Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 81
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 81
mikil áhrif á ónæmiskerfi líkamans þannig að fólk verður
viðkvæmara fyrir ýmsum heilsufarsvandamálum (Danese
og Lewis, 2017; Yan, 2016). Sálræn áföll í æsku geta valdið
tilfinningalegri vanlíðan, sjúkdómum og ýmsum líkamlegum
einkennum (Sigríður Hrönn Bjarnadóttir o.fl., 2014; Sweeney
o.fl., 2018), eins og fimm þátttakendur upplifðu í kjölfar erfiðra
uppeldisaðstæðna þar sem ofbeldi af ýmsu tagi átti sér stað
og það leiddi síðar til heilsubrests. Niðurstöður þessarar
rannsóknar um samskiptaerfiðleika, skapgerðarbresti og
vímuefnanotkun, sem nokkrir þátttakendur höfðu átt við að
stríða, staðfestir einnig niðurstöður fyrri rannsókna Stinson
og félaga (2016) og Wamser-Nanney og Vandenberg (2013)
þess efnis að þeir sem verða fyrir áföllum á barnsaldri leita
frekar í vímuefni og eiga frekar við skapgerðarbresti að stríða
á fullorðinsárum.
Áður en þátttakendur reyndu dáleiðslumeðferð höfðu þeir
leitað aðstoðar víða með heilsufarsvandamál sín, svo sem
hjá læknum, sálfræðingum og sjúkraþjálfurum, en með
ófullnægjandi árangri. Hjá þessum meðferðaraðilum hafði
áherslan helst verið á að vinna með einkennin, s.s. verki og
kvíða, án þess að tengsl þeirra við áföll væru skoðuð. Fyrri
rannsóknir hafa sýnt að rekja má mörg af þeim andlegu og
líkamlegu einkennum, sem þátttakendur lýstu, til sálrænna
áfalla fyrr á ævinni (Danese og Lewis, 2017; Kessler o.fl.,
2017; Sigríður Hrönn Bjarnadóttir o.fl., 2014). Líkami og
sál eru órjúfanleg heild þar sem samspil er á milli hugar,
tauga- og ónæmiskerfis (Danese og Lewis, 2017; Yan, 2016).
Við greiningu og meðferð einkenna á borð við þau sem
þátttakendur í þessari rannsókn glímdu við er mikilvægt að
hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hafi í huga
að þau geta átt rætur sínar að rekja til sálrænna áfalla sem
einstaklingurinn gerir sér ekki alltaf sjálfur grein fyrir eða
hefur ekki unnið úr. Þátttakendur sögðust hafa komist í betri
tengsl við eigin tilfinningar í dáleiðslumeðferðinni og þannig
áttað sig á orsök heilsufarsvandamálanna. Þá fannst þeim
dáleiðslumeðferðin vera mjög skilvirk þar sem unnið hafði
verið á rót vandans en það hefði ekki verið gert hjá öðrum
meðferðaraðilum. Það má því ætla að það væri ávinningur af
því fyrir notendur heilbrigðiskerfisins að hjúkrunarfræðingar
og annað heilbrigðisstarfsfólk afli sér menntunar til að geta
beitt dáleiðslumeðferð við ýmum heilsufarsvandamálum.
Hver manneskja er einstök og mikilvægt að hafa fjölbreytt
meðferðarúrræði til að ná sem víðtækustum og bestum
árangri.
Þátttakendur lýstu dáleiðslumeðferð sem einstakri meðferð
þar sem unnið væri djúpt innra með þeim, með tilfinningar,
líðan og minningar og þetta skilaði sér í bættum lífsgæðum.
Einnig greindu þeir frá jákvæðum áhrifum á andlega líðan,
líkamlega verki og ýmis önnur einkenni enda var sterkt
samband á milli sálrænna og líkamlegra einkenna. Þessi
árangur er í takt við niðurstöður fyrri rannsókna sem sýnt
hafa jákvæðan árangur dáleiðslumeðferðar við að minnka
verki og fleiri sállíkamleg einkenni (Ahmadi o.fl., 2018; Cowen,
2016; Taylor og Genkov, 2019; Thompson o.fl., 2019) sem og
kvíða og þunglyndi (Bowker, og Dorstyn, 2016; Cowen, 2016;
Ólöf Unnur Sigurðardóttir, 2008; Taylor og Genkov, 2019;
Thompson o.fl., 2019). Þarna getur margt spilað inn í eins og
að þátttakendur greindu frá því að öryggiskennd og traust til
dáleiðarans hefði hjálpað til við að ná góðum árangri. Sýnt
hefur verið fram á að fagleg umhyggja hjúkrunarfræðinga
Ritrýnd grein | Scientific paper
og annars heilbrigðisstarfsfólks og gott meðferðarsamband
séu mikilvægir þættir við úrvinnslu áfalla og til að ná
persónulegum þroska og vexti í kjölfarið (Hulda Sædís
Bryngeirsdóttir o.fl., 2016).
Margir þátttakendanna höfðu ekki áður haft vitneskju um
að dáleiðsla væri mögulegt meðferðarúrræði. Viðhorf þeirra
til dáleiðslu fyrir meðferðina var því ýmist að hafa enga trú
á slíku eða finnast hún áhugaverð. Eftir dáleiðsluna voru
allir þátttakendur ánægðir með meðferðina og mæltu með
henni. Þátttakendum fannst vanta fræðslu til almennings um
dáleiðslumeðferð og að hún þyrfti að vera jafn aðgengilegur
meðferðarmöguleiki og aðrir innan heilbrigðiskerfisins. Slíkar
ábendingar hafa komið fram í annarri íslenskri rannsókn þar
sem sýnt var fram á gagnsemi dáleiðslumeðferðar til að bæta
líðan og heilsu fólks (Ólöf Unnur Sigurðardóttir, 2008).
Styrkur, takmarkanir og framtíðarsýn
Styrkur þessarar rannsóknar felst einkum í því að
niðurstöðurnar benda til gagnsemi dáleiðslumeðferðar
við að vinna úr margvíslegum afleiðingum sálrænna áfalla.
Niðurstöður benda einnig til að við greiningu og meðferð
heilsufarsvandamála sé mikilvægt að horfa ekki einungis á
einkennin heldur þarf einnig að hafa í huga að þau geta átt
rætur að rekja til sálrænna áfalla fyrr á ævinni. Slíka þekkingu
má nýta við skipulagningu á áfallamiðaðri heilbrigðisþjónustu
til að draga úr áhrifum nýrra áfalla á heilsu og líðan síðar
sem og við meðferð á heilsufarslegum afleiðingum áfalla fyrr
á ævinni. Niðurstöðurnar endurspegla þó einungis reynslu
níu þátttakenda og því er ekki hægt að alhæfa út frá þeim.
Mikilvægt er því að gera fleiri og stærri rannsóknir á efninu.
Dáleiðsla hefur ekki verið mikið notuð í heilbrigðiskerfinu
á Íslandi en er nú orðin viðurkennd hjúkrunarmeðferð
(ICN, 2019). Það er ekki síst þess vegna sem þörf er
á kynningu og ítarlegri rannsóknum á þessu sviði
en einnig til að byggja öflugri þekkingargrunn um
reynslu af árangri dáleiðslumeðferðar. Fróðlegt væri
að rannsaka dáleiðslumeðferð við sálrænum áföllum
út frá fleiri meðferðaraðilum, en þátttakendur þessarar
rannsóknar höfðu allir fengið meðferð hjá einum og sama
dáleiðslumeðferðaraðilanum.
Þessi rannsókn sýnir ekki einungis hversu mikilvægt það
er að vinna úr sálrænum áföllum heldur einnig mikilvægi
þess, að fólk geti fundið meðferðarleið sem hentar því.
Dáleiðslumeðferð getur því verið ákjósanlegur kostur í
áfallamiðaðri þjónustu.