Andvari - 01.01.2012, Blaðsíða 83
andvari
DR. HALLGRÍMUR SCHEVING
81
Þökk sé Páli Melsteð að við höfum nasasjón af lífinu á Bessastöðum. Hann
lýsti því vel hvað það var framandi umhverfi fyrir ungan pilt að koma í
Bessastaðaskóla. Hann sagðist hafa verið sem í leiðslu fyrstu dagana á staðnum.
Bræðrasynirnir Jónas Hallgrímsson og Skafti Tímóteus Stefánsson frá Vöilum
í Svarfaðardal vöktu hvað mesta aðdáun hjá honum og fannst honum mikið til
þeirra koma. Páll segir að enginn skólasveina hafi haft eins mikla frásagnar-
hæfileika og Jónas. Hins vegar vissi hann ekki til þess að Jónas hefði kveð-
ið mikið þennan vetur, en sögur hafi hann sagt af innlifun. Páll minnist þess
ekki að sérstakur vinskapur hafi verið milli Konráðs og frændanna að norðan,
Jónasar og Skafta, þá þótti honum Konráð þögull og fáskiptinn um veturinn
en kynnist allt annarri hlið á honum sumarið eftir í slægjunni hjá Hallgrími.43
Hallgrímur fágaði og meitlaði einnig eigið málfar á Bessastaðaárunum, það
sést til dæmis á þýðingum hans af einni ræðu Ciceros, Upphafræðu til varnar
Sextusi Rosciusi. Hann vann tvær þýðingar af ræðunni með fimm ára milli-
bili. Sú síðari er mun vandaðri að allri gerð. Af ritun þessara þýðinga sést að
skólasveinar unnu með náminu á veturna við skriftir hjá kennurunum. Fyrri
þýðingin er með hendi skrifarans og skólasveinsins Sigurðar B. Sívertsen frá
vetrinum 1826 - 1827. Hina síðari skrifaði Runólfur M. Olsen upp og lauk
við hana í janúar 1831.44
Skólasveinarnir sem numið höfðu málvísindi og málvöndun af Hallgrími í
skóla, urðu sumir enn ákafari og stífari málhreinsunarmenn. Dæmi um þetta
er þegar Jónas Hallgrímsson kom til landsins og fór í heimsókn til Hallgríms.
Þeir Fjölnismenn voru þá búnir að stofna tímaritið og Jónas tók til við að leið-
rétta málfar frændans. í hvert skipti sem Hallgrímur sagði „til dæmis“ greip
Jónas fram í fyrir honum og sagði „til að mynda.“ Scheving mun að lokum
hafa leiðst þetta og sett ofan í við hinn ákafa umbótamann, frænda og fyrrum
lærisvein.45
Fyrstu ljóð Jónasar bera vitni að aðaláhrifavaldar hafi verið Hallgrímur
og Bjarni Thorarensen, eins og áður hefur verið vikið að. Ljóðin eru merkt
áhrifum frá Eddukvæðum bæði hvað varðar málfar og bragarhætti, Jónas
var sagður hafa kunnað utan að öll ljóð Bjarna. Hallgrímur lét skólapilta oft
yrkja undir fornum háttum upp úr fornaldarsögunum og þannig urðu bragar-
hættirnir þeim þjálir. í kvæðinu Batteríski syndarinn sjást glöggt stílbrigði
Eddukvæða og svipar ljóðinu til kveðskaparins sem þeir Hallgrímur og Bjarni
ortu á sínum tíma:
Harðan helgaldur,
þá er um kominn,
vindur á vogi blæs,
brimskafl bláfaldinn
buldri þungu
grenjar að grunnsteinum.