Náttúrufræðingurinn - 2021, Qupperneq 76
Náttúrufræðingurinn
76
FÉLAGSGJÖLD
Allir geta orðið félagar í Hinu íslenska náttúrufræðifé-
lagi og hafa félagsgjöld haldist óbreytt frá árinu 2013. Inni-
falin er áskrift að tímaritinu Náttúrufræðingnum. Er það
skoðun stjórnar að í félagsaðild felist ekki síst stuðningur við
starf félagsins og útgáfu þess. Ákveðið hefur verið að halda
árgjaldinu óbreyttu áfram, en það eru litlar 483 krónur á
mánuði fyrir einstaklinga, eða 5.800 krónur á ári. Hjón greiða
566 krónur á mánuði, eða 6.800 krónur á ári. Fyrir stúdenta er
mánaðarleg upphæð 333 krónur, eða 4.000 krónur á ári. Eru
þetta smáar upphæðir þegar þeim er skipt niður á mánuði, og
er hægt að útbúa greiðslukortasamning til að létta á byrðinni
ef þess er óskað.
Stjórn hefur rætt um að stofnanir og fyrirtæki greiði hærri
áskriftargjöld en almennir félagar. Sú umræða heldur áfram
og er fyrirhugað að leggjast yfir þau mál á komandi starfsári.
RITSTJÓRN
Hlutverk ritstjórnar er að velja efni til birtingar í Náttúru-
fræðingnum og tryggja að kröfum um gæði og framsetningu
efnisins sé fylgt. Að minnsta kosti tveir óháðir fræðimenn lesa
allt efni sem berst til ritstjórnar. Þeir geta gert athugasemdir
og ábendingar um úrbætur sem höfundar eru beðnir að taka
afstöðu til og lagfæra eftir þörfum áður en efnið er að endingu
samþykkt til birtingar. Í ritstjórn situr fjölbreyttur hópur
sjálfboðaliða sem valinn er af stjórn félagsins. Ritstjórn er nú
þannig skipuð:
Droplaug Ólafsdóttir, líffræðingur, formaður ritstjórnar,
Esther Ruth Guðmundsdóttir, jarðfræðingur,
Hlynur Óskarsson, vistfræðingur,
Hrefna Sigurjónsdóttir, líffræðingur, fulltrúi stjórnar HÍN,
Sindri Gíslason, sjávarlíffræðingur,
Snorri Baldursson, líffræðingur,
Tómas Grétar Gunnarsson, dýravistfræðingur,
Þóroddur F. Þóroddsson, jarðfræðingur.
Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur, er rit-
stjóri tímaritsins. Hún vinnur með ritstjórn
og fylgir eftir ákvörðunum hennar.
Öllu þessu fólki er þakkað fyrir framlag sitt. Án þeirra gætum
við ekki státað af veglegasta fagtímariti um náttúrufræði sem
gefið er út á landinu. Þess ber að geta að ritstjórnarmenn fá
enga umbun fyrir sitt framlag aðra en gleðina yfir því að taka
þátt í að glæða áhuga og auka þekkingu landans á málefnum
náttúrunnar. Þau eiga heiður skilinn fyrir óeigingjarnt starf í
þágu félagsins og landsmanna allra.
FAGHÓPAR
Í gegnum tíðina hafa starfað ýmsir faghópar innan raða
Hins íslenska náttúrufræðifélags. Stjórn hefur rætt hvort
ekki sé upplagt að taka upp slíkt starf, meðal annars til að
auka möguleika félaga á að vera virkir þátttakendur á sínu
áhugasviði. Eins og sást í aðalfundarboði er tillaga stjórnar
um lagabreytingar þess eðlis að á aðalfundi séu formenn fag-
hópa kosnir um leið og stjórn, skv. 7 gr. lið c í lögum félagsins.
Hugmyndin er að faghópar vinni sjálfstætt en starf þeirra sé
í samræmi við lög félagsins. Hver faghópur eigi sér málsvara
(formann) sem er kosinn á aðalfundi, hann sé tengiliður við
stjórn og ábyrgur fyrir hópnum.
