Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 86
86 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021
og minni menntun eru líklegri til að líta á fjölskyldu sjúklings
sem byrði og hefja síður samstarf við hana (Benzein o.fl., 2008;
Blöndal o.fl., 2014; Luttik o.fl., 2017; Sveinbjarnadottir o.fl.,
2011; Østergaard o.fl., 2020). Hjúkrunarfræðingar sem hafa
fengið þjálfun í fjölskylduhjúkrun finna til meiri starfsánægju,
hafa sterkari faglega sjálfsmynd, verða fyrir minna álagi
í starfi og eru jákvæðari að hafa fjölskyldur með í ráðum
(Sigurdardottir o.fl., 2015; Svavarsdóttir o.fl., 2015).
Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta viðhorf
hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til fjölskylduhjúkrunar í
tengslum við innleiðingu Calgary fjölskylduhjúkrunar á SAk.
Rannsóknarspurningar, sem leitast var við að svara, eru:
1. Hvert er viðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra
á SAk til fjölskylduhjúkrunar og er viðhorf þeirra
mismunandi eftir bakgrunni?
2. Breyttist viðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra
á SAk til fjölskylduhjúkrunar meðan á innleiðingu
Calgaryfjölskylduhjúkrunar stóð eða eftir að hafa sótt
námskeið í Calgary fjölskylduhjúkrun?
3. Hverjar eru helstu hindranir og hver er helsti
ávinningur í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og
ljósmæðra til að geta gert fjölskyldumat og veitt
fjölskylduhjúkrun á SAk?
4. Hvernig lýsa hjúkrunarfræðingar og ljósmæður því
að unnið sé með fjölskyldum á SAk og hverjar eru
vangaveltur þeirra í því sambandi?
Rannsóknin var megindleg með þremur eigindlegum
spurningum sem svarað var skriflega og var hún hluti
meistararannsókna tveggja nemenda við framhaldsnámsdeild
heilbrigðisvísindasviðs HA (Áslaug Felixdóttir, 2019;
Gunnhildur Ósk Sæbjörnsdóttir, 2018). Megindlegi hluti
rannsóknarinnar var íhlutunarrannsókn án samanburðarhóps.
Íhlutunin var innleiðing fjölskylduhjúkrunar á SAk.
Þátttakendur svöruðu spurningalista um viðhorf hjúkrunar-
fræðinga til mikilvægis fjölskyldna í hjúkrun (FINC-NA –
Families’ Importance in Nursing Care – Nurses’ Attitudes)
ásamt bakgrunnsspurningum. Þátttakendur svöruðu einnig
þremur opnum spurningum skriflega í eigindlega hlutanum
þar sem þeir lýstu með eigin orðum viðhorfum og skoðunum
varðandi hindranir og ávinning við að veita fjölskylduhjúkrun.
Í eigindlega hlutanum var notuð aðferð innihaldsgreiningar
Graneheim og Lundman (2004) til að flokka niðurstöður.
Umhverfi
SAk er annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins og
er miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður-
og Austurlandi. Það veitir almenna og sérhæfða
heilbrigðisþjónustu, þar sem áhersla er lögð á bráðaþjónustu
og helstu sérgreinameðferðar. SAk er kennslusjúkrahús
og þekkingarstofnun sem leggur metnað í kennslu og
rannsóknir í heilbrigðisvísindum og starfsemin hefur hlotið
alþjóðlega gæðavottun (Sjúkrahúsið á Akureyri, 2019).
Samvinna SAk og HA í kennslu og vísindarannsóknum er
AÐFERÐ
innan Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans á Akureyri
(HHA) samkvæmt samstarfssamningi (Háskólinn á Akureyri,
e.d.). Tekin var ákvörðun um að innleiða fjölskylduhjúkrun á
almenna göngudeild, barnadeild, fæðingardeild, legudeild
geðdeildar, gjörgæsludeild, Kristnesspítala, lyflækningadeild
og skurðlækningadeild (nefndar innleiðingardeildir í þessari
grein).
