Strandapósturinn - 01.06.1984, Page 66
Hrakti þá skipið í hríðinni inn á flóann undan stórsjó og fárviðri
svo að við ekkert varð ráðið, uns það strandaði á norðanverðu
Enginesi, þar sem fórust menn allir þeir er á voru. Skipstjórinn
var danskur maður Lund að eftirnafni og skipshöfnin einnig
dönsk, en eigi ber heimildum saman um fjölmenni hennar eða
hvort farþegar voru einnig á skipinu og þá hversu margir. Lík-
legt er og nálega fullvíst, að flestir ef ekki allir skipverjar hafa náð
landi með lífsmarki, en meiri hluti þeirra látið lífið í landbrim-
inu, því að einungis lík þriggja manna fundust fyrir ofan flæð-
armál og annarra í fjörunni, þegar upp birti hríðina og menn
komu að. Meðal þeirra skipbrotsmanna er hraustastir voru og
lengst hafa lifað er sennilega Lund skipstjóri, sem munnmælin
herma að fundist hafi dauðfrosinn í fyrrnefndum Kafteinsskúta í
Nóntöngunum sunnan megin við nesið, enda mun það hafa
verið undan veðri að sækja frá strandstaðnum. Það voru menn
Jóns bónda Árnasonar í Ófeigsfirði er fyrstir urðu varir við
skipsstrandið, mun Drangavík þá hafa verið í eyði, sem annars er
næst vettvangi allra byggðra bóla. Ófeigsfirðingum hefur að
líkindum orðið það fyrst fyrir að hlynna að líkum hinna látnu
manna, samkvæmt fornri kristilegri venju, en nokkru síðar voru
þau flutt til kirkju í Árnesi og jarðsett þar.
Trúlegt er, þó að eigi sé frá því greint í neinum heimildum, að
fljótlega eða strax er veður lægði og gekk niður hafi menn úr
landi farið fram í hið strandaða skip, sem ekki virðist hafa liðast í
sundur fyrr en þó nokkru síðar, þótt brotið væri og allmikill sjór
í lest og káetu meðan á björgun farmsins stóð. 1 skipinu voru
skepnur á lífi, bæði að því er ritaðar heimildir og munnmæli
segja, kindur, hænsni, aligrís, köttur og hundur. Erfitt og í raun
og veru ómögulegt er um það að dæma nú, þó manni komi
vissulega í hug, að ef til vill hefði skipshöfnin öll haldið lífi með
því móti að vera kyrr í skútunni, uns veðrinu létti og menn úr
landi komu á strandstaðinn.
Þegar strandsagan varð hljóðbær og almennt kunnug, ritaði
séra Jóhann Bergsveinsson Árnesprestur bréf dagsett 26.
september til sýslumanns Strandasýslu og skýrði honum frá
hvernig komið væri fyrir Höfðaskipi. En svo nefndist almennt
64