Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 34
34 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 99. árg. 2023
ekki vel til heilbrigðisþjónustu í Reykjavík. Lands-
byggðarnemendur eru auk þess oft langt frá sínum
nánustu og þá er gott að hafa heilsugæslu í skólanum.
Þetta er í rauninni nauðsynleg þjónusta, það er mikilvægt
að hlusta á unga fólkið og styðja það. Að mínu mati þarf
viðvera hjúkrunarfræðings að vera að minnsta kosti tvo
til þrjá daga í viku, svo að það sé samfella í þjónustunni
og nemendur finni og sjái að við erum til staðar fyrir
þá. Oft þarf líka að fylgja ákveðnum málum eftir og þá
er slæmt að þurfa að bíða í marga daga eða vikur,“ segir
Jóhanna og bætir við: „Ef þetta verkefni kemur vel út
og virkar þá getur það dregið úr álagi annars staðar í
heilbrigðiskerfinu, jafnvel komið í veg fyrir vandamál eða
dregið úr umfangi þeirra. Það getur skipt sköpum að stíga
snemma inn í aðstæður.“
Sjálfsskaði og andleg aðstoð
Hvaða vandamál eru nemendur helst að leita til þín með?
„Þau eru misjöfn, t.d. sjálfsskaði, næringarmál, aðstoð
með greiningarferli eins og til að mynda ADHD, vanlíðan
eftir áföll og svo margt annað og alltaf er mikilvægast
að hlusta og styðja þau í sínu.“ Dæmi um þjónustu sem
Jóhanna hefur veitt er næringar- og lífsstílsráðgjöf. „Til
mín kemur nemandi sem segist vilja missa átta kíló. Strax
þarna verðum við að skoða málin í heild og spóla aðeins
til baka og þarna kemur lífsstílsmóttakan inn. Það sem
við gerðum í tilfelli þessa nemanda var að fara yfir líðan,
lífsstíl og fleira. Við skoðuðum hverju var hægt að breyta,
hvort það væri vilji til að bæta lífsvenjur og hvort eitthvað
annað gæti líka bætt líðanina. Einnig þarf stundum að
athuga hvort eitthvað annað sé undirliggjandi sem hefur
áhrif. Þegar fókusinn er allur á að missa einhver kíló
þá er svo margt sem getur farið úr skorðum. En sama
hvert erindið er þá skiptir traustið miklu máli og því er
mikilvægt að við fáum tíma og svigrúm til að mynda
þetta traust, það tekur jú langan tíma að eignast gamla
vini,“ útskýrir Jóhanna og tekur annað dæmi: Til hennar
leitaði nemandi sem glímdi við einbeitingarvanda og
taldi sig mögulega vera með ADHD. „Viðkomandi hafði
reynt ýmis úrræði gegnum árin en taldi sig þurfa að fara í
greiningarferli. Einungis geðlæknar og sálfræðingar með
réttindi geta greint ADHD og bið eftir slíkri greiningu
getur verið mjög löng. Nemandinn var vonlítill og vissi
ekki hvernig hann ætti að snúa sér í þessu. Í sameiningu
kölluðum við eftir gögnum nemandans frá fyrri tíð og
þá kom í ljós að þar var greining sem var gild. Þá gátum
við í samvinnu við heimilislækni nemandans flýtt ferlinu
þannig að nemandinn gat fengið viðeigandi meðferð
strax. Þarna skipti þverfagleg samvinna og þekking á
kerfinu miklu máli.“
Er þjónustan sem þið veitið inni í skólanum eitthvað
frábrugðin þeirri sem er veitt á heilsugæslustöðvunum
sjálfum? „Já og nei, ég segi stundum við nemendur að
þetta sé bara eins og að koma til vakthjúkrunarfræðings á
heilsugæslu, nema við erum í skólunum. Tengingin milli
framhaldsskólanna og heilsugæslunnar er mjög mikilvæg
og felur í sér aukna þjónustu fyrir þennan hóp. Það er svo
margt sem hægt er að gera með þverfaglegri samvinnu.“
Nú líður að lokum þessa samkomulags, hvað verður gert
í framhaldinu? „Í samningnum er tekið fram að aðilar
skuli funda um áframhald samstarfsins. Það kemur að
því og ég vona svo innilega að þessu starfi verði haldið
áfram. Hægt er að sjá fyrir sér að aukinn stuðningur
við framhaldsskólanemendur geti minnkað álag á
heilbrigðiskerfið. Nemendur eru að nýta sér þjónustuna
og þurfa á henni að halda,“ svarar Jóhanna vongóð um
framhaldið.
Hleypur um ganga skólans og götur borgarinnar
Nú ert þú mikil hlaupakona og áhugamanneskja um
heilbrigðan lífsstíl, eru hlaup stór þáttur í lífi þínu? „Mig
langaði alltaf að taka þátt í íþróttum þegar ég var ung en
fann ekkert sem hentaði mér. Þegar ég var orðin 35 ára
fórum við vinkona mín að hlaupa saman stífluhringinn
í Elliðaárdalnum og gerðum það um hríð. Svo skráði
ég í mig í hlaupahóp og þá var ekki aftur snúið. Þar
hitti ég manninn minn og það má segja að við höfum
hlaupið saman í gegnum lífið síðan og gert ótalmargt
skemmtilegt saman sem tengist hlaupum.“
Hún segir að hlaupahópur sé góður félagsskapur
og að með árunum verði til vinasambönd sem séu
jafnmikilvæg og sjálf hlaupin. „Við hjónin höfum tekið
þátt í alls konar hlaupum, bæði hér heima og erlendis.
Krakkarnir okkar fóru svo að koma með okkur sem er
ótrúlega gaman. Synirnir þrír hafa allir hlaupið maraþon
og það einstök tilfinning að standa á startlínunni með
þeim. Eitt barnabarnið er líka farið að taka þátt í hlaupum
og var hraðastjóri með mér í Reykjavíkurmaraþoninu
síðastliðið sumar, amman var mjög ánægð þá,“ segir
hún brosandi og þá látum við lokaspurninguna vera um
framtíðina, hvernig sér Jóhanna komandi ár fyrir sér?
„Eins og staðan er í dag þá býður framtíðin vonandi upp á
frábæra vinnustaði og nokkur ár í starfi í viðbót. Kannski
verður það minn svanasöngur á ferlinum; reynslan úr
heilsugæslunni, skólaheilsugæsla og stjórnun. Þá reynslu
get ég nýtt, ásamt því að hjálpa nemendum og styðja við
aðra hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólunum. Að leggja
saman reynslu og ungdómskraft er góð blanda.“
Álag á heilbrigðiskerfið hefur því miður ekki farið
minnkandi síðustu ár en með fræðslu, forvörnum og
stuðningi við framhaldsskólanemendur er mögulega
hægt að draga úr þessu álagi og jafnvel koma í veg fyrir
vandamál. Það verður því spennandi að fylgjast áfram
með starfi hjúkrunarfræðinga á vettvangi framhaldsskóla
sem vonandi stuðlar að bættri heilsu og líðan nemenda.
Hjúkrun í framhaldsskólum
„Tengingin milli framhaldsskólanna og
heilsugæslunnar er mjög mikilvæg og felur í
sér aukna þjónustu fyrir þennan hóp.
Það er svo margt sem hægt er að gera með
þverfaglegri samvinnu.“