Fréttablaðið - 19.11.2021, Side 20
Jóhanna María
Einarsdóttir
johannamaria
@frettabladid.is
Hvað er líkt með jólakett-
inum og sænsku IKEA-jóla-
geitinni? Við fyrstu sýn
virðast þessi tvö grey fátt
eiga sameiginlegt, annað en
fjölda lappa og tengingu við
jólin. Þegar rýnt er í söguna
og jólahefðir Evrópu birtast
ýmsir þræðir sem tengja
þessi tvö kvikindi saman.
Þjóðfræðingurinn Pétur Húni
Björnsson hefur undanfarin ár
verið með vinsælt uppistand á
aðventunni. Þar útskýrir hann
meðal annars tilurð jólakattarins
og annarra fyrirbæra úr íslenskri
menningu, sem í augum nútíma
Íslendings geta virkað skrítin.
Hann biðst forláts ef hann rænir
þjóðtrúna og þjóðsögurnar
rómantíkinni, en það gerist víst
þegar þjóðfræðingur nördar
yfir sig í að tengja saman gamlar
sagnir, sagnaminni og tákn.
Jólaköttur eða -geit?
„Ýmislegt kemur í ljós þegar rýnt
er í söguna á bak við íslenska jóla-
köttinn og jólageitina frá Svíþjóð
og Skandinavíu. Þessi tvö skrímsli
byggja á sama fyrirbærinu,“ segir
Pétur. „Heilagur Nikulás, eða
Sankti Kláus, viðurkenndur fyrir-
rennari jólasveinsins, er gjarnan
sýndur með púka í för með sér.
Þegar átrúnaður á heilagan
Nikulás berst til Evrópu verður
púkinn að Krampusi í Austurríki
og Ölpunum. Krampus er hroða-
legt tröll, oftast sýndur svartur
eða brúnn og loðinn, með horn og
klaufir. Á Íslandi verður púkinn
að Grýlu og að hluta til jóla-
sveinunum sem voru eins konar
óvættir framan af. Þetta er áður en
jólasveinarnir urðu meinlaus grey
í rauðum fötum. Púkinn tekur líka
á sig mynd jólakattarins. Þegar
átrúnaður á Heilagan Nikulás
berst til Niðurlanda verður púkinn
að Zwarte Piet, eins konar svörtum
púka, sem teldist í dag seint vera
pólitískt rétthugsuð vera.“
Arfleifð heilags Nikulásar
Á kaþólskum tíma var heilagur
Nikulás einn fjögurra vinsælustu
dýrlinga á Íslandi ásamt Maríu
mey, Ólafi helga Noregskonungi og
Lykla-Pétri, „en íslensku dýrling-
arnir, Þorlákur og Jón voru mun
neðar á vinsældalistanum.
Þegar Sæmundur fróði kom
heim úr námi varð hann prestur
Köttur og geit
úr sömu sveit
Pétur Húni hefur
grúft sig lengi
yfir þjóðsög-
urnar og sýnir
fram á að jóla-
kötturinn á Ís-
landi og sænska
IKEAgeitin eru
skyldari en
margir myndu
halda.
FRÉTTABLAÐIÐ/
SIGTRYGGUR ARI
Í dag herjar
jólakötturinn á
þá sem láist að
redda sér nýjum
flíkum fyrir
jólin.
í Odda og reisti kirkju helgaða
heilögum Nikulási. Sankti Kláus
er því kominn til Íslands strax
á 11. öld. Sagnirnar í kringum
dýrlinginn fylgja og síast inn
í íslenska þjóðtrú. Sama með
sagnir um óvættinn Krampus
og fylgdarsveinana, eins og
Ruprecht í Þýskalandi og hinn
hollenska Zwarte Piet. Þeir eru
hrekkjóttir en koma gjöfum frá
Nikulási til skila til þeirra sem
eiga þær skildar. Verurnar taka
á sig mynd Grýlu, jólasveinanna
og jólakattarins á Íslandi. Líkt og
evrópsku óvættirnir, leggjast þau
Grýla og kisi á fólk, og sérstaklega
börn sem hegða sér ekki rétt.
Þegar átrúnaður á heilagan
Nikulás berst til Skandinavíu og
Svíþjóðar, og sögurnar samlagast
þjóðtrúnni, slæðist með þessi saga
um púkann, nema þá er hann
orðinn að geithafri sem heilagur
Nikulás stýrir og kemur ríðandi á.“
En af hverju meinlaus geithafur?
„Það er eflaust tengt geit-
höfrunum sem draga vagn Þórs í
norrænni goðafræði. Einnig má
ímynda sér að skandinavískir
ferðalangar í Evrópu á miðöldum
hafi séð Krampussýningu í
desember. Leikarar í Krampus-
búningum hafa minnt á geitur.
Þannig afbakast sagan eða tekur
á sig nýja mynd af sænsku jóla-
geitinni.
Ég verð svo að minnast á þá
snilld sem einhverjum starfs-
manni IKEA datt í hug að gera við
uppstillingu á jólavörunum um
daginn. Í körfunum í stiganum
á milli hæða, rétt hjá veitinga-
staðnum, fyllti einhver eina
körfuna af litlum jólageitum.
Karfan við hliðina var troðfull af
eldspýtupökkum, en það má segja
að það sé að verða aðventuhefð
bæði hér á landi og í Skandinavíu
að jólageit IKEA sé brennd, eða
tilraunir gerðar til þess. Ég vona
svo sannarlega að einhver hafi gert
þetta viljandi.“
En hví er Krampus köttur á
Íslandi?
