Strandapósturinn - 01.06.1984, Qupperneq 94
sem gerist best, féll aldrei verk úr hendi, jafnvel ekki þá hús-
lestur var lesinn, þá tók hún prjónana, væru það ekki eldhússtörf
var það tóvinnan sem mikið þótti til um í þann tíð, því heimilið
var löngum mannmargt. Lund Guðrúnar var einstaklega ljúf, ég
held að öllum hafi liðið vel í návist hennar, án hávaða kom hún
sínum málum fram, með hægð og ljúfmennsku.
Ævinlega fór þessi kona fyrst á fætur af öllum og síðust gekk
hún að rúmi sínu hvert kvöld. Undarlega miklu þreki var þessi
kona gædd ekki stærri en hún var. Þessi kona fór sjaldan af bæ,
man naumast til hún færi í kaupstað. Sjaldan man ég eftir að
hún færi til kirkju, aðrir urðu að ganga fyrir. Það var hennar
hlutverk að þjóna öðrum alla tíð, hún var alltaf tilbúin að draga
sig í hlé svo aðrir gætu farið og lyft sér upp til mannamóta. Ég
minnist þess að hjá þeim hjónum Guðrúnu og Guðjóni var lengi
eldri kona, eitt af olnboga-börnum þjóðarinnar sem í dag væri
kallað þroskaheft eða ekki eins og fólk er flest. Þessi kona sem hét
Sigríður Magnúsdóttir átti góða daga hjá Guðrúnu þótt hún
ynni henni mikið og trúmennska var hennar aðall. Aldrei heyrði
ég annað en Guðrún viki góðu að konu þessari.
Guðrún var ekki ein af þeim sem víða fóru um ævina. Fædd og
uppalin á Níp í Dalasýslu, — bjó meira en þrjátíu ár í Heiðarbæ, *
eyddi ævikveldinu á Hólmavík. Þetta var öll hennar reisa utan
þess að heimsækja eldri dóttur sína til Reykjavíkur.
Guðjón var af Tröllatunguætt, faðir hans Hjálmar bjó fyrst í
Tröllatungu síðan í Heiðarbæ, hann var sonur Jóns Björnssonar
aðstoðarprests í Tröllatungu og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur
frá Engidal í Skutulsfirði, Móðir Guðjóns var Sigríður Hall-
dórsdóttir prests Jónssonar í Tröllatungu. Hjálmar og Sigríður
eignuðust tvö börn: Guðjón í Heiðarbæ og Halldór á Tind í
Miðdal.
Guðjón var minnisstæður maður þeim sem þekktu hann, og
kom þar margt til. Hann var vel gefinn, hagmæltur í betra lagi,
— (verður síðar vikið að því)). Handlaginn var Guðjón og
smiður góður að eðlisfari. Til heimilisins smíðaði hann það sem
til þurfti svo sem amboð, orf, hrífur, klórur, klyfbera, fötur úr tré,
trog, kyrnur, tunnur og margt fleira. Oft kom fyrir að hann
92