Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 17
1. tbl. 99. árg. 2023 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 17
miklar skoðanir á því hvað hjúkrunarfræðingar eru að
fást við og hvar þeir vinna. Það er hins vegar mín skoðun
að hjúkrunarfræðingar ráði því, eins og annað fólk, hvar
þeir starfi og að það sé á ábyrgð heilbrigðisstofnana að
skapa vinnuumhverfi sem laðar til sín hjúkrunarfræðinga
og heldur þeim í starfi. Vinnuumhverfið, kaup og
kjör þurfa að vera þannig að starfið sé raunhæfur
kostur og val. Flestir hjúkrunarfræðingar vilja starfa
við hjúkrun og langstærsti hluti þeirra sem eru ekki
að vinna á heilbrigðistofnunum eru að vinna störf
þar sem hjúkrunarfræðin skiptir miklu máli eins og
í nýsköpunarfyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu og
lyfjaþróun svo dæmi séu tekin.“
Stéttin líður fyrir það að vera kvennastétt
Hún leggur áherslu á að þróun í hjúkrun sé mjög
mikilvæg og hjúkrunarfræðingar þurfi að vera hluti af
þeirri þróun. Þeirra menntun nýtist í öðrum stöfum en
bara inni á heilbrigðisstofnunum. „Hjúkrunarstéttin
líður fyrir það að vera kvennastétt og ein leiðin er að
fjölga karlmönnum í hjúkrun en það á samt ekki að
vera lausnin, það á að meta störf hjúkrunarfræðinga
að verðleikum. Starfið krefst mikillar þekkingar
og er mjög krefjandi, bæði líkamlega og andlega.
Hjúkrunarfræðingar þurfa líka að vera virkir í að sinna
endurmenntun til að halda í við stöðuga tækniþróun til
að mynda,“ segir hún. Rannsóknir á öryggi sjúklinga og
tengsl við mönnun í hjúkrun segja allt sem segja þarf.
Afburðafagfólk stóð vaktina í heimsfaraldri
Talið berst að heimsfaraldrinum sem setti samfélagið
má segja á hliðina í lengri tíma en nokkurn óraði fyrir.
Sigríður segir að sitt hlutverk í Covid-19 hafi að mestu
leyti verið á bak við tjöldin. „Ég þurfti að tryggja það að
við værum með hjúkrunarfræðinga sem hefðu þá hæfni
sem til þurfti til að sinna þessum störfum. Til dæmis
þegar opna þurfti Covid-19 legu- og göngudeildir.
Það þurfti líka starfsfólk til að sinna símaveri Covid-
göngudeildar og fæstir vita að í símaverinu störfuðu
gríðarlega reyndir hjúkrunarfræðingar; fólk með svarta
beltið í hjúkrun, má segja, sem kom í veg fyrir innlagnir
og gat veitt nauðsynlega fjarþjónustu sem minnkaði
álagið á heilbrigðisstofnanir. Önnur heilbrigðisþjónusta
leið fyrir þetta í faraldrinum,“ útskýrir Sigríður þegar
hún rifjar upp þennan sérstaka tíma þegar veiran skæða
átti sviðið og umræðan um heimsfaraldurinn heldur
áfram: „Þegar bylgjurnar gengu niður átti að keyra í
gegn skurðaðgerðir og annað sem hafði setið á hakanum
en það gleymdist að sama fagfólkið sem sinnti Covid
sjúklingum átti svo að fara að keyra í gegn þessar aðgerðir
sem höfðu setið á hakanum. Þessi tími tók sinn toll,
margir gengu mjög nærri sér, unnu of mikið og nú sjáum
við að veikindatíðni er há og vaxandi. Allir lögðust á eitt
og stjórnendur á spítalanum unnu líka alla daga ársins.
