Saga - 2012, Side 58
útrýma misskiptingu auðs, valda og áhrifa.82 Krafan um jafna hlut-
deild í samfélaginu var jafnframt leið til að ná fram almennri sam-
félagslegri siðbót, sem var þriðja undirliggjandi áhersla þýðinga í
ritum róttækra Vestur-Íslendinga. Hún birtist m.a. sem eindregin
friðarhyggja, dýravernd og persónubundin sjálfsstjórn í hvers kyns
nautnum, og þýðingarnar áttu það sameiginlegt að fordæma of -
beldi, sem væri stofnanabundið og útbreitt en jafnframt á undan-
haldi undan óstöðvandi framförum mannsandans í átt til upplýs -
ingar og siðbótar.83
Saman gefa þessar þýðingar mynd af undirliggjandi óánægju
með ríkjandi ástand og róttækum hugmyndum um umbætur sem
ná allt frá umfangsmiklum ríkisrekstri til afnáms ríkisvalds, auknu
frelsi einstaklingsins til alræðis almenningsálitsins, útrýmingu trúar-
bragða til uppfyllingar „sanns“ kristindóms. Þær endurspegla áhrif
ólíkra hugmyndastefna á hóp Vestur-Íslendinga, hugmyndastefna
sem eiga það eitt sameiginlegt að andæfa ríkjandi ástandi en hampa
andófinu sem slíku í nafni róttækra samfélagsbreytinga. Þrátt fyrir
skiptar skoðanir um grundvallaratriði litu þau á sig sem samherja í
baráttu gegn afturhaldsöflum vesturíslensks samfélags og fyrir rót-
tækum breytingum á kanadísku samfélagi. Blöð þeirra voru að því
leyti ekki bara vettvangur til að boða hugmyndir þeirra um
samfélagið, heldur voru þau sameiginlegt mótsvar róttæklinga við
einsleitri flokkapólitík Heimskringlu og Lögbergs og þeim trúar- og
samfélagsskoðunum sem haldið var á lofti í öðrum ritum Vestur-
Íslendinga.
Athvörf og félagsskapur
Í bók sinni um innflytjendur á sléttum Kanada taka sagnfræðing-
arnir Gerald Friesen og Royden Loewen fyrir þrenns konar athvörf
56
82 Edward Bellamy, Vatnsþróin; Frank Parsons, „Sjálfstjórn“, Baldur 23. mars og
6. apríl 1903; Elizabeth Cady Stanton, „The Matriarchati, eða Öld mæðranna“,
Freyja 4:5–7 (1901), bls. 109–114 og 125–129; Leo Tolstoy, „Ánauð vorra tíma“,
Maple Leaf Almanak (1905), bls. 23–31.
83 R.B. Kerr, „Nítjánda öldin“, Maple Leaf Almanak (1903), bls. 1–8; C.B. Cooper,
„Anarchism“, Maple Leaf Almanak (1904), bls. 47–52; Emile Zola, „Hin dásam-
lega hjálpræðiskenning“, Baldur 13. og 20. apríl 1903; „Eitthvað þarf að lagast“,
Baldur 28. september 1904, bls. 2; Cleaveland Moffett, „Misbrúkun auðæfa“,
Baldur 29. júní 1907, bls. 2–4; R.G. Ingersoll, „Jólaræða“, Dagskrá II 22. maí 1902,
bls. 4.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:46 Page 56