Þátttakendur
Þýði og úrtak rannsóknar voru allir hjúkrunarfræðingar og
ljósmæður á launaskrá SAk 1. desember 2016 (tími 1) og 1.
mars 2018 (tími 2) með það að markmiði að kanna almennt
viðhorf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á sjúkrahúsinu til
fjölskylduhjúkrunar. Fyrir innleiðingu voru spurningalistar
(FINC-NA) lagðir fyrir alla þátttakendur (þýði) og fyrirlögn
þeirra endurtekin í innleiðingarferlinu eða 14 mánuðum síðar
á sama hópi. Í megindlega hluta rannsóknarinnar var ákveðið
að greina rannsóknargögn sem tilheyrðu innleiðingardeildum
(tilgreindar að framan) vegna ófullnægjandi svörunar á öðrum
deildum. Svörun þátttakenda í megindlega hlutanum var góð,
á tíma 1 svöruðu 133 þátttakendur (92%) og á tíma 2 svöruðu
132 þátttakendur (89%). Breyting á stærð úrtaksins á tíma 1
og tíma 2 skýrist af starfsmannaveltu. Í eigindlega hlutanum
var ákveðið að greina skrifleg svör þeirra 87 þátttakenda sem
svöruðu við báðar fyrirlagnir, þ.e. bæði á tíma 1 og tíma 2,
vegna dræmrar svörunar í skriflegu spurningunum.
Mælitæki
Gagna var aflað með spurningalistanum FINC-NA ásamt
þremur skriflegum spurningum. Á spurningalistanum eru 26
spurningar sem skiptast í fjóra þætti, þ.e. fjölskyldan sem
samstarfsaðili og þátttakandi í hjúkrun, góð samskipti
við fjölskylduna, fjölskyldan sem byrði og fjölskyldan sem
uppspretta bjargráða eða eigin úrræða (Benzein o.fl., 2008).
Svarmöguleikar voru fjórir: ósammála, frekar ósammála,
frekar sammála og sammála. Bakgrunnur þátttakenda
var metinn með átta spurningum. Þrjár eigindlegar opnar
spurningar tilheyrðu rannsóknargögnum. Spurningar í
eigindlega hlutanum voru þýddar, staðfærðar og forprófaðar
á íslensku úr rannsókn Simpson og Tarrant (2006) þar
sem megintilgangur var að búa til sjálfsmatslista fyrir
hjúkrunarfræðinga til að mæla breytingar á framkvæmd eða
innleiðingu fjölskylduhjúkrunar.
Réttmæti og áreiðanleiki
Þegar FINC-NA-spurningalistinn var þýddur og forprófaður
reyndist áreiðanleiki á íslensku í heild ágætur (Cronbachs-alfa
0,906) og fyrir 3 af undirþáttunum (0,73-0,87), en áreiðanleiki
fyrir þáttinn fjölskyldan sem byrði var 0,58 (Arna Skúladóttir
o.fl., 2010). Áreiðanleikastuðull undir 0,7 er álitinn frekar
lágur en þó nothæfur í hóprannsóknum (Guðrún Pálmadóttir,
2013). Í þessari rannsókn mældist áreiðanleiki fyrir listann í
heild 0,846 og fyrir 3 af undirþáttunum 0,61-0,78 en þátturinn
fjölskyldan sem byrði mældist einnig lægstur eða 0,511 og er
það lægra en æskilegt er.
Spurningarnar í eigindlega hlutanum voru forprófaðar
á 140 geðhjúkrunarfræðingum og sýndu niðurstöður að
spurningarnar voru trúverðugar (Simpson og Tarrant, 2006).
Einnig voru þær forprófaðar í íslensku doktorsverkefni (Eydís
Kristín Sveinbjarnardóttir, 2012).
Viðhorf til fjölskylduhjúkrunar á SAk