Saga - 2012, Side 72
Saga L:2 (2012), bls. 70–111.
hrefna róbertsdóttir
Munaðarvara og matarmenning
Pöntunarvara árið 1784
Á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn hefur varðveist verslunarbók sem
sýnir innflutning sérpantaðrar vöru til Íslands frá árinu 1784, eða frá tíma
hinna mannskæðu móðuharðinda. Hluti hins sérpantaða varnings var mat-
vara, svo sem fíkjur, þurrkuð kirsiber og ostar, en einnig húsbúnaður,
fatnaður og skartgripir: postulín, pelsar og gullhringar. Í þessari grein
verður áhersla lögð á að skoða matarmenningu landsins út frá þessari heim-
ild og einnig vikið að því hvaða mynd hún gefur af sérpöntunum og
munaðarvöruinnflutningi landsmanna undir lok 18. aldar. Verslunarbókin
tekur til alls landsins og veitir innsýn í hvaða félagshópar pöntuðu mun -
aðar varning til hinna 25 hafna landsins. Hún er einstæð heimild um matar -
æði 18. aldar, lifnaðarhætti og byggðamenningu.1
§ 99. Mandelterta gjörist af einu pundi af sætum, og 4 lóðum af bitrum
mandelum, skálduðum í heitu vatni, og flegnum úr hýðinu. Þetta smá-
steytist með rauðu úr eggjum; smásteytt og sigtað pund af hvítu sykri
er, ásamt 14 eggjarauðum í tréskál vel samanhrært með birktum vendi,
einn fjórðung stundar eður lengur, svo eru steyttu mandelin látin þar í,
og, ef til er, nokkuð af rifnum sítrónuberki, sem allt er en vel hrært sam-
an einn fjórðung stundar; hvítan úr þeim 14 eggjum er með áminnst-
um vendi slegin eður þyrluð vel upp í froðu, 2 knefar af smárifnu
hveitibrauði hrærðir inn í mandeldeigið ofur vel ásamt eggjafroðunni,
uns vel er jafnað. Í tertupönnu eður formi, vel innan smurðu með smjöri
og rifnu hveitibrauði, á nú þessi mandelterta við hægar glæður að
bakast, viðlíka og smjördeigskakan, sjá § 98.2
Þessa uppskrift að möndluköku er að finna í matreiðslubókinni
Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur sem gefið var
1 Þessi rannsókn er hluti af stærra verkefni sem undirrituð sinnir nú og ber heitið
„Þéttbýlishverfi og byggðamenning á Íslandi á árnýöld“. Verkefnið er þriggja
ára rannsóknarverkefni og er styrkt af Rannís/START í samstarfi við FP7 Marie
Curie Actions og Þjóðskjalasafni Íslands.
2 Marta María Stephensen, Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur.
Þorfinnur Skúlason og Örn Hrafnkelsson bjuggu til prentunar. 1. útg. Leirár -
garðar 1800 (Hafnarfjörður: Söguspekingastifti 1998, 3. útg.), bls. 55–56.
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 70