Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 46
46 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 99. árg. 2023
Landsbyggðin
Hjá VIRK náði ég að byggja mig upp og ég lærði að
segja nei. Í dag gríp ég bara tækifærin ef mig langar
til þess en áður greip ég öll tækifæri. Ég veit núna að
það gengur aldrei upp, það eru bara 24 klukkustundir
í sólarhringnum,“ segir hún og bætir við að reynslan
hafi kennt sér hvar hennar mörk liggja. „Ég mun alltaf
vera með marga bolta á lofti í einu því að þannig
fúnkera ég best en ég legg mig alla fram um að hafa
verkefnin ekki of mörg, sérstaklega eftir að börnin
mín fæddust. Nú eru þau í forgangi og ég vil hafa
góðan tíma til að sinna þeim. Ég þurfti samt að krassa
til að sjá hvað það er sem skiptir mig raunverulega
máli í lífinu. Við það myndaðist líka svigrúm til að
gera hluti sem mig hafði alltaf langað til að gera eins
og að ferðast. Ég er með mjög langan „bucket“-lista
yfir það sem mig langar að gera og er alltaf að bæta á
hann en ég náði að höggva duglega á hann þegar ég
fór að hafa meiri tíma.“
Var sjálfboðaliði í Kambódíu
Helga Margrét hefur verið dugleg að flakka um
heiminn og fór meðal annars til Kambódíu árið
2017 þar sem hún starfaði sem sjálfboðaliði á
sjúkrahúsi fyrir fátækt fólk. „Það er lífsreynsla sem
gleymist aldrei. Ég varð eftir þann tíma sáttari við
líf mitt, dauðir hlutir skiptu mig minna máli og
hugsunarháttur minn breyttist. Ég upplifði svo
mikla innri ró í Kambódíu að ég var næstum því flutt
þangað.“
Hún segir að allir hjúkrunarfræðingar hefðu gott af
því fara út fyrir landsteinana í sjálfboðaliðavinnu.
„Ég öðlaðist reynslu sem ég mun aldrei fá í störfum
mínum á Íslandi. Það sem stóð upp úr var að ég fékk
að taka á móti sjö börnum, einfaldlega vegna þess að
mæðurnar töldu það heillamerki fyrir barnið ef hvít,
ljóshærð kona tæki á móti börnunum þeirra. Ég lenti
líka stundum í því þarna úti að fólk rétti mér börnin
sín og bað mig um að kyssa þau,“ segir hún og brosir.
Brimbrettaskóli og fallhlífarstökk
Helga Margrét segir aðbúnaðinn á sjúkrahúsinu í
Kambódíu hafa verið slæman: „Þarna voru ekki öll
þau tæki og tól sem okkur heima á Íslandi finnst
sjálfsagt að séu til staðar. Sjúkrahúsið var skítugt
og sóttvarnir voru ekki nógu góðar. Ég lenti í því að
aðstoða við að fjarlægja hálfan fingur af manni með
gömlum skærum og það var ekki einu sinni verið
að hafa fyrir því að fara með hann inn á skurðstofu.
Ég aðstoðaði líka við nokkrar aðgerðir þarna og
svæfingalæknirinn sat oftast á gólfinu í símanum
sínum á milli þess sem hann var að taka sjálfumyndir
af okkur að vinna.“ Helga Margrét segir að reynsla í
Kambódíu hafi kennt henni að meta heilbrigðiskerfið
á Íslandi betur. „Það er langt frá því að vera fullkomið
hér á landi en það er margt sem við tökum sem
sjálfsögðum hlut sem er alls ekki sjálfsagt annars
staðar í heiminum.“
Hún fór líka til Balí í brimbrettaskóla: „Það var gamall
draumur sem rættist og nú er draumurinn að læra
betur á brimbretti svo ég geti stundað það hérna
heima. Ég fór til Belgíu og prófaði fallhlífarstökk og
til Taílands þar sem ég annaðist fíla og varði tíma
með litlum ættbálki og svaf í bambuskofa sem var
„Ég lenti í því að
aðstoða við að
fjarlægja hálfan
fingur af manni
með gömlum
skærum og það
var ekki einu
sinni verið að
hafa fyrir því
að fara með
hann inn á
skurðstofu.“
yfir fallegum læk. Það var einstakt og ég mun aldrei
gleyma tilfinningunni að vakna í alveg fersku lofti,
við lækjarnið og ganga berfætt út þar sem var verið
að hita kaffi yfir opnum eldi. Ég tók gott tímabil þar
sem ég gerði bara það sem mig langaði til að gera, lét
drauma rætast og naut lífsins.“
Tvö börn, brúðkaup og Blönduós
Aftur til Íslands, Helga Margrét útskrifaðist úr hjúkrun
vorið 2019 og var þá orðin ófrísk að dóttur sinni sem
fæddist í lok þess sama árs. „Ég varð svo aftur ólétt
þegar hún var sex mánaða og haustið 2020 byrjaði
ég í masters-náminu, þá ólétt að syni mínum.“
Eiginmaður Helgu er Helgi Garðar Helgason en hann
er frá Grímsey. „Við byrjuðum saman í byrjun árs 2019
en vorum æskuvinir, kynntumst á Akureyri þegar ég
flutti þangað 12 ára. Þegar við fórum að vera saman
gerðust hlutirnir hratt því við giftum okkur árið 2020
og eignuðumst tvö börn á fimmtán mánuðum. Ég
á líka stjúpdóttur sem er að verða 18 ára og kemur
reglulega til okkar sem er yndislegt. Við fórum hratt
í allan pakkann og erum núna hætt barneignum en
ég var svo tilbúin í þetta. Þegar ég varð mamma var
ég búin að ferðast og upplifa mjög mikið og fannst ég
ekki vera að missa af neinu. Það var komið að þessum
kafla í lífinu og það var fullkomið hvað allt gerðist
hratt því það er svolítið tempóið sem ég kann best
við,“ segir hún brosandi.
Í Kambódíu fór Helga Margrét á milli grunnskóla og kenndi nemendum heilbrigðisfræðslu.