Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 23
við höfum haft allt það sem máli skipti og við þurftum með til
fata og matar. Við áttum föt til skipta og auk þess sunnudaga- og
sparifatnað. Venja var að yngri börnin tækju við fötum sem þau
eldri uxu upp úr og engri spjör var hent fyrr en hún var útslitin.
Saumað var upp úr gömlum fötum, þar sem því varð við komið.
Heimilið var bjargálna sem kallað var, fremur veitandi en þurf-
andi. „Og nóg á sá sér nægja lætur.“ Ekki man ég til að öfund
spillti fyrir eðlilegri lífshamingju og sagt er að ágirnd sé rót alis
ills.
Pabbi stundaði sjó heimanað þegar því varð við komið. Ef
súld og hægviðri voru var róið til fiskjar, þó um sláttinn væri og
oft dregin álitleg björg í bú. Það var alltaf nóg til af harðfiski,
riklingi og reyktum silungi, auk þess sem stærri þorskhausar voru
rifnir upp og hertir. Voru þeir lostæti með selspiki. Allir smá-
hausar voru kippaðir upp á snæri, hertir og hafðir til fóðurs
búpeningi. Þar að auki var það stærsta af þorskinum flatt, saltað
og verkað að öllu heima. Síðan var það selt í verslanir sem
fullþurrkaður saltfiskur sem mun hafa verið í töluverðu verði.
Við krakkarnir stokkuðum upp lóðirnar og var gaman að því.
Okkur var bannað að kasta steini í sjóinn svo framarlega sem
vitað var um að einhverjir væru á sjó því þá átti báturinn ekki að
ná landi. Gaman var að sjá báta undir drifhvítum seglum líða
áfram í hagstæðum byr. Alltaf var í bernsku beygur í okkur
þegar skip komu inn á fjörðinn sem voru með barkalituð segl.
Við höfðum heyrt um Tyrkjaránið og gerðum okkur í hugarlund
að þeirra segl mundu hafa verið dökk. Aftur á móti voru hvítu
seglin tákn hins hugrakka og djarfa sjófaranda.
Þannig liðu bernsku- og æskuárin í leik og starfi. Þegar litið er
til baka eru árin 1912—14 einkar hugljúf og yfirleitt leið þá fólki
vel. Þá var ekki sá ys og þys, sem síðar hefur náð undirtökum í
þjóðlífinu, farinn að láta á sér bera. Vitaskuld unnu allir hörðum
höndum en áttu þó margar gleðistundir sem ekki voru keyptar
dýru verði né göróttar dreggjar í botni. Það var mikið um
heimsóknir bæja á milli og oft gist, sérstaklega að vetrinum. Fáir
voru þá að flýta sér utan þess væri þörf. Frændsemi og vinátta
áttu djúpar rætur og nutu sín vel í kyrrð og friði sveitalífsins og
21