Saga - 2012, Page 153
miklu meira efni undir heldur en hugsanlegt endurmat á táknrænu hlut-
verki handverks. Þar er ég með í huga efni eins og þróun heimilisiðnaðar-
ins sjálfs og ýmsar spurningar sem umræðan um hann vekur. Svo dæmi sé
tekið: Hvað er hæft í þeirri fullyrðingu Guðmundar Hannessonar, sem lesa
má á einum stað í ritinu, að Íslendingar hafi starfað að iðnaði allt árið en
með tilkomu útlends iðnaðar hafi almenningur „kastað þessu frá sér“ miklu
fyrr en aðrar þjóðir (bls. 241)? Því svarar höfundur ekki. Að sama skapi
finnst mér efnið kalla á mat höfundar á því að hvaða marki heimilisiðn-
aðurinn gekk í endurnýjun lífdaganna fyrir tilstuðlan heimilisiðnaðarhreyf-
ingarinnar. Siðræn og uppeldisleg viðhorf voru snar þáttur í heimilis iðn -
aðar hreyfingunum annars staðar á Norðurlöndum, en hvernig var þessu
háttað á Íslandi? Oft grillir í pólitískar hliðar heimilisiðnaðarmálsins í rit-
gerðinni: Átti að láta heimilisiðnaðinn sigla sinn sjó eða örva hann? Og þá
til hvers: endurreisa sveitirnar eða efla atvinnu og iðjusemi bæjarbúa á
dauðum tímum ársins? Að þessum álitamálum víkur Áslaug, en þau liggja
utan við tilgátuna.
Þá kem ég að orðalagi tilgátunnar. Hún er svo orðuð að Íslendingar hafi
„lítið nýtt sér tækifærin sem voru falin í umræddum hreyfingum til að móta
handverki sveitasamfélagsins þjóðernislega táknrænt hlutverk“ (skáletrun mín).
Nú verð ég að játa að það er ekki alveg skýrt í mínum huga hvað það merkir
að „móta handverki sveitasamfélagsins þjóðernislega táknrænt hlutverk“,
þrátt fyrir útskýringar höfundar í bókinni. Hér hefði mátt útskýra nánar
hvað átt er við og á hvern hátt slíkt endurmat á hlutverki handverksins
hefði getað orðið.
Það vekur athygli mína að Áslaug bindur tilgátu sína við handverk
sveitasamfélagsins en ekki handverkið í samtímanum, hvort heldur
hefðbundið eða nútímavætt. Ef við lítum til hinna norrænu landanna — og
mér sýnist það eiga líka við um Ísland — var sú mikla vakning sem reis upp
með heimilisiðnaðarhreyfingunni vissulega fólgin í hyllingu hins þjóðlega
menningararfs, þar sem handverk bændanna var álitið innsti kjarninn í
verkmenningu þjóðanna í samræmi við þjóðernishugmyndir tímans. En
heimilisiðnaðar- og handverksvakningin sótti einnig næringu í endursköpun
þjóðlegra hefða og jafnvel nýsköpun fyrir áhrif erlendra strauma og stefna.
Listamenn og hagleiksfólk notaði nýja tækni, efni og vinnubrögð til að
skapa nýja hluti, að sjálfsögðu oft innblásnir af hefðinni. Ég tók sérstaklega
eftir ummælum sem Áslaug hefur eftir Denise Hagströmer, sérfræðingi í
sænskri hönnunarsögu: „Sweden experienced a major cultural mobilization
in the 1900s, with tradition being celebrated with unprecedented scope and
vigour. In fact, most of today’s notions of Swedishness were manufactured
at this time“ (bls. 36). Manufactured er hér lykilorð og gefur til kynna að
hefðbundið handverk er ekki fast og óhaggað um aldir heldur endurskapað
og jafnvel búið til eftir tísku og tíðaranda hvers tíma. Um þetta hefur margt
verið ritað af fræðimönnum, m.a. í anda hugmyndarinnar um „the inven-
andmæli 151
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 151