Saga - 2015, Blaðsíða 55
ankorítar og hermítar á íslandi 53
Munurinn lá umfram annað í umfangi þeirra verkefna sem fólk er
lifði annars vegar einsetulífi og hins vegar klausturlífi tók að sér í
umboði Rómakirkju. einsetufólk tók gjarnan þátt í kennslu og
hjúkrun og fæddi fátæka, ætti það þess kost, en í mun minni mæli
en klaustrin. Þau voru á hinn bóginn allt í senn: kirkjur, skólar, spít-
alar, ölmusuhús og elliheimili. kostnaður við rekstur þessara tveggja
kirkjulegu stofnana var því harla ólíkur. klaustrafólk tók aftur á
móti þátt í fjárfrekum rekstri stofnana sinna í gegnum viðskipti með
jarðir, lausafé og önnur verðmæti og byggði um leið upp tekjustofna
fyrir Rómakirkju. klaustrin réðu gjarnan fólk til líknarstarfa eða
annarra verka, svo sem að sinna eignum klaustranna, búskap á jörð -
um þeirra, matseld, klæðagerð, garðrækt, hjúkrun og aðhlynningu,
en einnig til þess að framleiða söluvarning, svo sem bækur og klæði.
einsetufólk safnaði hins vegar ekki auði eða eignum fyrir kirkjuna í
gegnum jarðagóss og bú eins og klaustrin gerðu.15
Þær tvær tegundir einsetulifnaðar, sem áður er getið, hafa tekið
ýmsum breytingum í aldanna rás og því getur oft reynst erfitt að skil-
greina nákvæmlega hvora tegundina um sig.16 Hermítar voru, líkt og
fyrr segir, einsetufólk sem var bæði sýnilegt og jafnvel hreyfanlegt
innan þess samfélags sem það bjó í. Það gat búið nánast hvar sem var
en byggði sér gjarnan lítil hús til trúariðkunar á staðnum þar sem það
bjó. vígðir munkar gátu kosið að gerast hermítar tímabundið en þá
aðeins með leyfi ábóta síns. Algengara var aftur á móti að hermítar
færðu sig til klaustranna, og tækju þátt í því starfi sem þar fór fram,
eftir að hafa lifað einsetulífi í nokkurn tíma. Það gerðu raunar anko-
rítar líka en ólíkt hermítum bjuggu þeir alltaf á sama stað og eyddu
ævi sinni innan vel aflokaðra húsa sinna.17 Ankorítar voru einnig
háðari leyfi fyrir einsetunni frá biskup en hermítar. Áður en leyfið var
veitt þurftu þeir sem óskuðu eftir því að gerast ankorítar að
sannreyna líkamlega og andlega getu sína til þess. Biskup útvegaði
þeim síðan húsnæði, sem oftast voru klefar áfastir höfuðkirkju eða
kofar byggðir nærri starfandi klaustri. Hermítar útveguðu sér hins
15 C. H. Lawrence, Medieval Monasticism. Forms of Religious Life in Western Europe
in the Middle Ages, bls. 26–29.
16 Roberta Gilchrist, Gender and Material Culture, bls. 177–187; Liz Herbert Mc -
Avoy, „Introduction“, bls. 9–10.
17 Francis D. S. Darwin, The English Medieval Enclosure, bls. 1–7; Roberta Gilchrist,
Gender and Material Culture, bls. 182–186; Rotha Mary Clay, Hermites and
Anchorites of England, bls. 3–6.