Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 4
Pistill ritstjóra
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Ritnefnd: Þórunn Sigurðardóttir, Sölvi Sveinsson,
Þorgerður Ragnarsdóttir
Ritstjóri ritrýndra greina: Kristín Linda H Hjartardóttir
Ritnefnd ritrýndra greina: Páll Biering, Sigrún Sunna
Skúladóttir, Þóra Jenný Gunnarsdóttir
Yfirlestur: Ragnheiður Linnet
Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir - sími 821 2755
Hönnun og umbrot: Þorbjörg Helga Ólafsdóttir
Forsíðumynd: Heiða Helgadóttir
Myndir: shutterstock.com, envato.com, Sigríður Elín
Ásmundsdóttir, Ari Brynjólfsson ofl.
Prentun: PrentmetOddi
ISSN 2298-7053
Tímarit hjúkrunarfræðinga
Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík
s. 540 6400
hjukrun.is
Útgefandi: Félag íslenskra
hjúkrunarfræðinga
Framúrskarandi
fagfólk
Fyrsta tölublað ársins er komið út og óhætt að segja að efnið sem
fyllir síðurnar sé fjölbreytt og fræðandi, áhugavert og alls konar.
Stóra viðtalið í blaðinu er við Sigríði Gunnarsdóttur sem gegndi
stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala í áratug, eða
þar til síðasta haust, þegar hún tók við starfi forstöðumanns
Rannsókna- og skráningaseturs Krabbameinsfélagsins. Sigríður
er kraftmikil hugsjónakona, einlæg, hreinskilin og eldklár. Í
viðtalinu talar hún meðal annars um þau viðhorf og öfl sem halda
hjúkrun niðri: „Það virðist enn eima eftir af þeirri hugmynd að
hægt sé að fá „góðar konur“ til að hugsa um veikt fólk, hvort sem
það er á sjúkrahúsum, öðrum heilbrigðisstofnunum, heima eða
í öldrunarþjónustu. Iðulega hef ég verið spurð að því hvort ekki
sé hægt að fela öðrum verkefni hjúkrunarfræðinga, hvort námið
þeirra sé ekki of langt og þar fram eftir götunum. Þetta er viðhorf
sem loðir við og er hættulegt, ekki bara fyrir hjúkrunarfræðinga
sem stétt, heldur ekki síður fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið í
heild sinni.“ Sigríður rifjar svo upp, í þessu samhengi, samtal sem
hún átti snemma á sínum ferli þegar hún sat fund með þáverandi
landlækni og aftur ætla ég að fá að vitna beint í orð Sigríðar:
„Verið var að ræða yfirvofandi skort á hjúkrunarfræðingum og
landlæknir segir þá að þegar hann hafi starfað sem læknir í
heilbrigðisþjónustu hafi hjúkrunarfræðingar aðallega verið í því
að bursta tennur og greiða hár og að hann vissi ekki betur en að
þeir væru enn að því. Ég gleymi þessu aldrei, vanþekkingin og
fordómarnir í garð hjúkrunarfræðinga voru yfirþyrmandi. Þarna
talaði einn helsti áhrifamaður í íslenskri heilbrigðisþjónustu og
ráðgjafi ráðamanna. En þann tíma sem ég var framkvæmdastjóri
hjúkrunar varð ég vör við þetta viðhorf og þau öfl sem halda
hjúkrun niðri. Þó svo að þetta sé alls ekki lýsandi fyrir viðhorf
læknastéttarinnar þá hefur mér þótt þessi viðhorf eiga of greiðan
aðgang í stjórnsýsluna og pólítíkina.“
Það virðist ætla að taka margar kynslóðir að uppræta og breyta
þessum rótgrónu viðhorfum sem Sigríður talar um, þessa bullandi
fordóma og vanþekkingu á störfum hjúkrunarfræðinga. Það
virðist því miður ekki vera gjörþekkt „þarna úti í samfélaginu“
að hjúkrunarfræðingar eru fagfólk, að þetta er fagstétt með
margra ára háskólanám að baki. Og margt af þessu fagfólki býr
yfir áratuga starfsreynslu sem er afar dýrmæt. Baráttan gegn
vanþekkingu og rótgrónum viðhorfum heldur áfram og mjakast
vonandi í rétta átt, betri kjör og fleiri karlmenn í hjúkrun eiga
sinn þátt í að breyta þessum gömlu, rótgrónu viðhorfum. Félag
íslenskra hjúkrunarfræðinga ákvað í þessu samhengi að fara í
ímyndaherferð þar sem slagorðið er:
Hjúkrunarfræðingar – framúrskarandi fagfólk.
Verðlaunaljósmyndarinn Heiða Helgadóttir var fengin til
að mynda herferðina og undirrituð og Heiða fóru í HA og á
heilbrigðisstofnanir í þeim tilgangi að mynda hjúkrunarfræðinga;
framúrskarandi fagfólk í sínu starfsumhverfi. Ímyndarherferðin
á að sýna fjölbreytt og mikilvæg störf hjúkrunarfræðinga og við
byrjuðum á gjörgæsludeildinni við Hringbraut. Sölvi Sveinsson
sem þar starfar var fús til að taka þátt í herferðinni, eins og allir
hinir hjúkrunarfræðingarnir sem við höfðum samband við. Takk
fyrir að gefa ykkur tíma í þetta verkefni. Myndirnar munu svo
birtast á biðskýlum strætisvagnastöðva og á fleiri stöðum þegar
herferðin fer í gang. Þess má geta að forsíðumyndin að þessu sinni
er ein af þeim framúrskarandi flottu myndum sem Heiða tók fyrir
ímyndaherferðina en Sölvi á líka grein í blaðinu sem hann skrifaði
með Þorsteini í Hermisetrinu en sá var einmitt líka myndaður fyrir
herferðina.
Ég vil að lokum minna á alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga
föstudaginn 12. maí en þann dag verður aðalfundur Fíh
haldinn í Norðurljósasal Hörpu og því tilvalið að gera sér
glaðan dag. Miðvikudaginn 10. maí ætlar félagið að bjóða
hjúkrunarfræðingum að koma í Smárabíó milli 17-19 og sjá
aukaefni sem tekið var upp við gerð þáttanna Stormur sem sýndir
voru á RÚV nýverið. Þríeykið á bakvið Storm, þeir Jóhannes Kr.
Kristjánsson, Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson leikstjóri
munu mæta á svæðið og spjalla við áhorfendur um gerð þáttanna
eftir sýninguna. Ekki láta þessa sýningu fram hjá ykkur fara.
Gleðilegt vor og gleðilega páska, kæra fagfólk.
Þið eruð framúrskarandi!
Vona að þið njótið þess að lesa tímaritið.
4 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 99. árg. 2023