Saga - 2012, Page 15
kerfi. Gerður er greinarmunur á mönnum eða fyrirbærum með því
að benda á þætti sem eru öðruvísi og aðgreinandi. Hvernig þeir
þættir eru valdir og metnir á sér rætur í því samfélagi sem aðgrein-
ir. Þó að sumir þættir séu nærtækari en aðrir þurfa þeir ekki af þeim
sökum að vera ráðandi. Óvíst er hvort hægt sé að tala um „eðlis-
læga“ aðgreinandi þætti.
Reinhart Koselleck hefur bent á að þau hugtök sem hópar nota
um sig og aðra hópa séu ekki einungis vísbending um hvernig
greint er á milli, heldur móti þau beinlínis aðgreiningarferlið.5 Í til-
teknu hugtaki getur t.d. verið fólgin tvíhyggja. Menn eru þá ýmist
skilgreindir út frá því hvað þeir eru eða hvað þeir eru ekki. Hugtök
sem notuð eru hafa mótandi áhrif. Í íslensku miðaldasamfélagi voru
kristni og heiðni slík lykilhugtök. Sjálfsmynd Íslendinga var mótuð
með því að lýsa heiminum og skilgreina hann, flokka þá sem hann
byggðu og aðgreina eftir mismunandi þáttum. Þeir þættir sem
skiptu mestu máli í slíkri flokkun manna, í okkur og hina, voru
aðgreining hins kunnuglega og hins framandlega og trúarleg að -
grein ing á kristindómi annars vegar og villutrú eða heiðni hins
vegar.
Mikilvægi trúarinnar í því að skilgreina menn sem andstæðinga
birtist í því að andstæðingar í stríði voru oft kallaðir heiðingjar en
ekki kenndir við eitthvert ríki eða land. Sá þáttur í fari þeirra sem
skipti máli voru trúarskoðanir þeirra. Erlend hugtök á borð við
barbarus voru svo þýdd á norrænu sem „heiðinn“, og skilin á milli
hins klassíska Miðjarðarhafsheims og barbaraheims Norðurálfu
urðu því skil kristni og heiðni.6 Þar sem heiðingjar gátu tekið kristni
var ljóst að þeir gátu breyst, og þessi þáttur í fari þeirra var því ekki
endanlegur. Þau skil sem voru á milli kristni og heiðni náðu ekki
endilega til einstaklinga sem aðhylltust ólíkan sið, því að sami
maður gat verið í hvoru tveggja liði á ólíkum skeiðum ævi sinnar.
Að því leyti voru skilin á milli „okkar“ og „hinna“ ekki endanleg.
Í ýmsum ritum sem tiltæk voru Íslendingum á þessum tíma
kemur fram sú skoðun að heiðingjar séu höfuð andstæðingar krist-
inna manna og stríð við þá nauðsynlegt. Þeir ágirnist lönd kristinna
íslam og andstæður … 13
5 Reinhardt Koselleck, Vergangene Zukunft. Zur Semantik geschichtlicher Zeiten.
Suhrkamp taschenbuch. Wissenschaft 757 (Frankfurt am Main: Suhrkamp 1992
[1979]), bls. 212.
6 Ian McDougall, „Foreigners and Foreign Languages in Medieval Iceland,“ Saga-
Book 22 (1987–1988), bls. 208.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:46 Page 13