Á síðasta starfsári ákvað stjórn, með ánægju, að taka opnum
örmum starfsemi sem fram til þessa hefur fallið undir Flóru-
vini, samstarfshóp sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á
íslensku flórunni. Hópinn stofnaði Hörður Kristinsson árið
1998 og var markmiðið „að stuðla að áhuga á íslensku flórunni
meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við
þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða aðra
flóruvini við greiningar á plöntum“. Þessi markmið eru í fullu
samræmi við lög HÍN þar sem segir að tilgangur félagsins sé
að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu
manna á öllu sem snertir náttúrufræði. Í samræmi við lögin er
því tilgangur deildar Flóruvina að glæða áhuga og auka þekk-
ingu manna á flóru Íslands. Flóruvinir eiga sitt svæði á heima-
síðu félagsins, og er slóðin https://hin.is/floruvinir/.
Spendýrafélag Íslands var lagt niður síðastliðið haust og
lýstu félagsmenn eindregnum vilja til að ganga til liðs við HÍN
sem faghópur. Við fögnum þeim áformum og bjóðum nýja
félaga velkomna til liðs við félagið. Spendýrahópurinn á eftir
að marka sér stefnu og velja sér formann en við hlökkum til að
sjá hvað verður brallað á þeim vettvangi.
FRÆÐSLUERINDI
Eins og áður var getið var að venju haldið fræðsluerindi fyrir
ársfund félagsins í febrúar 2020. Ekki grunaði okkur þá að
þetta yrði eini viðburðurinn sem haldinn yrði á vegum félags-
ins þetta árið. Fyrir vikið er það eftirminnilegra en ella, ekki
síst þar sem jörð tók að skjálfa á ný nú í aðdraganda þessa
aðalfundar. Hér er ágrip af erindi Þóru Bjargar Andrésdóttur,
Ef gýs á Reykjanesskaga, hvar eru líklegustu upptakasvæðin?:
Ísland er mjög eldvirkt, eldgos eru tíð og er eldvirknin tengd
stöðu landsins á flekaskilum og heitum reiti undir landinu.
Langur tími getur þó liðið á milli eldgosa og því líklegt að
afleiðingar margra þeirra séu ekki lengur í minni manna.
Eldgos í sumum eldfjallakerfum áttu sér stað fyrir tíma vökt-
unar og hafa fyrirboðar þeirra eldgosa og eldgosin sjálf því ekki
verið rannsökuð með nútímatækni. Á Reykjanesskaga eru fimm
virk eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni kemur í hrinum, en síð-
ustu eldgosahrinu lauk með Reykjaneseldum 1210–1240.
Til þess að meta eldgosavá eldvirkra svæða er nauðsyn-
legt að hafa upplýsingar um fyrri virkni á svæðinu og því
er jarðfræðikortlagning fyrsta skrefið í hættumati. Grein-
ing á eldgosavá er sérstaklega mikilvæg á svæðum líkt og
á Reykjanesskaga þar sem íbúafjöldi er mikill og mikil-
vægir innviðir tengja bæi um langa vegalengd. Mat á tjón-
næmni Reykjanesskaga með áherslu á líklegustu svæðin þar
sem eldgos gætu hafist, ásamt nákvæmara hættumati, var
unnið fyrir Reykjanes, vestasta eldgosakerfi Reykjanesskag-
ans, sem getur ógnað Grindavík, Vogum og Keflavík ásamt
innviðum á svæðinu.
Vegna kórónuveirufaraldurs, samkomubanns og sóttvarnar-
takmarkana voru sem sé engin önnur fræðsluerindi haldin eða
-ferðir farnar á árinu 2020. Stjórn lagðist yfir möguleikana og
var reglulega áætlað að halda af stað með eitthvað slíkt, sem
ekki þótti ráðlegt að framkvæma þegar þar að kom.