Þjóðmál - 01.03.2018, Síða 54
52 ÞJÓÐMÁL Vor 2018
Árið 1789 skrifaði Benjamin Franklin, einn af
stofnendum Bandaríkjanna, bréf til franska
eðlisfræðingsins Jean-Baptiste Le Roy þar sem
hann lýsti yfir ánægju með nýja stjórnarskrá
Bandaríkjanna sem samþykkt hafði verið
árið áður. Þar sagði hann að allt útlit væri
fyrir að stjórnarskráin yrði varanleg, en þó
væri ekkert varanlegt í þessum heimi nema
dauðinn og skattar. Franklin var að vísu ekki
upphafsmaður þessa orðatiltækis, en það
hefur þó óspart verið notað í rúmar tvær aldir.
Og það er full ástæða til. Dauðanum þurfum
við öll að mæta einhvern tímann og skattar
hafa fylgt mannkyninu nær alla tíð. Heimildir
sýna að skattar voru innheimtir í Kína til forna,
sem og öðrum svæðum í Asíu. Forn-Grikkir,
Rómverjar og Egyptar innheimtu skatt af
þegnum sínum, sem oftast var nýttur til að
standa straum af hernaði og öðrum rekstri
hins opinbera. Í flestum tilvikum var um að
ræða einhvers konar eignarskatta en Egyptar
hófu síðar að innheimta skatt af einstaka
vörum, t.d. matarolíu. Skattheimtumenn
fóru þá á milli húsa til að tryggja það að
almenningur væri að nota alvöru matarolíu,
enda bar hún skatt, en ekki eitthvert sull.
Þannig að skattaeftirlit er ekki heldur nýtt af
nálinni. Í Grikklandi til forna var innheimtur
bæði eigna- og neysluskattur á stríðstímum
en á friðartímum var skattheimtan lögð
niður. Þeir sem ekki áttu gríska móður eða
föður þurftu þó að greiða svokallaðan
útlendingaskatt ef þeir vildu búa í Aþenu.
Sem fyrr segir var skattheimtu ætlað að
standa straum af kostnaði sem féll til vegna
hernaðar. Vissulega komu faraóar, keisarar
og síðar konungar sem beittu hörku við
aukna skattheimtu til að kosta tilgangslaus
stríðsátök eða aðra drauma en hvað sem því
líður hefur ríkisvaldið – í hvaða mynd sem
er – beitt þegna sína ákveðinni þvingun við
skattheimtu í þúsundir ára.
Hugmyndafræði
Gísli Freyr Valdórsson
Skattagleðin