Saga - 2012, Side 69
„ánægja með það sem er … 67
svívirðingar af hálfu fyrirmenna þess fyrir vikið. Á sama tíma var
gagnrýni og andófsstarf þessara ólíku en lauslega tengdu róttækl-
inga á einhvern hátt liður í aðlögun þeirra að nýju samfélagi. Í
gagnrýninni fólst kærleikur gagnvart hinum nýju heimkynnum,
óskin eftir því að gera landinu gagn, og pólitískt starf þeirra tók
ávallt mið af því að auka þátttöku þeirra sjálfra, og íslenskra inn-
flytjenda í Vesturheimi almennt, í stjórnmála- og menningarlífi hins
nýja lands. Í því skyni gengu þau til liðs við ýmis róttæk öfl í
Vesturheimi, tóku þátt í starfi þeirra eða boðuðu hugmyndafræði
þeirra. Þannig urðu þessir íslensku innflytjendur á sléttum Kanada
hluti af fjölþjóðlegum hreyfingum anarkista, sósíalista og kven -
frelsis sinna og töluðu máli þeirra gagnvart samlöndum sínum um
leið og þau lögðu lóð á vogarskálar stjórnmálanna í sínum nýju
heimkynnum.
Hafi þessir róttæklingar verið „milli vita“ í einhverjum skilningi
þá hefur það verið í þjóðernislegum skilningi. Pólitískt starf þeirra
— stjórnmálaþátttakan, blaðaútgáfan, hugmyndafræðilegu umræð -
urnar — ber þess merki að þeir hafi talið sig fyrst og fremst þegna
kanadísks samfélags. Það var fyrir breyttum stjórnmálum og
breyttri félagslegri skipan í því landi sem þeir börðust. En umræða
þeirra fór að langmestu leyti fram á íslensku og það er lýsandi fyrir
stöðu þeirra sem innflytjenda af fyrstu kynslóð. Þeir vildu vera
kanadískir þegnar — „þess börn vér skulum fremur kær“ — en
hugsuðu, töluðu, skrifuðu og ortu sem fyrr á íslensku og lögðu sig
eftir því að viðhalda tungu sinni og menningu. Hugmyndaheimur
þeirra var þvermenningarleg blanda ólíkra áhrifa sem hafði sérstaka
merkingu fyrir þeim og var aðeins aðgengileg þeim sem deildu
sama reynsluheimi. Þess vegna létu þeir sér að mestu leyti nægja að
tala máli róttækra hugmynda gagnvart samlöndum sínum, sem
deildu sams konar hugarfarslegum og menningarlegum bakgrunni.
Af sömu ástæðu leituðust vesturíslenskir róttæklingar eftir því
að skapa sér sín eigin félagslegu athvörf sem vettvang til pólitískr-
ar umræðu og félagslífs, lausir undan forræði ráðandi afla í sam-
félagi Vestur-Íslendinga. Sem róttæklingar átti þessi hópur litla sam-
leið með þeim menningarlegu áherslum sem voru ríkjandi í félagslífi
Íslendinga í Winnipeg, en sem íslenskir innflytjendur gátu þeir ekki
heldur uppfyllt allar félagslegar þarfir sínar innan hópa sem töluðu
önnur tungumál, höfðu annars konar menningarlegan bakgrunn,
aðra menntun, ólíka umræðuhefð o.s.frv. Fyrir vikið leituðust þeir
við að skapa sér sín eigin rými, sín eigin athvörf, þar sem hægt var
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 67