Saga - 2012, Blaðsíða 61
„ánægja með það sem er … 59
sem hélt uppi andófi gegn ríkjandi hugmyndum.90 Einar Ólafsson
gekk jafnvel svo langt að kalla söfnuðinn „byltingarstofnun“.91
Séra Jón Bjarnason og aðrir forystumenn Hins evangeliska lút-
erska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi (Kirkjufélagsins) brugð -
ust með fyrirsjáanlegum hætti við slíkri ögrun við vald þeirra. Únit-
arar voru kallaðir „óstýrilátir, oflætisfullir, hrottalegir ribbaldar“
sem ötuðu samfélag Vestur-Íslendinga andlegum saur með gagn -
rýni sinni á ríkjandi trú. Haldnir voru sérstakir fundir innan Kirkju -
félagsins til að ræða það hvernig best væri að bregðast við „árásum“
únitara.92 Á síðum blaða sinna héldu únitarískir róttæklingar hins
vegar uppi gagnrýni á „ortodox“ kirkjur sem þjónuðu þeim eina til-
gangi að viðhalda ríkjandi þjóðfélagsskipulagi, kenna mönnum „að
lúta keisurum, konungum og þjóðhöfðingjum“ og halda hlífiskildi
yfir hinum „kapítalistisku“ stofnunum sem héldu fjöldanum í ör -
birgð en gerðu „nokkra menn ríka, sem gefa kyrkjunum fje og
stofna fyrir þær skóla o.s.frv.“ Öðru máli gegndi um „skynsemis -
trúar-kyrkjurnar“ (þ.e. únitara) sem hvettu til sjálfstæðrar hugsun-
ar, efa og gagnrýni á ríkjandi ástand.93 Róttæklingar eins og Einar
Ólafsson og Sigfús B. Benedictsson skilgreindu únitarasöfnuðinn
þannig sem vettvang til andófs, eða í það minnsta til umræðu um
þjóðfélagsmál sem væri laus undan fargi kennisetningar og vald -
boðs kirkju sem starfaði leynt og ljóst að viðhaldi ríkjandi ástands.
Í þeim tilgangi að mynda rými til frjálsrar umræðu stofnuðu
nokkrir meðlimir únitarasafnaðarins haustið 1906 málfundafélag
sem var nefnt Menningarfélagið.94 Eina yfirlýsta stefna þess var að
„efla frjálslyndi og auka víðsýni“ og hélt það opna fyrirlestra og
90 Sbr. Heimir 5:1 (1908), bls. 2. Sjá einnig „Eftirþankar um trúmálafundina“,
Heimir 2:3 (1905), bls. 65–69; Rögnvaldur Pétursson, „Conformity“, Heimir 5:5
(1908), bls. 97–114.
91 Einar Ólafsson, „Hvað vill þetta fólk?“ Baldur 10. júní 1907, bls. 2.
92 Jón Bjarnason, „Að Helgafelli. Fyrirlestur fluttur á kirkjuþingi að Garðar,
Norður-Dakota, mánudaginn 23. júní 1902“, Aldamót 12 (1902), bls. 23. Um
viðbragðsfundi sjá „Trúmálafundir lútherskra manna“, Heimir 2:2 (1905), bls.
37.
93 Einar Ólafsson, „Siðferði kyrknanna“, Baldur 19. september 1906, bls. 3. Sjá
einnig S. B. Benedictsson, „Bókmennta-heimur Vestur-Íslendinga“, Maple Leaf
Almanak 1905, bls. 3–13.
94 Félagið hét eftir sams konar félagi sem Stephan G. Stephansson og fleiri höfðu
stofnað í Íslendingabyggðum Dakota um tveimur áratugum fyrr. Um það félag
sjá Viðar Hreinsson, Landneminn mikli, bls. 287–299.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 59