Saga - 2015, Blaðsíða 167
Þorleifur Friðriksson, vIÐ BRÚN NÝS DAGS. SAGA veRkA MANNA -
FÉLAGSINS DAGSBRÚNAR 1906–1930. Sagnfræðirannsóknir 19. efling
stéttarfélag, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan.
Reykjavík 2007. 394 bls. Myndir, mynda- og nafnaskrá.
Þorleifur Friðriksson, DAGAR vINNU oG voNA. SAGA veRkA-
MANNAFÉLAGSINS DAGSBRÚNAR Í kRePPU oG kÖLDU STRÍÐI.
Sagnfræðirannsóknir 21. efling stéttarfélag, Sagnfræðistofnun Háskóla
Íslands og Háskólaútgáfan. Reykjavík 2012. 468 bls. Myndir, mynda-,
nafna- og atriðaskrá.
Þótt stétt íslenskra sagnfræðinga sé á margan hátt aðsópsmikil og láti tölu-
vert til sín taka með ýmsum hætti á opinberum vettvangi, þá er ekki oft
sem birtast jafn þýðingarmikil verk og þær tvær bækur sem hér eru rit-
dæmdar. Á ferð eru sagnfræðiverk sem flokka verður með því allra besta
sem komið hefur fram á síðari áratugum innan fagsins. Sagan sem hér er
sögð er náttúrlega afar áhrifarík og átakamikil enda segir hún frá upphafi
verkalýðshreyfingar á Íslandi og þeim sviptivindum sem hún gekk í gegn-
um fram yfir miðja 20. öld. Dagsbrúnarmenn — og já, þetta voru eingöngu
karlar þó svo að konur hafi gengið í sömu störf og þeir fyrstu áratugina —
stóðu lengi í fylkingarbrjósti hreyfingar verkafólks á Íslandi og félag þeirra
þróaðist um margt á mjög áhugaverðan hátt sem höfundur bókanna
beggja, Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur, rekur af kostgæfni.
verkalýðssaga hefur átt undir högg að sækja síðustu 20 árin samhliða
því að almennar áherslur sagnfræðinga færðust frá félagssögunni og yfir
í menningarsöguna nýju. Níundi áratugur 20. aldar var tími félagssögunn-
ar á Íslandi og henni fylgdi áhugi á alþýðufólki og sögu þess. Áratuginn á
undan höfðu þessi fræði — stéttarsaga hvers konar — þróast úti í evrópu
og í Bandaríkjunum undir áhrifum marxískra fræða. Óhætt er að fullyrða
að þær fræðilegu áherslur hafi á margan hátt verið birtingarmyndir nýs
tíma í sagnfræði. Með megindlegri greiningu heimilda var nú farið að
draga fram í dagsljósið stóra hópa fólks, sem fram að því hafði farið hljótt
í verkum sagnfræðinga. og það sem meira var: þessum hópi alþýðufólks
var teflt fram sem gerendum í hinni sögulegu framvindu. Með öðrum
orðum hafði þarna orðið gjörbreyting í áherslum sagnfræð inga gagn-
vart viðfangsefnum sem tengdust hversdagslífi alþýðufólks. Saga verka-
lýðsins varð mál málanna. Þegar hins vegar kom fram á tíunda áratug 20.
aldar fjaraði undan þessum áherslum, meðal annars fyrir tilstuðlan póst-
módernískra áherslna í fræðum og vísindum sem beindu sjónum fræði-
manna meira í átt að einstaklingsmiðaðri nálgun á fortíðina. Hin eigind-
lega nálgun fékk þá byr undir báða vængi og huglæg reynsla fólks varð
mikils metin.
ritdómar 165