Andvari - 01.01.2012, Síða 111
andvari
SÉRKENNILEGUR, UNDARLEGUR OG FURÐULEGUR EINFARI
109
Höfn og ekki síst Ingibjörgu Einarsdóttur, konu Jóns Sigurðssonar. Hér kemur
að máli sem er kannski þungamiðja í sorg hans og þunglyndi, skammvinnu
hjónabandi hans og sorginni sem þau Ingigerður deildu þar sem þau misstu öll
börn sín nema eitt í frumbernsku. I ævisögunni er Ingigerður þannig upphafin
en Gröndal er mjög upptekinn af óvirðingu sem honum var sýnd um það
leyti sem þau áttust. Vegna óánægju margra og áhrifamikilla Islendinga með
hjónaband þeirra var niðurstaðan sú að Islendingar „fyrirlitu okkur, og enginn
óskaði okkur til lukku né minntist á þetta“ (Dægradvöl, 233). Þannig snýst
sagan um trúlofun Gröndals síður um hamingju hans á þessu gleðiaugnabliki
en um þá óvirðingu sem honum var sýnd af því tilefni. Greinilegt er að sorgin
hefur yfirtekið gleðina og hugsanlega á sú sorg rót sína í því hversu snemma
hann missti Ingigerði og varð aftur einstæðingur.
Gröndal ítrekar að hann standi einn. Á íslandi er „engin staða til handa
mér og enginn, sem ég ætti að“ (Dægradvöl, 179) og þegar hann fer aftur til
Hafnar sinnast honum við Konráð Gíslason sem kallar hann „idiot“ á prenti
og allir aðrir halda með honum: „ég stóð einn uppi eins og vant hefur verið
um mig“ (Dægradvöl, 220) og síðan fylgir nmgr. þar sem hann hefur þetta
að segja um íslenska blaðamenn: „Enginn hefur nokkurn tíma haldið með
mér á prenti, en flestir rithöfundar og blaðamenn hafa gert eitt af tvennu:
annaðhvort þvaðrað lítillega um mig með hnútum og skætingi, eða þá — og
því nær ætíð — ekki með einu orði nefnt það sem ég hef gefið út“. Þetta er
svo endurtekið nær óbreytt síðar: „Þegar ég hef gefið eitthvað út, þá hefur
verið þögn í blöðunum ... eða þá ég hef fengið hnútur og ónot“ (248).18 Eins
er Gröndal síðar hunsaður af samkennurum sínum í lærða skólanum: „annars
fór ætíð svo, að legði ég eitthvað til eða léti einhverja meiningu í ljós, þá var
ætíð siður að skeyta því ekki, en láta sem ég hefði ekkert sagt“ (Dægradvöl,
263). Hér er hætt við að Gröndal sé að ýkja það neikvæða viðmót sem hann
hefur orðið fyrir úr öllu hófi eins og þunglyndum hættir til. Velta má fyrir sér
hvort öll þessi höfnunarkennd eigi sér rót í missi Ingigerðar; þar er sannarlega
á ferð missir af því tagi sem þeir sem eru innblásnir af Freud kynnu að líta
á sem rót þunglyndis. Um það er þó erfitt að dæma þar sem textinn í sinni
endanlegu mynd er allur frá síðari árum Gröndals, eftir að hann varð ekkill.
Margir þunglyndir nota samanburð ákaft til að sanna fyrir sjálfum sér
hvernig heimurinn smánar þá og fyrirlítur. Þá er sjónum beint að öðrum sem
séu ómerkilegri en njóti samt meiri virðingar vegna þess að sá þunglyndi
sjálfur sé misskilinn og vanmetinn. Þetta stef er mjög áberandi í Dægradvöl.
Þegar Napóleon prins kemur til íslands árið 1856 yrkir Gröndal til hans.
Frásögnin af kvæðisgerðinni er ítarleg en eins og iðulega fylgir með lítil saga
í lokin af því hvernig hann var smánaður: „Ekki sæmdi prinsinn mig neinu
fyrir ... en gaf ómerkilegum strákum og körlum stórgjafir; raunar ætlaðist
ég ekki til neins, en ég hefði eins verðskuldað það eins og þeir“ (Dægradvöl,