Saga - 2012, Side 187
dalur–Vesturárdalur, Askov og Árósar, Kaupmannahöfn, Við Gammel
Kongevej, Grantofte, Á Friðarhólmi, Skriðuklaustur, Dyngjuvegur og Viðey.
Þessum köflum er síðan skipt niður í allmarga undirkafla.
Fjölþættar heimildir eru notaðar í þessari ævisögu. Tilvísanaskráin leiðir
skýrt í ljós hve mikil vinna liggur að baki þessu verki. Eins og við var að
búast leitar höfundur mikilla fanga í handritasafni Gunnars Gunnarssonar
á Landsbókasafni en það sama má segja um fjölmörg önnur skjalasöfn,
íslensk og norræn. Þá hafði hann til handargagns ýmiss konar einkaskjöl frá
erfingjum skáldsins en óhætt er að fullyrða að án þeirra hefði þetta orðið
önnur bók. Auk þess fékk höfundur aðgang að gagnasafni eins af læri-
meisturum sínum, Sveins Skorra Höskuldssonar (1930–2002), prófessors í
íslenskum bókmenntum, sem hafði unnið lengi að undirbúningi að ritun
ævisögu Gunnars, m.a. með því að taka ítarleg viðtöl við skáldið og ýmsa
aðra sem því tengdust. Að lokum má geta þess að Fjallkirkjan, hið kunna
sjálfsævisögulega skáldverk Gunnars, kemur vitaskuld við sögu í Landnámi,
en höfundur leiðir lesendum vel fyrir sjónir hvað þurfi að varast við nýtingu
slíkrar heimildar í ævisögu sem þessari. Raunar gildir það almennt um bók-
ina að lesendur eru reglulega látnir vita úr hvaða heimildaforða verið er að
moða.
Sú staðreynd að höfundurinn er sérfræðingur í menningarlegum sam-
skiptum Dana og Íslendinga á 19. og 20. öld gerir hann sérlega vel til þess
fallinn að takast það erfiða verk á hendur að rita ævisögu manns sem lifði í
tveimur menningarheimum eða á mörkum þeirra, dönskum og íslenskum.
Gunnari er lýst sem útlaga- og nýlenduhöfundi um leið og sá nýlendu-
hugsunarháttur (bls. 195) sem einkenndi danska ritdóma á verkum Gunnars
er greindur. Þekking á straumum og stefnum í dönsku menningarlífi er
m.ö.o. mikilvæg forsenda þess að geta útskýrt stöðu Gunnars í bókmennta-
sögunni og sögu álfunnar almennt. Hér mætti t.d. nefna hvernig höfundur
staðsetur Gunnar í straumi svokallaðra átthagabókmennta í Danmörku á
árunum milli stríða, bókmennta sem lögðu áherslu á „heilbrigði, kraft og
samspil manns og náttúru“ (bls. 154).
Þessi nýja bók er ekki aðeins skrifuð fyrir fræðimenn á sviði íslenskrar
menningar heldur einnig fyrir fróðleiksfúsan almenning, reyndar alla þá
sem áhuga hafa á sögu 20. aldar. Sú mynd sem hér er dregin upp af Gunnari
Gunnarssyni sýnir nefnilega glöggt að hann endurspeglar liðna öld á sinn
hátt. Hér birtist Gunnar sem brúarsmiður milli gamla samfélagsins og þess
nýja, samfélags nútímans. Hugtakið „öld öfganna“ kemur einnig upp í hug-
ann vegna þess að Gunnar átti a.m.k. í tímabundnu sambandi við róttækar
stjórnmálastefnur aldarinnar. Hann hlýddi t.d. á Stalín á Rauða torginu í
Moskvu árið 1927 og gekk á fund Hitlers í kanslarahöllinni í Berlín árið
1940. Þrátt fyrir þetta daður virðist hann alla tíð hafa litið á sig sem friðar-
sinna, mann sem vildi efla samvinnu Norðurlanda. Hann vildi jafnvel koma
á samnorrænu ríki sem yrði nægilega öflugt, menningarlega og hernaðar-
ritdómar 185
Saga haust 2012_Saga haust 2004 - NOTA 27.11.2012 10:47 Page 185