Saga - 2012, Qupperneq 63
„ánægja með það sem er … 61
stefnu, sem nú er að ryðja sér til rúms í nútíðarskáldskap“ og bera
saman bækur sínar í bragfræði og skáldskap og „læra hver af öðrum
íslenzka tungu … fagra og rétta og óblandaða“.99 Að sögn Guttorms
J. Guttormssonar skálds og rithöfundar, sem var stofnfélagi í Hag -
yrðingafélaginu, var félagið í raun bara óformlegt lestrar- og mál-
fundafélag þar sem kunningjar komu saman og ræddu „um allt sem
var efst á baugi og þeim fannst sig varða.“100
Félaginu og ljóðrænum afrakstri þess var mætt með megnri
andúð af ýmsum fyrirmennum vesturíslensks samfélags. Talað var
um þörfina á því að „ganga á milli bols og höfuðs“ á þessu félagi
sem uppfullt væri af „andleg[um] anarkismus“ og jafnvel skaðlegt
fyrir samfélagið.101 Hagyrðingafélagið var jafnframt vettvangur til
þess að spotta íhaldssama siðapostula. Þannig voru séra Friðrik J.
Bergmann og séra Jón Bjarnason, lúterskir prestar sem segja má að
hafi trónað á toppi hins félagslega píramída Íslendinga í Winnipeg,
gerðir að opinberum heiðursfélögum í félaginu að þeim sjálfum for-
spurðum, en þeir voru reknir opinberlega úr því stuttu síðar fyrir að
vanrækja það.102
Stofnun félagsins var beinlínis viðbrögð við því sem félagsmenn
töldu þvermóðsku, íhaldssemi og yfirgang ráðandi afla vestur -
íslensks samfélags. Sagan sýndi, að áliti Sigurðar Júlíusar, að frjáls-
lyndar skoðanir gætu aldrei þrifist „í skjóli grárra hára“ valdsmanna
og þeir sem hvorki veifuðu „merki stjórnarsnápa né kennimanna“
þyrftu ávallt að þola mótspyrnu valdsins gegn nýjum straumum.
Þess vegna væri Hagyrðingafélagið laust við hvers kyns tengsl við
stjórnmálaöfl, kirkju, auðmenn eða almenningsálit en einfaldlega
starfrækt sem fámennt félag kunningja.103 Félagið var með öðrum
orðum athvarf ungra skáldhneigðra karla og kvenna sem syntu á
móti straumnum. Að sama skapi var félagið vettvangur fyrir rót-
tæka Íslendinga í Vesturheimi til að halda í þjóðlega menningu sína
og það var þeim kappsmál að tala „góða“ íslensku og vanda vel til
99 „Hagyrðingafélag“, Dagskrá II 20. janúar 1903, bls. 1; Sigurður Júlíus Jóhannes -
son, „Í bróðerni“, Heimskringla 24. ágúst 1905, bls. 2.
100 Guttormur J. Guttormsson, „Sigurður Júl. Jóhannesson“, bls. 155.
101 Lárus Guðmundsson, „Til Hjálms og Hagyrðinga“, Heimskringla 2. júní 1904,
bls. 3. Lárus var áberandi í starfi lúterska söfnuðarins í Winnipeg. Hann var
faðir rithöfundarins Laura Goodman Salverson.
102 Guttormur J. Guttormsson, „Sigurður Júl. Jóhannesson“, bls. 155–156. Sjá
einnig: „Hagyrðingafélag“, Dagskrá II 20. janúar 1903, bls. 1.
103 Sigurður Júlíus Jóhannesson, „Í bróðerni“, Heimskringla 24. ágúst 1905, bls. 2.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 61