Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 6
6 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021
Tímamótarannsóknir
í hjúkrun á tímum
COVID-19
Á aðalfundi félagsins 26. maí síðastliðinn var samþykkt ný stefna
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í hjúkrunar- og heilbrigðismálum
til ársins 2030. Aðalbjörg Finnbogadóttir, verkefnastjóri fagsviðs,
var fengin til að semja stefnuna, í samstarfi við stjórn og fagdeildir
félagsins, þar sem faraldurinn kom í veg fyrir að hægt væri að vinna
sameiginlega að henni á hjúkrunarþingi vorið 2020. Við framsetningu
stefnunnar var horft til heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðuneytisins fyrir
íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Stefna félagsins er lýsing
á hlut hjúkrunarfræðinga og hjúkrunar til að ná fram heilbrigðisstefnu
stjórnvalda. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna voru einnig höfð til
hliðsjónar sem og aðrar stefnur félagsins í einstökum málaflokkum,
eins og til að mynda geð-, öldrunar- og heilsugæsluhjúkrun.
Ég tel nauðsynlegt fyrir hjúkrunarfræðinga og félagið að hafa slíka stefnu,
hún tekur mið af þeirri hugmyndafræði sem starfsemi félagsins byggist á og
endurspeglast jafnframt í gildum félagsins sem eru ábyrgð, áræði og árangur.
Nýju stefnuna má finna á heimasíðu félagsins og vil ég hvetja alla
hjúkrunarfræðinga til að kynna sér hana og hafa að leiðarljósi í málefnum
hjúkrunar.
Dagana 2. og 3. júní 2021 fór fram árleg líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna
Háskóli Íslands og fannst mér hún einstaklega áhugaverð, enda var haldin
sérstök málstofa um covid-19 og hjúkrun. Þar birtu hjúkrunarfræðingar
tímamótaniðurstöður úr rannsóknum sínum tengdum áhrifum og afleiðingum
faraldursins, til dæmis mat sjúklinga með covid-19 á öryggiskennd og heilsulæsi.
Einnig voru kynntar niðurstöður úr rannsóknum á annars vegar reynslu
hjúkrunarfræðinga á að hjúkra covid-19 smituðum sjúklingum á covid-19-
göngudeild og hins vegar reynslu hjúkrunarstjórnenda af stofnun göngudeildar
fyrir covid-19-smitaða sjúklinga. Þar kom berlega í ljós, enn og aftur, mikilvægi
hjúkrunarfræðinga í baráttunni við veiruna og hversu miklu lykilhlutverki
hjúkrunarfræðingar hafa gegnt í faraldrinum.
Hjúkrunarstjórnendur, til að mynda, höfðu tækifæri til að nýta að fullu þekkingu
sína og hæfni við koma á nýju skipulagi og taka ákvarðanir fumlaust. Það sama
var að segja um aðra hjúkrunarfræðinga sem notuðu sína heildræna þekkingu,
meðal annars til að skipuleggja ýmsar nýjar leiðir við að sinna sjúklingum við
krefjandi aðstæður; ýmist á staðnum eða í fjarhjúkrun. Það kemur ekki á óvart að
sjá í niðurstöðum einnar rannsóknarinnar, að starfið í faraldrinum hafði víðtæk
sálfélagsleg og líkamleg áhrif á hjúkrunarfræðinga, og að mörkin milli vinnu og
einkalífs voru óskýr. Að mínu mati eigum við eflaust eftir að sjá frekari eftirköst
faraldursins þegar fram líða stundir, enda er honum ekki lokið þótt við sjáum
vissulega vel til lands núna.
Þessar rannsóknarniðurstöður koma kannski ekki öllum á óvart en hér er þó búið
að staðfesta þær með vísindalegum aðferðum og það skiptir gífurlega miklu máli.
Hjúkrunarfræðingar, sem annars skipuðu svo veigamikinn sess í viðbrögðum
heilbrigðiskerfisins við veirunni, eiga að rannsaka áhrif faraldursins og taka þannig
þátt í vísindarannsóknum innan heilbrigðiskerfisins.
Það er meðal annars á niðurstöðum slíkra
vísindarannsókna sem við byggjum áfram upp
hágæðahjúkrunarþjónustu. Ég vil því hvetja
hjúkrunarfræðinga til að halda áfram þessu góða
rannsóknarstarfi og kynna það, bæði innanlands
og á alþjóðavettvangi, til að þessi einstaki árangur
okkar hér á landi, í viðbrögðum við faraldrinum, verði
öðrum sýnilegur.
Við horfum nú til betri tíma og strax í haust fáum
við fyrsta tækifærið til að sameinast á ráðstefnunni
Hjúkrun 2021 sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica
dagana 16. – 17. september næstkomandi. Ég hlakka
mikið til þess að hitta sem flesta hjúkrunarfræðinga
þar, enda tími til kominn að við náum að tala
saman, hlæja, fræðast og gleðjast, eins og okkur er
einum lagið. Við þurfum að halda áfram að standa
saman, vera góð hvert við annað og muna að þessi
heimsfaraldur hefur tekið, og tekur enn þá, sinn
toll af landsmönnum. Við gerum áfram það sem
við erum góð í sem er að hjúkra fólki, styðja hvert
annað og sýna manneskjunni skilning á annars
fordæmalausum tímum.
Nú er sumarið komið og langþráð sumarfrí byrjuð.
Það verður aldrei of oft sagt að hjúkrunarfræðingum,
sem og öðrum, er það lífsnauðsynlegt að taka sér
frí frá störfum og skerpa um leið á mörkum vinnu
og einkalífs. Ég vona að þið njótið frísins með ykkar
nánustu og komið endurnærð aftur til starfa að því
loknu.
Gleðilegt sumar.
Pistill formanns
„Það kemur ekki á óvart að
sjá í niðurstöðum einnar
rannsóknarinnar, að starfið
í faraldrinum hafði víðtæk
sálfélagsleg og líkamleg áhrif
á hjúkrunarfræðinga, og að
mörkin milli vinnu og einkalífs
voru óskýr.“