Saga - 2012, Page 66
hornauga af hinni engilsaxnesku menningarelítu, sem flokkaði inn-
flytjendur eftir því hversu líklegir þeir voru taldir til vandræða -
lausrar samlögunar að ráðandi menningu. Þar þóttu Íslendingar
ásamt öðrum Skandinavíuþjóðum standa næst enskumælandi inn-
flytjendum að gæðum.105 Í augum fyrirmenna vesturíslensks sam-
félags á borð við Baldwin L. Baldwinsson, ritstjóra Heimskringlu og
þingmanns Íhaldsflokksins á þingi Manitoba, var Kanada einnig
talið nánast óaðfinnanlegt sæluríki, hafið yfir alla gagnrýni, og sam-
lögun að ráðandi þjóðfélagsgerð álitin sjálfsögð.106 Meðal Íslendinga
voru sömuleiðis uppi háværar raddir um mikilvægi þess að geta
sýnt innfæddum fram á „að við Íslendingar erum dugleg, framtaks-
söm og félagslynd þjóð, og að við eigum skilið að heita Íslendingar“
og áhersla þannig lögð á að „sanna sig“ fyrir herraþjóðinni.107
Skiptar skoðanir voru þó meðal íslenskra innflytjenda um hvort
Íslendingar ættu alfarið að samlagast kanadísku þjóðerni eða ríg-
halda í þjóðernisleg sérkenni sín, en slíkar þrætur tengdust meira
sjálfsmynd (og ímynd) Íslendinga vestanhafs en afstöðu þeirra til
kanadísks samfélags sem slíks.108
Fyrir róttæklinga á borð við Sigurð Júlíus Jóhannesson og Sigfús
Benedictsson skipti þjóðernið sjálft eða ímynd þess í augum inn-
fæddra minna máli en þau málefni sem taka þurfti afstöðu til hverju
sinni. Þá kröfu að Íslendingar töluðu einni röddu út á við kölluðu
þeir kreddu og falskenningu; þjóðerni íslenskra innflytjenda væri
ekki í hættu þótt „vér tökum hlutdeild í þeim málum, sem snerta
heild þjóðarinnar hér í landi“. Þvert á móti væri það Vestur-Íslend-
vilhelm vilhelmsson64
105 W.C.V., „Cosmopolitan Winnipeg. 1: The Icelanders“, Manitoba Free Press 16.
nóvember 1912; Daniel McIvor, Work and the Working Men of Winni peg.
Ritgerð til MA-prófs við University of Manitoba, 1908, bls. 7; James Woods -
worth, Strangers Within Our Gates or Coming Canadians (Toronto: University of
Toronto Press, 1972 [1909], bls. 77–80. Um innflytjendamál Kanada við upp-
haf 20. aldar, sjá Donald Avery, ‚Dangerous Foreigners‘. European Immigrant
Workers and Labour Radicalism in Canada 1896–1932 (Toronto: McClelland and
Stewart 1979).
106 B. L. Baldwinsson, „Fyrir minni Canada. 2. ágúst 1901“, Heimskringla 22. ágúst
1901, bls. 2.
107 Jónas Daníelsson, „Um íslenzkan félagsskap“, Heimskringla 11. mars 1893, bls.
3.
108 Sjá t.d Steinþór Heiðarson, „Í sláturpotti umheimsins. Brot úr baráttunni fyrir
varðveislu íslensks þjóðernis í Vesturheimi“, Þjóðerni í þúsund ár? Ritstj. Jón
Yngvi Jóhannsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Sverrir Jakobsson
(Reykjavík: Háskólaútgáfan 2003), bls. 105–117.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 64