Strandapósturinn - 01.06.1984, Side 151
fjórtán ára, og það vor fór pabbi ekki vestur aldrei þessu vant, svo
hann gat verið við ferminguna mína sem aldrei fyrr hafði verið,
að hann gæti verið við fermingu barna sinna. Það var verið að
segja við pabba að hann væri að bíða eftir mér til að fara með
mig vestur og sýna mér leiðina sem hann hefði farið um áratugi.
Hann tók því vel, en ástæðan fyrir því að hann fór ekki vestur
þetta vor var sú að þegar hann ætlaði á stað um morguninn að
þá varð hann svo illa haldinn af gigt að hann gat ekki með
nokkru móti farið, sem varð svo til þess að hann var hér heima í
sveitinni um vorið við ýmsa vinnu hjá hinum og þessum. Eg
vandist snemma við sjó með pabba mínum og var líka mjög
hneigður til þess. Foreldrar mínir fluttu í Ormstangann á
Kirkjubóli vorið 1915 frá Smáhömrum þar sem þau voru búin
að vera í 13 ár, pabbi var þar alltaf formaður fyrir Björn á
haustin en framan af heyskapartímanum var pabbi í heyvinnu.
En þrettánda haustið var pabbi ekki formaður vegna einhvers
lasleika, gigtar eða einhvers sem að var. Og hvort þá hefur ekki
verið húspláss fyrir hann lengur á Smáhömrum ef hann gat ekki
verið lengur formaður veit ég ekki, þó ég heyrði það sagt. Það
voru verbúðir í Tanganum eins og maður nefndi oft Ormstang-
ann. Guðjón Jónsson vaktari eins og hann venjulega var kall-
aður, því hann var áður næturvörður á Isafirði, var þá eigandi að
þvi sem þar var og hann fékk pabba minn til að vera formann
fyrir sig á bát sem Guðjón átti þar, og þarna gat pabbi fengið
frekar rúmt húspláss sem fylgdi og furðu gott eftir því sem þá
gerðist. Vorið sem ég fermdist fór ég að Heiðarbæ sem vinnu-
maður þó lítill væri, og um haustið réri ég hjá pabba. Þegar kom
fram á veturinn þá varð það svo fyrir nöldur í mér við pabba
minn að hann réði mig hjá ágætum manni í Bolungarvík, Guð-
mundi Jónssyni frá Tungu, venjulega kenndur við þann bæ,
öðru nafni Þjóðólfstunga. Þá var ég nú ráðinn sem útróðramaður
vestur í Bolungarvík. Mér fannst þetta talsvert virðulegra til
umhugsunar heldur en að vera að snúast í kringum ærrassana í
Heiðarbæ, en þó fann ég að þetta myndi vera kannske meira en
ég væri maður til, en það varð nú að hafa það, því hugur minn
hneigðist meira til sjávar en annarrar vinnu. Annan dag páska
149