goðaheimi Suð- ur-Germana, vegna þess hve heimildir eru fátæklegar. En samkvæmt þeim fáu ábendingum, sem til eru, verður að ætla, að höfuðgoð þeirra hafi verið Óðinn og Frigg, Þór og Týr. Sérstaklega er athyglisvert, að engar örugg- ar minjar um dýrkun Vanagoðanna þriggja eru til annars staðar en á Norðurlöndum.2 Um miðja 5. öld fluttust þrír germanskir þjóðflokkar af meginlandinu yfir hafið til Englands og lögðu það undir sig. Þessir þjóðflokkar voru Englar, Saxar og Jótar. Um goðadýrkun þeirra eru til nokkrar heimildir. En öllum ber þeim saman um, að Engilsaxar (en svo voru þeir þjóð- flokkar nefndir, eftir að þeir settust að á Englandi) hafi verið eindregnir Óðinsdýrkendur, og til Óðins röktu þeir ættir sínar. örnefni benda í sömu átt. Á hinn bóginn finn- ast engin merki um dýrkun Vanagoða meðal Engilsaxa.3 1 Origo gentis Langobardorum, sjá Clemen, bls. 34—35. 2 Hér er farið eftir vitnaleiðslu Jan de Vries um dýrkun Vana hjá Suður-Germönum. Hann tilfærir að vísu nokkur dæmi, sem hann telur benda í þá átt. En ég hef ekki látið sannfærast af neinu þeirra. Þeim, sem vilja athuga þetta nánar, skal bent á að lesa rök- semdir hans (gr. 450—53). 3 Sjá Wessén I, bls. 69—70.

x

Studia Islandica

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Studia Islandica
https://timarit.is/publication/1542

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.