Náttúrufræðingurinn

Årgang

Náttúrufræðingurinn - 2021, Side 56

Náttúrufræðingurinn - 2021, Side 56
Náttúrufræðingurinn 56 Náttúrufræðingurinn 91 (1–2) bls. 56–63, 2021 Lúsflugan snípuludda Ornithomya chloropus á Íslandi: Lífsferill og ásætur Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen FIÐURMÍTLAR (Astigmata: Analgoidea) og naglýs (Phthiraptera) eru algeng ytri sníkjudýr á fuglum. Mikilvægt er að þekkja bæði smitleiðir sníkjudýra og hýsilsérhæfingu þeirra þegar fjallað er um samskipti hýsils og sníkjudýrs. Lífsferill fiðurmítla og naglúsa er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli einstaklinga sömu tegundar, en lúsflugur (Hippoboscidae) geta líka komið við sögu sem smit- ferjur. Þetta hlutverk lúsflugna var hvatinn að rannsókn okkar. Við vildum svara því hvaða sníkjudýr nýta sér snípuluddu (Ornithomya chloropus) til dreifingar á Íslandi og skrá jafnframt lífsferil flugunnar. Við rannsökuðum 650 lúsflugur sem safnað var af 13 tegundum fugla 1999–2011, tegundagreindum þær og leituðum að ásætum. Öll eintökin voru snípuluddur og fundust frá 16. júní til 11. október. Kynjahlutföll í stofni voru skekkt kvenflugum í vil og í september- október var yfir 90% af veiðinni kvenflugur. Engar kvenflugur komnar að goti fundust í júní-júlí, en 18,5–29,4% í ágúst-október. Líkast til lifir ein kynslóð á ári miðað við kynjahlutföll og got. Þrjár tegundir ásætna fundust, allt kvendýrs fiðurmítlar: Myialges borealis (smittíðni 24,3%), Promyialges pari (4,3%) og Microlichus avus (0,3%). Mítlarnir voru tíðastir síðsumars (ágúst-september) og samband þeirra við snípuluddu var mismunandi, M. borealis og P. pari voru fastir við snípuluddur, urpu á þær og nýklaktar lirfur smituðust á fugla, M. avus notuðu lúsfluguna til að komast á milli hýsla. Niðurstöður okkar styðja að ein lúsflugutegund, snípuludda, sé landlæg og við lýsum lífsferli hennar. Einu ásæturnar sem fundust voru þrjár tegundir fiðurmítla, allar ósérhæfðar með tilliti til hýsla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu. INNGANGUR Lúsfluguættin Hippoboscidae tilheyrir ættbálki tvívængja (Diptera). Innan ættarinnar eru þekktar um 200 tegundir og eru þær allar sníkjudýr á fuglum og spendýrum. Lúsflugur finnast um heim allan en mestur er fjölbreytileiki þeirra á hitabeltissvæðum Afríku og Asíu. Flugurnar eru flatar og leðurkenndar og hafa sterkar klær og bursta.1 Hér verður fjallað um lúsflugur af ættkvíslinni Orn- ithomya. Til hennar heyra 29 tegundir sem eru sníkjudýr á fuglum og lifa flestar í Evrópu, Asíu og Afríku.2 Þrjár tegundir eru algengar í Norður- og Vest- ur-Evrópu, O. avicularia, O. chloropus og O. fringillina.1 Ornithomya-flugur nærast á blóði, drekka um það bil þyngd sína á þremur til sex sólarhringum og geta lifað fjarri hýsli að hámarki um sjö daga.1,3 Í Evrópu eru Ornithomya- -flugur á kreiki frá lokum júní fram í lok október en einstaka flugur geta fundist alveg fram í desember.1 Við klak eru kynjahlutföll í stofni aðeins skekkt og þá kvenflugum í vil.1,4,5 Karlflugur O. chloropus lifa skemur en kvenflugur og því skekkjast kynjahlutföll enn frekar þegar líður á sumarið.1 Tímgun Ornithomya-flugna er sér- stök og kallast á ensku larviparous. Eftir mökun þroskast frjóvgað egg í afturbol kvenflugunnar og þar klekst lirfan og nærist á vökva sem framleiddur er í sér- stökum „mjólkurkirtlum“.1 Eftir þrjá til átta daga „gýtur“ móðirin svonefndri forpúpu (e. prepupae) sem verður að púpu innan klukkutíma frá goti.1,6 Púp- unni er oftast gotið á hýsilinn og fellur af honum til jarðar. Hver fluga gýtur 12–15 púpum um ævina. Lirfur sem púpa sig síðsumars og á haustin lifa fram á næsta sumar á púpustigi.1 Fjórar tegundir Ornithomya-flugna hafa fundist hér á landi, O. avicularia, O. chloropus, O. fringillina og O. podicipis.7 O. chloropus er sú eina sem talin er vera landlæg og kallast á íslensku snípuludda, hinar eru slæðingar. Snípuludda finnst í öllum landshlutum og á ýmsum tegundum mófugla.8,9 Áhugi okkar á lúsflugum tengist rannsóknum sem tveir okkar (ÓKN og KS) hafa tekið þátt í og fjalla um heil- brigði rjúpunnar (Lagopus muta).10 Sníkjusýking leikur þar mikið hlutverk, og í allri umfjöllun um heilbrigði fugla og samskipti hýsils og sníkjudýrs er mik- ilvægt að þekkja smitleiðir sníkjudýra og getað flokkað þau eftir hýsilsérhæfni. Algeng ytri sníkjudýr á fuglum eru nag- lýs (Phthiraptera) og mítlar (Acari) og á rjúpum finnast þrjár tegundir naglúsa, fjórar tegundir fiðurmítla (Astigmata) Ritrýnd grein / Peer reviewed

x

Náttúrufræðingurinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.