„Það er líklega vegna þess að
kötturinn í íslenskum þjóð-
sögum er nokkurs konar púki,
eins og kettir virðast gjarnan vera
í þjóðtrú víða um heim. Í þjóð-
sögum Jóns Árnasonar segir frá því
að djöfullinn hafi ætlað að skapa
mann en klúðraði því svo herfilega
að úr varð hárlaus köttur. Sánkti
Pétur miskunnaði sig yfir þessa
vesælu hárlausu skepnu, gaf henni
feld og úr varð kötturinn.
Ástæðuna fyrir vafasömum
uppruna kattarins á Íslandi má
mögulega rekja til þess að í nor-
rænni goðafræði er vagn frjó-
semisgyðjunnar Freyju dreginn af
köttum. Þar er heiðin tenging, eins
og í tilfelli geithafranna sem draga
vagn Þórs. Kötturinn stendur því,
eins og geitin, á milli heiðni og
djöfulsins úr kristni. Það hefur
legið beint við að púkinn sem
fylgdi heilögum Nikulási yrði að
ketti á Íslandi. Svo slitnar púkinn
frá heilögum Nikulási þegar
átrúnaður á dýrlinga leggst af við
siðaskiptin og púkinn skiptist upp
í Jólaköttinn og Grýlu.
Heilagur Nikulás heldur áfram
að skipta máli á meðal kaþólikka
í Evrópu, þar sem haldið er upp
á messudag hans 6. desember ár
hvert og gefnar gjafir, og hann
fylgir kaþólikkum til Ameríku.
Þar er ansi duglega hrært í sagna-
pottinum uns við erum komin
með kókakólajólasveininn. Í raun
er hann klæddur eins og líklegt er
að heilagur Nikulás hafi klæðst.
Nikulás hefur líklega verið uppi á
síðari hluta 3. aldar og fram á þá
fjórðu, og verið biskup í borginni
Mýru í Litlu-Asíu, sem er nú
Tyrkland. Hluti af biskupsskrúða
á svæðinu var rauð eða purpura-
lituð skikkja, gjarnan með hvítum
bryddingum. Rauði jólasveina-
búningurinn er því ekki alveg nýr
af nálinni.
Jólakötturinn er því í raun og
veru bara birtingarmynd hins
evrópska Krampusar, rétt eins
og Grýla og skandinavíska jóla-
geitin. Þau eru öll af sama meiði,
og eru fulltrúar ógna sem steðja að
fólki. Þetta eru verur vetrarmyrk-
ursins, og ef það er eitthvað sem
Íslendingar hafa alltaf átt nóg af þá
er það myrkur, og auðvitað spruttu
fjölmargar sögur úr því.“
Kapítalísk þróun
Í dag hafa jólakötturinn og IKEA-
geitin þróast í tvær hliðar á sama
kapítalíska peningnum. „Jóla-
kötturinn leggst á fólk fái það ekki
nýja flík á jólunum, og IKEA-geitin
er náttúrulega tákn um kapítalísk
jól, ódýrt tilgangslaust jólaskraut
og drasl. Þetta eru bókstaflega
tvær birtingarmyndir djöfulsins,
orðnar að nútímabeitu til að fá fólk
til að eyða peningum og stuðla að
ofneyslu og tilheyrandi offram-
leiðslu. Sama gildir auðvitað um
ameríska Jólakólasveininn.“
Spjaraðu þig
„Það að jólakötturinn lagðist á fólk
sem fékk ekki nýja spjör um jólin,
virðist eiga uppruna sinn í vinnu-
hörku við ullarvinnslu í kjölfar
sláturtíðar á haustin. Fólk vann úti
á daginn. Er tók að rökkva fóru allir
inn að borða og hvíla sig. Svo hófst
kvöldvakan, sem var í raun brjáluð
vinnutörn og stóð oft fram á nótt.
Þá var ullin unnin. Einhver kembdi,
annar spann, sumir þæfðu og enn
aðrir prjónuðu sokka, vettlinga og
flíkur eða ófu vaðmál.
Vörurnar voru lagðar inn hjá
kaupmanninum til þess að gera
upp reikning bæjarins fyrir
úttektir ársins. Var þetta var oft
eina leið fólks til þess að gera upp
skuldir sínar. Kaupmaðurinn seldi
vörurnar til Evrópu, þetta var því
útflutningsvara. Til er skýrsla frá
1624 um útflutning á ullar- og
vefnaðarvörum frá Íslandi. Þá
voru flutt út rúmlega 72.000 pör
af sokkum, 12.000 vettlingapör og
rúmar 12.000 álnir vaðmáls. Þetta
er náttúrulega alveg brjálæðislegt
magn og hafa nú verið einhver
handtökin sem þurfti til að fram-
leiða þetta. Árið 1789 voru svo flutt
út um 20.000 pör af sokkum frá
Berufirði einum.
Þjóðsöguna um jólaköttinn
sögðu menn til að halda fólki og
börnum við kvöldvinnuna. Jóla-
gjafir tíðkuðust almennt ekki fyrr
en komið er fram til nútímans, en
þeir sem stóðu sig vel fengu nýja
flík – sokkapar eða föðurland.
Slugsarnir fengu engin slík vinnu-
laun og máttu fara í jólaköttinn.
Í seinni tíð er búið að snúa þessu
upp í það að jólakötturinn leggist á
fólk sem kaupir sér ekki ný föt.“ ■
4 kynningarblað A L LT 19. nóvember 2021 FÖSTUDAGUR