Strandapósturinn - 01.06.1984, Qupperneq 105
Verkfæri voru öll heimasmíðuð og voru þau mjög vel gerð því
það kom varla fyrir að þau biluðu og að sjálfsögðu reyndi oft
mikið á þau þegar um stóra hákarla var að ræða.
í beitu var notað selspik og varð það að vera mjög vel verkað
til þess að hákarlinum líkaði lykt og bragð, því svangur hákarl
virðist vera mjög matvandur og seinn til að taka beituna, en
saddur hákarl gleypir næstum því hvað sem er. Þegar hákarl var
kominn vel undir sem kallað var voru gallpungar notaðir sem
oddbeita og gafst það vel, en gallpungur er stykki úr lifrinni
kringum gallið.
Ýmsar aðferðir voru hafðar við að framleiða sem besta beitu
fyrir hákarlinn, það þótti mjög gott að salta selspikið í svokallaða
tjörukagga en það voru ílát sem tjara var flutt í til landsins. Kom
þá tjörubragð af selspikinu. En af öllu þótti bera rommselurinn,
hann var verkaður þannig að rommi var hellt niður í dauða kópa
og bundið fyrir báða enda á þeim svo rommið læki ekki út. Síðan
voru þeir geymdir í heilu lagi þar til þeir voru teknir til beitu.
Hákarlar eru ákaflega misstórir, í daglegu tali var stærð þeirra
miðuð við hvað mikil lifur var í þeim. Helstu nöfn sem ég man
eftir voru Got, Ælingi, Rennings-doggur, Doggur,
Tunnuhákarl, Tveggjatunnu-hákarl og Eggjahákarl. Got voru
svo litlir hákarlar að þeir voru ónýtir, Ælingi var svo lítill að
hann var á mörkum þess að vera talinn hirðandi.
Rennings-doggur var vel nothæfur. Doggur var hákarl sem var
með það mikla lifur að var í hálfa tunnu og af því líka kallaður
Hálftunnuhákarl, og var það algengasta stærð af hákarli,
Tunnuhákarl var kallaður sá er lifrin var í fulla tunnu og þóttu
það mjög góðir hákarlar. Tveggjatunnu hákarlar, þar sem lifrin
fyllti tvær tunnur, voru mjög stórir og þótti bæði happ og gaman
að fá svo stórar skepnur. Eggjahákarlar voru mjög fáséðir, en það
voru kynþroska hákarlar. Þetta voru mjög stórar skepnur margir
metrar á lengd. Við á m/b Skarphéðni fengum tvo eggjahákarla
í sömu sjóferð og annar bátur, Björg frá Drangsnesi, fékk einn í
sama skipti, en Björg lá á sömu slóðum og við. Gamlir
hákarlamenn höfðu aldrei séð eggjahákarl, aðeins heyrt talað
um þá og var álit margra að þetta væri þjóðsaga en svo var þó
103