Andvari - 01.01.2012, Qupperneq 99
andvari
JÓN SIGURÐSSON OG ÍSLENSK TUNGA
97
í þriðja árgangi Andvara 1876 á Jón rækilega grein um Hið íslenska þjóð-
vinafélag og eru undir henni stafirnir J.S. Næsta grein á eftir ber titilinn „Um
rétt íslenzkrar túngu“ og er hún nafnlaus. Svo getur virst sem hún fylgi grein
Jóns en samkvæmt „Efnis- og höfundaskrá Andvara 1874-1914“13 mun svo
ekki vera og er hún eignuð Sigurði Jónssyni sýslumanni. Áður, eða 1863,
hafði birst í Nýjum félagsritum grein með sama titli. Undir voru stafirnir S.J.
og hefur sú grein verið eignuð Sigurði Jónassyni sem m.a. var aðstoðarmaður
í utanríkisráðuneyti Dana, bókavörður Hins íslenska bókmenntafélags og for-
seti þess um skeið.
Jón hélt ræðu á fundi í Hinu íslenska bókmenntafélagi í Kaupmannahöfn
13. apríl 1866 sem prentuð var sem grein ári síðar.14 Fyrsti hluti ræðunnar
snýr að tungumálinu. Þar veltir hann fyrst upp þeirri spurningu hvers vegna
Islendingum hafi tekist að halda fornri tungu sinni nær óbreyttri um aldir og
telur svarið fólgið í bókmenntunum og bókmálinu. Hefðu Islendingar ekki átt
slík rit hefði farið fyrir þeim eins og nágrannaþjóðunum:
Viðskipti vor við önnur lönd hafa verið svo löguð, sem skæðast gat orðið fyrir mál
vort og þjóðerni, því vér höfum verið bundnir í samskiptum vorum um heilar aldir við
náskyldar þjóðir, og einkum við eina einustu þjóð, sem ekki hafði neina ljósa hugmynd
um norræna mentun, eða var búin að gleyma henni og hafði að öllu leyti lagt hug sinn
að suðrænum skólalærdómi og suðrænum bókmentum.15
Hér er Jón að vísa til Dana og segir að eins sé komið fyrir Norðmönnum sem
hafi fylgt fordæmi þeirra. Eins hefði getað farið fyrir íslendingum ef þeir
hefðu ekki varðveitt bókmenntirnar og haldið þeim við á íslenskri tungu.
Hann heldur áfram að tala máli bókmenntanna:
Annað atriði því til styrkíngar, að það sé hin þjóðlega bókment og bókritin á voru
máli, sem hafa haldið túngunni við, það er, að vér höfum eitt og hið sama mál í öllum
héruðum um alt land; vér þekkjum að vísu sérstaklegar mállýzkur úr ýmsum héruðum,
bæði í nöfnum á ymsum hlutum og í framburði, en vér getum ekki talað um þessar
smábreytíngar einsog sérstök mál héraða, eða fjarða, eða dala, svo sem vér verðum varir
við í öðrum löndum og hjá frændþjóðum vorum sérílagi.16
Áhugavert er að lesa að Jón telur það fyrst og fremst vera vegna bókmennta
og bóklestrar að hérlendis skuli ekki hafa orðið til mállýskur. Hann bætir við:
Vér getum heldur ekki talað um bókmál vort sem túngu hinna mentuðu manna, sem
sé ólíkt alþýðumálinu, heldur er hið hreinasta bókmál vort jafnframt hið hreinasta
alþýðumál, sem vér heyrum lifa á vörum karla og kvenna, þar sem vér köllum bezt talað
mál vort í sveitum. Þessi samhljóðan túngunnar er einmitt hinn ljósasti vottur um, að
þjóðmál vort hjá öllum stéttum hefir sína föstu rót og reglu í bókmálinu.