Andvari - 01.01.2012, Page 112
110
ÁRMANN JAKOBSSON
ANDVARI
180-81). Hér er á ferð sama stef og jafnan í samskiptum við aðra: vinsam-
legt viðmót hefði ekki kostað hinn aðilann neitt en samt neitar hann þeim
þunglynda um það.
I lok ævinnar er vænisýkin tekin að ná hámarki og þá sér Gröndal smán úr
öllu, líka þegar honum er heiður sýndur. Þegar Jón Sigurðsson er jarðaður í
Reykjavík í maí 1880 er Gröndal beðinn um að yrkja en hann lýsir því þannig:
„Ekki var ég kvaddur til að yrkja við það tækifæri, því séra Matthías tranaði
sér fram þar eins og annarstaðar og hafði Steingrím í eftirdragi - það var
fyrst allra seinast, að ég var beðinn að yrkja eitthvað, sem var seinast sungið
við gröfina - hefði ég að réttu lagi átt að neita því“ (Dægradvöl, 266). Hér er
Gröndal raunar hafður með en hann er beðinn of seint þannig að sagan endar
með því að snúast um háðungina sem honum er sýnd.19
Þegar Náttúrufræðifélagið er stofnað er Benedikt Gröndal lengi formaður
þess en er gagnrýndur á fundi á gamals aldri: „Var þetta gert til að smána mig,
því þeim var innan handar að nefna þetta við mig einslega“ (Dægradvöl, 293).
Síðan fær hann ekki að rita náttúrusögu handa barnaskólum því að Bjarni
Sæmundsson verður fyrri til og þessi ályktun er dregin af: „Aðferð sú var
eins og vant var alla mína tíð hér, að bægja mér frá öllum bóklegum störfum
og ritum, frá öllu, sem einhverja þekkingu þarf til“ (s.st.). Sá heilbrigði metn-
aður Bjarna að vilja sjálfur semja náttúrusögu (sem Gröndal raunar telur alla
stolna) er hér túlkaður sem árás á Benedikt Gröndal sem virðist ófær um að
horfa á málið frá öðrum sjónarhornum en sínu eigin. Þunglyndi fylgir gjarnan
óhófleg sjálfselska af þessu tagi þar sem sá þunglyndi telur öll mál - stór eða
smá - snúast um eigin stöðu í heiminum. Það stafar endilega ekki af því að
hann sé óvenju sjálfselskur að eðlisfari heldur kallar viðkvæmt sjálfsmat hans
á að öll mál sé sett í þetta samhengi.
Gröndal fær of lág laun fyrir allt sem hann gerir, hann er ekki beðinn um
að þýða, hann er ekki kosinn í stjórnir, honum er ekki boðið í veislur, nemend-
ur hans senda honum ekki eintök af ritum sínum. Þannig er mótlætið iðulega
frekar hversdagslegt og smátt og jafnvel frekar almenns eðlis en Gröndal er
umhugað um hverja smán og þannig á valdi vænisýkinnar. Fyrirlitning sam-
félagsins staðfestir þá stöðu sem hann hefur í eigin huga. Jafnvel þegar hann
fær riddarakross dannebrogsorðunnar segir Gröndal aðeins frá því til þess að
láta þess getið að landshöfðinginn hafi ekki fært honum krossinn sjálfur held-
ur sent „vinnukonu sína með krossinn“ (Dægradvöl, 296) og skömmu síðar er
hann tekinn að ræða illgjarna ritdóma um kvæðabók sína. Hann fær styrk af
alþingi en það er ekki nóg því að einhverjir standa upp og mótmæla og eru
þeir menn nafngreindir í bókinni en ekki hinir sem samþykkja styrkinn; þeir
eru alveg gleymdir.
Þannig er mótlætið sem Benedikt Gröndal verður fyrir raunverulegt en
samt oft frekar hversdagslegt og lítilfjörlegt. Það ýkist hins vegar allt upp í