Fólk segir stundum að heilbrigðiskerfið hafi hrokkið í
gang þegar faraldurinn braust út, þá hafi hjólin farið að
snúast. En eins og ég sé þetta, en færri kannski átta sig á,
þá vinnur fólk að umbótum á spítalanum á hverjum degi
og hefur gert í áratugi. Svo þegar við stóðum frammi fyrir
þessari stóru áskorun var hægt að sameina alla kraftana
í leysa þetta stóra verkefni sem Covid-19 var. Önnur
verkefni voru lögð til hliðar og þekkingin og reynslan fór
öll í að leysa þetta eina verkefni. Undirbúningurinn hafi
átt sér stað, þess vegna gekk þetta eins vel upp og raun
bar vitni,“ útskýrir hún brosandi.
Markmiðið alltaf hagsmunir sjúklinga og
hjúkrunarfræðinga
Þá leikur okkur forvitni á að vita hvað hafi verið það
besta við starfið, hvernig hefur það til að mynda gert þig
að betri fagmanneskju eða stjórnanda? „Ég þrífst á því að
vinna með fólki, bæta, þróa og taka þátt í uppbyggingu.
Ég vann að verkefnum sem stuðla að betri þjónustu því
samfélagið er alltaf að breytast. Mér finnst frábært að
fá að vinna með flinku og dugmiklu fólki sem brennur
fyrir því sem það er að gera. Að hafa tilgang með starfinu
er svo mikilvægt og ég hef alltaf haft sama markmiðið
sem eru hagsmunir sjúklinga. Maður er líka að leggja sitt
af mörkum í hjúkrun sjúklinga þó svo að maður starfi
við stjórnun, rannsóknir eða kennslu. Það vill svo til að
hagsmunir sjúklinga og hjúkrunarfræðinga fara nánast
alltaf saman, það var rauði þráðurinn í mínu starfi sem
framkvæmdastjóri hjúkrunar. Og þegar ég er að beita
mér fyrir hjúkrun þá er ég að beita mér fyrir sjúklingana
líka, þetta hangir saman.“
Sigríður segist í grunninn vera vísindamaður sem marki
það hvernig hún horfi á verkefni og áskoranir í starfi:
„Ég spyr mig gjarnan hvort við vitum að sú leið sem við
erum að fara sé endilega besta leiðin og muni skila þeim
árangri sem við erum að leitast eftir? Það er mikilvægt að
markmiðin sem við ætlum okkur að ná séu skýr í þessu
samhengi; hvað er það sem við viljum bæta eða breyta?
Breytingar mega ekki verða eingöngu breytinganna
vegna, þær verða að hafa tilætluð áhrif og tilgang,“
útskýrir hún og ítrekar að fólkið sem hún hafi starfað
með þegar hún var framkvæmdastjóri hjúkrunar hafi
verið samansafn af hæfileikaríku fólki, hugsjónafólki.
Saknar samstöðu innan hjúkrunarsamfélagsins
Talið berst að stéttinni og Sigríður segir að þrátt fyrir
allt góða fagfólkið þar sakni hún þess að ekki sé meiri
samkennd og samstaða í hjúkrunarsamfélaginu í því að
bera virðingu fyrir því sem aðrir eru að gera innan þess.
„Til dæmis þessi umræða um að allir hjúkrunarfræðingar
séu komnir í einhver verkefni. Fyrir það fyrsta er það ekki
rétt en á sama tíma viljum við að hjúkrunarfræðingar
taki þátt í og leiði það að móta og þróa þjónustuna og
hjúkrun, við viljum líka að hjúkrunarfræðingar hafi
fjölbreytileg tækifæri til að vaxa og þróast í starfi.“
Aðspurð hver sé rót þessarar umræðu og óeiningar
sem hún geti leitt af sér segist Sigríður halda að þessi
neikvæða umræða skapist vegna skortstöðu. „Fólk
upplifir sig í klemmu – af hverju er þessi ekki komin
að taka vaktir og fleira í þeim dúr. Líka vegna þess að
við erum ekki nógu dugleg að miðla heildarmyndinni,
Landspítalinn er mjög stór vinnustaður og fjölbreyttur.
Viðtal
„Mér hefur fundist þessi umræða á milli veitenda
þjónustunnar og yfirvalda ekki vera vitræn og
hún hefur í raun verið mér mjög þungbær því
hún er ekki rökrétt og stríðir gegn réttlætiskennd
minni.“