Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 74
74 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023
Það hefur því verið mikið gæfuspor að slíkar mælingar
hafa tíðkast til lengri tíma á Landspítala. Í þessari grein
er rýnt í gögn frá 15 legudeildum sem notað hafa Rafaela-
hjúkrunarþyngdarflokkunarkerfið en áframhaldandi inn-
leiðing er í gangi m.a. á gjörgæsludeildum, fleiri legudeildum
og dagdeild, og mögulegt er að nota kerfið einnig á göngu-
deildum. Eins hefur flokkunarkerfið verið innleitt á öðrum
sjúkrastofnunum á landinu sem gefur möguleika á að
skoða enn frekar hjúkrunarþyngd og hjúkrunarálag þvert á
þjónustustig og veitendur.
Mikilvægt er að hafa í huga að mælingar Rafaela-kerfisins
ná eingöngu til þeirra þátta er varða beina hjúkrun og því
verður að taka aðra þætti með í reikninginn þegar dregin
er upp heildarmynd af vinnuálagi og mönnun til annarra
viðfangsefna. Þetta á t.d. við um verkefni sem tengjast
leiðbeiningu nemenda, gæða- og umbótastarfi og flóknara
starfsumhverfi.
Eins og fram kemur í greininni hefur þróun varðandi
samsetningu mannafla ekki verið í þá átt sem markmið
voru um, en engar deildir ná því markmiði að hlutfall
hjúkrunarfræðinga af heildarmannafla í hjúkrun nái 60% árið
2021. Í ljósi þess hversu margar rannsóknir styðja mikilvægi
þess að mönnun hjúkrunarfræðinga sé fullnægjandi til að
tryggja öryggi sjúklinga er nauðsynlegt að vinna markvisst að
því að ná þessu markmiði.
Hér er stuttlega komið inn á þá þróun sem á sér stað í tilfærslu
verkefna á milli þjónustustiga og áhrif þess á hjúkrun. Fyrirséð
er að áfram verður vöxtur í dag- og göngudeildarþjónustu
og mikil sóknarfæri eru enn í fjarheilbrigðisþjónustu. Slíkar
breytingar hafa ekki aðeins áhrif á sjúklinga og aðstandendur
þeirra sem þurfa að axla síaukna ábyrgð á eigin meðferð
heldur hefur þessi þróun mikil áhrif á starfsumhverfi
hjúkrunarfræðinga. Fyrir það fyrsta krefst þessi aukna
áhersla á ábyrgð og þátttöku sjúklinga það í för með sér
að heilbrigðisstarfsfólk tryggi að skjólstæðingar þeirra séu
upplýstir notendur. Eitt af lykilhlutverkum hjúkrunarfræðinga
er einmitt fræðsla og stuðningur til sjúklinga og aðstandenda.
Því má ætla að slík verkefni krefjist sífellt meira vinnuframlags.
Varðandi starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga þá hefur þessi
tilfærsla á dag- og göngudeildum og fjarheilbrigðisþjónstu
það í för með sér að æ stærri hluti hjúkrunarfræðinga sinnir
störfum sínum á dagvinnutíma. Slík störf krefjast oft mikils
sjálfstæðis og oft og tíðum sérfræðiþekkingar.
Margir hafa velt því fyrir sér hvort tækniframfarir og nýjungar
muni ekki að einhverju leyti koma í stað hjúkrunarfræðinga
og draga úr þörf fyrir þá. Afar mikilvægt er að þróa lausnir til
að auðvelda störf hjúkrunarfræðinga og einfalda en ekkert
bendir til þess að þær muni koma í stað hjúkrunarfræðinga
í framtíðinni (Peptio og Rozzano, 2019). Hins vegar er ljóst
að störfin munu breytast og nýta sér í síauknum mæli
tækninýjungar. Í þessu samhengi mætti nefna fjarheilbrigðis-
þjónustu sem mun sannarlega vera mikilvæg til að mæta
þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. Það er þó fjarri því að hægt
sé að gera ráð fyrir því að hjúkrunarfræðingar og annað
heilbrigðisstarfsfólk veiti slíka þjónustu til viðbótar við það
sem það gerir nú þegar. Eðlilegra væri að gera ráð fyrir henni
sem nýju þjónustustigi sem þurfi að manna sérstaklega. Þetta
þýðir þó ekki að ekkert hagræði hljótist af slíkum nýjungum
en þær munu þó fyrst og fremst skila sér í bættri þjónustu
við sjúklinga og síðast en ekki síst því að hægt verði að veita
stækkandi hópi neytenda þá þjónustu sem þeir hafa þörf fyrir.
Af framansögðu er því hægt að draga þá ályktun að áfram
muni þörf fyrir vel menntaða og þjálfaða hjúkrunarfræðinga
vera mikil og eigi aðeins eftir að aukast. Mikilvægt er að
tryggja nægt framboð af hæfum hjúkrunarfræðingum og
eins og fram kemur í fyrri greininni í þessum greinaflokki
stendur nýliðun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga ekki undir
endurnýjun og fyrirsjáanlegri aukningu á þjónustuþörf. Því
þarf að leita allra leiða til að fjölga þeim sem ljúka námi í
hjúkrunarfræði. Eins þarf að tryggja nægjanleg tækifæri til
sérhæfingar, menntun og þjálfunar til sérfræðingsréttinda
í hjúkrun. Samhliða þessu er einnig mikilvægt að
stuðla að festu í starfi með því að styrkja starfsumhverfi
hjúkrunarfræðinga, stjórnun, sjálfræði og þátttöku í
ákvarðanatöku.
Vísbendingar eru um að tengsl séu á milli vaxandi fjölda
aldraðra, fordæmalausra breytinga á samfélagsgerð vegna
mikillar fjölgunar erlendra ríkisborgara og ferðamanna hér á
landi og eftirspurnar eftir starfskröftum hjúkrunarfræðinga
á Landspítala. Mikilvægt er að bæði stjórnvöld og veitendur
heilbrigðisþjónustu viðurkenni þetta og bregðist við. Einnig
er mikilvægt að skoða nánar en svigrúm gafst til í þessari
grein, þróun stöðugilda í hjúkrun á Landspítala eftir styttingu
vinnuviku. Eins þarf að greina enn betur þau verkefni sem
hjúkrunarfræðingar þurfa að inna af hendi umfram beina
hjúkrun sjúklinga. Síðast en ekki síst þarf að rannsaka hvaða
áhrif starfsumhverfi við hjúkrun sjúklinga s.s. mönnun og
þjónustuform hefur á sjúklinga og aðstandendur þeirra.
Hjúkrun – grunnstoð heilbrigðiskerfisins