Strandapósturinn - 01.06.1984, Blaðsíða 25
Kjós var lítil slægnajörð, tún lítið, þýft og grjót að heita mátti
i hverri þúfu í heimatúni. Aftur á móti var Húsatúnið að mestu
slétt. Búið var því frekar litið, álíka því sem víðast var á fyrsta og
öðrum tug aldarinnar. Sauðland var gott og bætti það mikið úr.
Beitarhús voru út undir Kleifunum sem á voru hafðir eingöngu
sauðir þá er ég man fyrst til mín. Svartur forustusauður, með
bjöllu í horni, sem klingdi í, hélt hópnum saman þegar með
þurfti og óveður var í aðsigi. Þeir voru föngulegir og lagðprúðir
og miklir til frálags þegar þeim var slátrað á haustin, mörinn úr
þeim var stór og drifhvítur sem þótti mikils um vert á þeim
árum. Þeim smáfækkaði og harðgerðar ær komu í þeirra stað,
uns þeir með öllu hurfu en það var ekki fyrr en eftir 1924—5
þegar fleiri ær gengu með lömbum yfir sumarið og fækkaði í
kvíum uns því að öllu lauk að færa frá.
Tek ég svo upp þar sem frá var horfið. Ekki man ég til að pabbi
fengi slægjur að, hefði þó ekki staðið á að fá þær í Reykjarfirði,
þar voru að segja mátti óþrjótandi útengi. Ekki man ég að
heylaust yrði heima þann mikla snjóavetur, 1910, né endranær.
Það var gengið vel um slægjur, allt kroppað sem ljá á festi.
Pabbi var manna greiðviknastur og hjálpfús. Hann vann á þá
lund að sem minnst bæri á, með fjasleysi og hógværð. Á hitt er
vert að minnast að það voru margir sem sáu hve velvirkur hann
var og skilaði sínu dagsverki engu að síður, þó ærinn tími færi í
að fága smíðið.
Mitt í hásumarsblíðunni dró upp dökþa bliku er styrjöldin
braust út sumarið 1914 með öllum þeim ógnum sem henni
fylgdu. Hefur nokkuð orðið aftur eins og það áður var eftir að sú
hildi var háð?
Smám saman fór að syrta í álinn. Afleiðingar styrjaldarinnar
komu æ meir í ljós með hækkun á öllum nauðsynjum og vöru-
vöntun. Eylandið við hið ysta haf fór síst varhluta af skipstöpum
og mannfórnum. Uggur og ótti heltóku marga sem áður höfðu
lifað áhyggjulitlu lífi. Þar við bættist versnandi árferði. Þegar
líða tók á vetur, 1915, gerðist kuldinn bitur og fór að bera á
íshroða en snjór var ekki mikill. Heilsufar var afleitt. Lungna-
bólga gekk sem farsótt og varð flestum þeim sem hana fengu að
23