Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 55
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 55
Fræðigrein
Tilgangur þessarar fræðslugreinar er að skoða og rýna í
mannaflaspár til framtíðar, hvað verið sé að gera til að áætla
þá þörf, hvaða þættir helst valda því að hjúkrunarfræðingar
hverfa til annarra starfa og loks verður litið til stefnu og
ráðstafana stjórnvalda til að bæta mönnun til framtíðar.
Heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga er fast í vítahring manneklu,
mismikilli eftir landshlutum og stofnunum, en sums staðar
þannig að gengur nærri gæðum og öryggi skjólstæðinga og
starfsfólks. Vandi stjórnenda er mikill þegar kemur að því að
manna vaktir m.t.t öryggis og gæða (Heilbrigðisráðuneytið,
2020a). Til að geta haldið úti góðu og skilvirku heilbrigðiskerfi
þarf ýmislegt að vera til staðar. Menntað, hæft og áhugasamt
starfsfólk er meðal þeirra nauðsynlegu skilyrða sem þarf
að uppfylla í því tilliti. Það verður að vera unnt að takast
á við þann vanda sem til staðar er og upp getur komið
hverju sinni (Aiken o.fl., 2017). Í greiningu á vinnumarkaði
hjúkrunarfræðinga frá árinu 2017, sem unnin var fyrir Félag
íslenskra hjúkrunarfræðinga, var gert ráð fyrir að rúmlega 400
hjúkrunarfræðinga myndi vanta til starfa á Íslandi árið 2021
(Guðbjörg Pálsdóttir o.fl., 2017).
Ísland er ekki eina landið sem glímir við skort á
heilbrigðisstarfsmönnum. Þessi mannekla er stórt alþjóðlegt
vandamál því að vaxandi eftirspurn er eftir vinnuframlagi
hjúkrunarfræðinga um allan heim (Drennan og Ross, 2019).
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir ráð fyrir aukinni
þörf heilbrigðisstarfsmanna á komandi áratugum, m.a.
vegna fjölgunar eldra fólks og aukningar á lífstílstengdum
sjúkdómum (World Health Organisation, 2013).
Niðurstöður rannsókna, bæði erlendra sem innlendra, sýna
að æ fleiri heilbrigðisstarfsmenn leiða hugann að því að
segja upp núverandi starfi innan nokkurra mánaða og leita
á önnur mið (Jana Kristín Knútsdóttir o.fl., 2019). Úttekt
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 2013 gerði ráð
fyrir að um 40 prósent hjúkrunarfræðinga í þróuðum löndum
myndi hætta að starfa innan heilbrigðiskerfisins á næsta
áratug vegna vinnuálags, krefjandi umhverfis og lágra launa
(World Health Organisation, 2013). Það er ljóst að engum
verður hjúkrað ef enginn hjúkrar.
Hvað er viðunandi heilbrigðisþjónusta?
Stóru spurningunni um hvaða skilyrði hjúkrunarþjónustan
þarf að uppfylla, þannig að hún teljist vera viðunandi bæði
fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem veitir hana og skjólstæðinga, er
ekki auðvelt að svara. Það þarf ekki margar rannsóknir til að
sýna fram á að mannekla kemur niður á gæðum í þjónustu
og árangri meðferðar. Að nægilega margt fólk sé í boði til að
annast sjúklinga er augljóslega skilyrði fyrir því að það sé á
annað borð mögulegt. Engum er hjúkrað ef enginn hjúkrar.
Erfitt er að segja til um hversu marga hjúkrunarfræðinga
þarf á hverja 1000 íbúa til að tryggja viðunandi umönnun
og meðferð. Ekki er hægt að nefna eina ákveðna tölu því
hún verður aldrei meira en viðmiðunartala og verður alltaf
breytileg eftir hjúkrunarþyngd og sérsviðum (Saville o.fl.,
2019).
INNGANGUR
ENGUM ER HJÚKRAÐ EF ENGINN HJÚKRAR
Gefin var út heilbrigðisstefna árið 2019 fyrir íslenska heil-
brigðisþjónustu og gildir hún til ársins 2030. Þar kemur
fram að heilbrigðisráðuneytið viðurkennir vandann og að á
honum þurfi að taka (Heilbrigðisráðuneytið, 2019). Á síðustu
árum hafa verið settir saman faghópar sem eiga að vinna
að því að koma með tillögur um hvernig hægt er að brúa
mönnunargatið í heilbrigðiskerfi okkar (Heilbrigðisráðuneytið,
2020a; Heilbrigðisráðuneytið, 2020b).
Til að skoða þetta nánar veltum við fyrir okkur eftirfarandi
rannsóknarspurningum:
Útskrifum við nægilega margt faglært
heilbrigðisstarfsfólk?
Geta stjórnendur tryggt gæði og öryggi starfsfólks og
skjólstæðinga?
Hvaða þættir valda auknu álagi á hjúkrunarfræðinga?
Hver er framtíð hjúkrunarfræðinga?
Aðferð við gagnaöflun
Við gagnaöflun fyrir vinnslu þessarar greinar var stuðst við
nokkrar leitarvélar. Leitað var eftir heimildum og rannsóknum
í eftirfarandi leitarvélum: Pubmed, EbscoHost, Google scholar,
Scopus, Web of science, ProQuest og Leitir.is. Leitarorð, sem
voru notuð til þess að þrengja leitina, voru m.a. „nurses“,
„nursing staff“, „patient care“, „effect on patient“, „patient
safety“, „lack of“, „shortage“, „workforce shortages“,
„deficiency“ og „insufficient“. Einnig var leitað eftir „quality
of care“, „patient mortality“, „patient ratings“. Þessum
leitarorðum var blandað saman við leitina og stundum stuðst
við ákveðin hugtak, t.d. patient safety.
Innlendar heimildir voru meðal annars óbirt rannsókn
meðal starfsmanna SAk frá í febrúar 2021 um álag í starfi
og upplýsingar úr óbirtri skýrslu hagdeildar Landspítalans
(Kristlaug H. Jónasdóttir og Elísabet Guðmundsdóttir 2021).
Niðurskurður og sparnaður eftir efnahagshrunið árið 2008
hafði mikil áhrif á heilbrigðiskerfið hér á Íslandi. Starfsálag
jókst til muna samfara niðurskurðarkröfu, og heilbrigðis-
kerfinu var skorinn þröngur stakkur. Þetta hafði neikvæð
áhrif á starfsánægju starfsfólks innan heilbrigðiskerfisins.
Langvarandi áhrif af álaginu hafa sagt til sín undanfarin ár
með auknum fjarvistum starfsmanna og það eykur síðan
útgjöld stofnana út af aukavöktum annarra og því fylgir
aukið álag á allan hópinn (Hjördís Sigursteinsdóttir, 2016).
Kauplausar fjarvistir hjúkrunarfræðinga árið 2005, þ.e. eftir
að veikindaréttur er fullnýttur, voru að jafnaði eitt stöðugildi
hvern mánuð á Landspítala. Árið 2019 var um að ræða níu
stöðugildi og er það gríðarleg aukning. Þegar skoðaðar
eru veikindafjarvistir árið 2017-2018 annars vegar og 2018-
2019 hins vegar hækkar hlutfallið úr 10% í 20%. Meðalfjöldi