Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 27
ANDVARI
RÓBERT ABRAHAM OTTÓSSON
25
á jördu. Eins og fram kemur í ævisögu Björgvins átti hann við ýmsa
erfiðleika að etja, ekki síst drykkjuskap sem varpaði skugga á feril
hans. Þá var hann stöðugt á varðbergi gagnvart því sem hann kallaði
„andúðar- og undirróðurs-starfsemi sem óvinir kórsins eða mínir hafa
sífellt rekið hér í bænum gegn okkur“, svo vitnað sé í orð hans sjálfs í
ávarpi til félaga í Kantötukórnum.44
Björgvin leit svo á að Róbert Abraham hefði með ósvífnum hætti
skyggt á starf Kantötukórs Akureyrar, og taldi keppinaut sinn lítt verð-
skulda þá viðurkenningu sem hann hafði hlotið í bænum. Þá hafi Róbert
vísvitandi ætlað sér að „stela“ félögum úr Kantötukórnum. í drögum að
sögu Kantötukórsins, sem varðveitt eru með hendi Björgvins í bréfasafni
hans, ritar hann opinskátt um „ofsóknir“ í sinn garð sem eigi rætur að
rekja til komu Róberts til bæjarins. Róbert hafði raunar ráðfært sig við
Björgvin um leið og hann kom norður, og heimamaðurinn ráðlagði
honum að hafa ofan af fyrir sér með píanókennslu og kanna möguleika
á því að endurreisa lúðrasveit bæjarins. Róbert lagði sig líka fram um
að kynna tónlist Björgvins fyrir bæjarbúum; þegar á fyrstu tónleikum
sínum á Akureyri í febrúar 1936 hafði hann sett Þrjú hljómblik og fúgu
hans inn á milli verka eftir Schubert og Schumann.45 Ekki ávann hann
sér vináttu tónskáldsins með því.
Björgvin rekur framhald sögunnar svo:
En svo haustið 1936 dettur honum í hug að stofna blandaðan kór, og eftir því
sem síðar kom í ljós bendir margt til að þeir Áskell [Snorrason], Valdimar
[Steffensen] og Hallgrímur [Valdemarssonj hafi átt góðan þátt í þeirri hug-
mynd, a.m.k. lét Áskell hann velja úr sínu liði það er hann vildi sem skaut
all skothent við undirtektir hans þegar Kantötukórinn var í myndun. Fór nú
Gyðingurinn og útsendarar hans á stúfana eftir starfskröftum. Tókst þeim að
lokka Fanneyju Guðmundsdóttur spilara Kantötukórsins og nokkrar stúlkur úr
honum í þetta fyrirtæki undir því yfirskini að þetta yrði aðeins stuttur tími,
aðeins einn konsert og svo aldrei meir. En þessi stutti tími náði bara fram
í miðjan apríl og þá hélt Abraham tvo konserta fyrir fullu húsi rétt áður en
Kantötukórinn fór suður. Og nú fengu blöðin málið, nú áttu þau ekki orð til
að dásama þetta menningar fyrirtæki sem þessi stóri listamaður væri búinn að
hrinda af stokkunum, en þegar Kantötukórinn kom úr söngförinni litlu síðar,
þá þögðu þau eins og hundar, og auðvitað skríllinn með þeim sem ásamt þeim
ætlaði að æsa allt í gelti yfir snilli Abrahams. Það kom líka á daginn að hér var
ekki um neina bráðabirgðar-stofnun að ræða því strax í september haustið eftir
gerðu útsendarar Abrahams svo frekar og ítrekaðar tilraunir til að ræna fólki
úr Kantötukórnum fyrir næsta vetur, en varð sem betur fór lítið ágengt. Og þá