Andvari - 01.01.2012, Qupperneq 150
148
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
ast annað einkenni á hinum íslensku móttökustöðvum - Dickens varð að
höfundi verka fyrir börn og unglinga, höfundi sem gegndi siðferðilegu og
kristilegu uppeldishlutverki í verkum sem áttu að skemmta og halda athygli
ungra lesenda. Þótt þýðing Páls Eggerts Olasonar á Oliver Twist væri nokk-
uð stytt, má til sanns vegar færa að hún henti bæði ungum og fullorðnum
lesendum, eins og sagði í Lögréttu, en þegar Oliver Twist birtist að nýju á
íslensku, árið 1943, hafði verkinu í reynd verið rækilega skákað yfir í flokk
barnabóka. Þessi þýðing, sem er eftir Hannes J. Magnússon, er sennilega úr
dönsku og sú danska gerð er væntanlega byggð á gallaðri þýskri þýðingu,
eins og Arni Matthíasson blaðamaður benti á í grein fyrir nokkrum árum.
Eins og þessar þýðingar hefur hin íslenska að geyma þætti úr upprunalegri
birtingu sögunnar í tímaritinu Bentley’s Miscellany 1837, þar sem áður-
nefndur Mudfogbær er kynntur til sögunnar en hann er raunar ranglega
stafaður í þessum þýðingum:21 „í borginni Modfog var fátækrahæli, eins
og í flestum öðrum borgum.“22 Þetta er verulega stytt þýðing, „svo stytt að
maður sýpur hveljur“, eins og Arni segir í grein sinni.23 Og það er hálfdapur-
legt til þess að vita að þótt þýðing Páls Eggerts hafi verið endurprentuð einu
sinni, árið 1964, þá virðist það fyrst og fremst vera seinni þýðingin sem
hefur verið í umferð á Islandi - hún hefur verið endurprentuð hvað eftir
annað, síðast 2009.
Og meira að segja Pickwick Papers, sem erfitt er að sjá fyrir sér sem barna-
bók, lendir í þessum sama svelg. Þegar hún birtist á íslensku árið 1950, í þýð-
ingu Boga Olafssonar, er hún nefnd Ævintýri Pickwicks. Bogi segir í eftirmála
að þýðing hans sé í reynd „stuttur útdráttur“ sem hann gerir sjálfur. Ókleift
þótti að gefa bókina út „óstytta“, segir Bogi, „því að hún er svo löng, enda hafa
þegar verið gefnir út útdrættir úr ýmsum bókum Dickens bæði í Englandi og
annars staðar.“24 Bogi sleppir til dæmis fyrsta kafla bókarinnar, þar sem við
kynnumst Pickwick-klúbbnum, og lætur íslensku gerðina hefjast með öðrum
kaflanum, þar sem Samuel Pickwick vaknar og býst til könnunarleiðangurs.
Eða eins og segir í þýðingunni:
Að morgni 13. dags maímánaðar 1827 stökk Samuel Pickwick fram úr rúminu, opnaði
gluggann og leit út til þess að dást að góða veðrinu og fegurð Goswellgötu, þar sem
hann bjó. Síðan klæddi hann sig, lét farangur sinn í tösku, tók hana í hönd sér, stakk
kíkinum í frakkavasann, minnisbók í vestisvasann, til þess að hafa hana við höndina og
krota í hana hvað eina, sem honum þætti þess vert. - „Vagn!“ sagði Pickwick.25
Þetta er skýr og skilvirkur texti - en í reynd ótrúlega mikil einföldun á texta
Dickens. Hann birtist hér og einnig tilraun mín til að nálgast hann í íslenskri
gerð: