Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 67
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 67
og mikilvægum þáttum í fræðslu kransæðasjúklinga (Ghisi
o.fl., 2014b; Mosleh o.fl., 2017). Einnig var spurt hvort
þátttakendur hefðu fengið fræðslu frá heilbrigðisstarfsfólki
í sjúkrahúslegunni (já/nei) og hversu vel fræðsluþörfum var
sinnt fyrir útskrift, svarmöguleikar voru fjórir (mjög vel – að
mestu – að litlu leyti – alls ekki).
Bakgrunnsupplýsingum um aldur, kyn, hjúskaparstöðu,
búsetu, innlagnarástæðu, legutíma og fyrri innlagnir vegna
kransæðasjúkdóms var safnað úr sjúkraskrá en einnig var
hæð og þyngd mæld til að reikna líkamsþyngdarstuðul.
Með spurningalista var aflað upplýsinga um menntun,
hvort tekjur dygðu til nauðsynlegra útgjalda, reykingar,
hreyfingu, einkenni kvíða og þunglyndis og trú á eigin getu.
Hreyfing var metin með „Adapted version of the leisure time
physical activity questionnaire“ (PA questionnarie) en það er
spurningalisti sem lýtur að hreyfingu undanfarna þrjá mánuði.
Listinn var upphaflega saminn af Saltin og Grimby (1968) og
hann hefur síðan verið notaður til að meta hreyfingu hjá yfir
600.000 manns og hefur gott forspárréttmæti (Grimby o.fl.,
2015). PA-hreyfilistinn hefur fjóra svarmöguleika: Aðallega
kyrrseta – létt líkamleg áreynsla ≥ 2½ klst/viku – hreyfing
með talsverðri áreynslu ≥2½ klst/viku – stíf reglubundin
þjálfun oft í viku, samtals í minnst fimm klukkustundir, þar
sem líkamleg áreynsla er mikil (Saltin og Grimby, 1968).
Einkenni kvíða og þunglyndis voru metin með „Hospital
Anxiety and Depression Scale“ (HADS), möguleg stig eru 0-21
fyrir hvorn kvarða og þeir sem fá 8 stig og meira teljast vera
með einkenni kvíða eða þunglyndis. Mælitækið hefur lengi
verið notað á Íslandi og próffræðilegir eiginleikar íslensku
útgáfunnar reynst fullnægjandi (Jakob Smári o.fl., 2008).
Trú á eigin getu var metin með „Self-confidence scale“ sem
inniheldur 6 staðreyndir og svarmöguleika frá 1 = ekki viss til
4 = alveg viss. Reiknaður er staðlaður stigafjöldi, 0-100, þar
sem fleiri stig þýða meiri trú á eigin getu (Dickson o.fl., 2017).
Innri áreiðanleiki (alfa-stuðull) kvarðans í þessari rannsókn
mældist 0,84 og er sambærilegur við bandaríska rannsókn á
próffræðilegum eiginleikum kvarðans (α = 0,84) (Dickson o.fl.,
2017).
Greining gagna
Lýsandi tölfræði var notuð til að lýsa bakgrunni þátttakenda.
Meðaltal og staðalfrávik var reiknað fyrir samfelldar breytur
og tíðni og hlutföll fyrir flokkabreytur. Búseta í dreifbýli og
þéttbýli var skilgreind eftir póstnúmerum (þéttbýli: póstnúmer
101-170, 200-225, 270-276, 600-603; dreifbýli: önnur
póstnúmer). Breytan hjúskaparstaða var flokkuð í tvíkosta
breytu fyrir gagnagreiningu: Annars vegar þátttakendur í
sambúð, kvæntir/giftir og hins vegar einhleypir, fráskildir
og ekklar/ekkjur. Breytan um hvort tekjur heimilisins duga
fyrir útgjöldum var einnig flokkuð í tvíkosta breytu, já og nei.
Þeir sem svöruðu að tekjur dygðu, þeir gætu lagt fyrir eða að
tekju rétt dygðu, voru flokkaðir sem já, tekjur duga. Þeir sem
svöruðu að tekjur dygðu sjaldan eða aldrei voru flokkaðir sem
nei, tekjur duga ekki.
Virkir reykingamenn voru skilgreindir sem þeir sem reyktu
síðastliðinn mánuð fyrir innlögn. Þátttakendum var skipt í þrjá
flokka eftir líkamsþyngdarstuðli: < 25 kg/m2 (kjörþyngd); ≥ 25-
29,9 kg/m2; (ofþyngd) og ≥ 30kg/ m2 (offita).
Í gagnagreiningu á þekkingu (Þekking-KRANS) voru útilokaðir
spurningalistar þar sem vantaði 10% eða meira af svörum.
Meðaltal þekkingar var borið saman við bakgrunnsbreytur
með fylgniprófum og stikuðum prófum (t-prófi og einhliða
dreifigreiningu). Línuleg fjölbreytuaðhvarfsgreining (enter-
aðferð) var gerð til að greina hvaða bakgrunnsþættir spáðu
fyrir um þekkingu. Valdar voru þær bakgrunnsbreytur sem
höfðu marktæka fylgni við þekkingu eða fyrri rannsóknir
hafa sýnt tengsl við þekkingu. Gögnin voru greind með SPSS,
útgáfu 26. Miðað var við marktektarmörk p < 0,05.
Siðfræði
Rannsóknin var unnin í samræmi við ákvæði Helsinki-
yfirlýsingarinnar (World Medical Association, 2013).
Vísindasiðanefnd veitti leyfi fyrir rannsókninni (Tilv.:17-159)
sem og framkvæmdastjórar lækninga á Landspítala og
Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þátttakendur fengu munnlegar
og skriflegar upplýsingar um rannsóknina, tækifæri til að
spyrja spurninga og skrifuðu undir upplýst samþykki áður en
gagnasöfnun hófst.
Ritrýnd grein | Scientific paper
Alls tóku 445 sjúklingar þátt í rannsókninni, meðalaldur þeirra
var 64,1 ár (sf 9,1) og 80% voru karlmenn. Fyrri innlögn vegna
kransæðasjúkdóms var skráð hjá 45% og 47% höfðu lagst
brátt inn. Meðallegutími var 3,2 dagar (0-31 dagur, sf 4,8) og
51% þátttakenda dvöldu sólarhring eða styttra á sjúkrahúsi.
Upplýsingar um bakgrunn þátttakenda má sjá í töflu 1.
Þekking tengd kransæðasjúkdómi mældist að meðaltali
13,6 stig (sf 3,3). Þekkingin mældist mest á sviði næringar
og minnst á sviði sálfélagslegrar áhættu (p < 0,001). Tafla 2
sýnir niðurstöður um sjúkdómstengda þekkingu, þar með
talið meðaltal stiga við hverri spurningu Þekking-KRANS
spurningalistans. Þær spurningar sem flestir þátttakendur
(94%) svöruðu rétt lutu að breytanlegum áhættuþáttum
kransæðasjúkdóma, leiðum til þess að stjórna blóðþrýstingi
og lýsingu á brjóstverk (92%). Þær spurningar sem fæstir
svöruðu rétt lutu að áhrifum mataræðis á kólesteról í blóði
(25%), áhrifum kæfisvefns á endurtekið hjartaáfall (32%) og
verkunarmáta kólesteróllækkandi lyfja (4%) (tafla 2).
Alls sögðust 89% þátttakenda hafa fengið fræðslu frá
heilbrigðisstarfsfólki í sjúkrahúslegunni um hjartasjúkdóm
sinn og meðferð hans. Meirihluti þátttakenda (81%) sagði að
fræðsluþarfir þeirra hefðu verið uppfylltar fyrir útskrift, þar af
34% mjög vel. Jafnframt sögðust flestir hafa mikla eða mjög
mikla þörf fyrir fræðslu um sjúkdóminn, meðferð hans og
viðbrögð við einkennum (71-76%). Hugsanleg kynlífsvandamál
(32%) og reykingar (16%) voru þeir þættir sem fæstir sögðust
hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir fræðslu um. Af þeim 18%
sem reyktu sögðust 30% hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir
fræðslu um reykingar. Fræðsluþarfir fyrir hvert efnisatriði má
sjá á mynd 1.
NIÐURSTÖÐUR