Andvari - 01.01.2012, Qupperneq 147
ANDVARl
DOKAÐ VIÐ EFTIR DICKENS
145
þar sem við sjáum skýrt útlínur annarra persóna, ekki síst þeirra sem hafna í
faðmi ógæfunnar eða gefa sig illskunni á vald.
Þegar komið er fram á 20. öld má kannski hreyfa þeirri spurningu hvaða
máli Dickens hafi skipt íslensk sagnaskáld. Hér verður farið varlega í tali um
bein áhrif, en ljóst er að ýmsir íslenskir skáldsagnahöfundar á fyrri tíð þekktu
vel til verka Dickens. Þegar hefur verið nefnt að Einar H. Kvaran var rit-
stjóri Lögbergs þegar íslenska þýðingin á Mudfog-sögunni birtist þar og kann
að hafa þýtt söguna sjálfur. Stefán Einarsson prófessor benti á sínum tíma á
dálæti Jóns Thoroddsens á Dickens og sagði einnig að skáldsögunni Eiríkur
Hansson eftir vestur-íslenska höfundinn Jóhann Magnús Bjarnason, „kippti
sýnilega í kyn til David Copperfield eftir Dickens [...]“ - og má sannarlega
taka undir það.15 Raunar virðist David Copperfield búa sem misdulinn undir-
texti í uppvaxtarsögum höfunda víða um lönd - og það sama má raunar segja
um Oliver Twist.
Þegar þýðing Páls Eggerts Olasonar á Oliver Twist birtist 1906 kom út
í blaðinu Lögréttu athyglisverð grein eftir Guðmund Magnússon sem varð
einn þekktasti skáldsagnahöfundur landsins undir skáldanafninu Jón Trausti.
I örstuttum kynningarpistli með greininni segir um bókina að hún sé „jafn
vel fallin til lesturs fyrir fullorðna sem börn.“ Guðmundur segir hana „fyrir-
taks sýnishorn af ritverkum Dickens" og hrósar lipurð í stíl og formi, sem og
hinu bitra háði, þótt hann segi beittasta vopn Dickens vera sannleikann sjálf-
an, enda hafi Dickens haft mikil áhrif á þjóðfélagið með skáldsögum sínum.
Hann víkur einnig að sterkri stöðu Dickens í heimsbókmenntunum og segir
að ekki þurfi að efa að hann muni einnig hafa „áhrif hér á landi, þegar verk
hans verða alþýðu aðgengileg.“
En það er athyglisvert að strax að þessu sögðu þykir Guðmundi, eða
kannski skáldsagnahöfundinum Jóni Trausta, þó nauðsynlegt að þoka Dickens
frá sköpunarforsendum samtímans. Ekki má gleyma því, skrifar hann, að
Dickens heyri til tíma, „sem þegar er liðinn. Kröfur þær, sem gerðar eru til
bókmennta nú, eru aðrar en þá var. Hann er því engum upprennandi höfundi
einhlítur meistari.“ Eina röksemdin fyrir þessu áliti er sú að þótt aðalsögu-
hetjur Dickens séu „að vísu sannur spegill hreinleiks og göfgi og svo vel
frá þeim gengið, að ekki verður að fundið“, þá séu hinar fjölmörgu auka-
persónur of öfgakenndar í flónsku sinni, aumingjaskap, undirlægjuhætti og
öðrum göllum, „en lesarinn verður litlu nær um manneskjuna sjálfa.“16 Hér
sem oftar er Dickens því gagnrýndur fyrir öfgar í framsetningu, eða óhóf sem
þykir brjóta lögmál um endurspeglun veruleikans í raunsæislegri sagnalist.
Ekki fær maður þó varist þeirri hugsun að það kynni að hafa verið hollt fyrir
þróun íslenskrar skáldsagnagerðar við upphaf tuttugustu aldar ef þýðingunni
á Oliver Twist hefði verið fylgt eftir með fleiri skáldsögum Dickens í íslenskri
gerð.