Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 12
12 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023
Sigríður Gunnarsdóttir lauk BS-gráðu í hjúkrunar-
fræði frá Háskóla Íslands 1997, meistaraprófi
í skurð- og lyflæknishjúkrun með áherslu á
krabbameinshjúkrun frá University of Wisconsin í
Madison árið 2000 og doktorsprófi í krabbameins-
hjúkrun frá sama skóla árið 2004. Sigríður var
lektor í krabbameinshjúkrun við Háskóla Íslands frá
2005 til 2009 og dósent frá árinu 2009 jafnframt
því að gegna starfi forstöðumanns fræðasviðs
í krabbameinshjúkrun við Háskóla Íslands og
Landspítala frá árinu 2005. Frá árinu 2012 og
þar til í september 2022 starfaði Sigríður sem
framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala þar
sem hún leiddi faglega þróun hjúkrunar og vann
meðal annars að uppbyggingu og eflingu gæða-
og umbótastarfs spítalans. Hún ákvað að gefa ekki
kost á sér áfram í það starf og tók þann 1. október
síðastliðinn við starfi forstöðumanns rannsókna-
og skráningaseturs Krabbameinsfélagsins.
Við fengum þessa kraftmiklu hugsjónakonu í spjall um árin og
áskoranirnar sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum
og um nýja starfið hjá Krabbameinsfélaginu.
Starf framkvæmdstjóra hjúkrunar var ómótað
Byrjum á því að spyrja Sigríði hvað standi upp úr eftir þessi 10
ár sem framkvæmdastjóri hjúkrunar? „Persónulega hef ég lært
mjög mikið á þessum tíma, ég hafði til að mynda engan bakgrunn
í stjórnun þegar ég tók við starfinu. Ég kom inn sem fagmaður og
vísindamaður og þurfti að finna taktinn. Ég hef þurft að takast á
við mjög krefjandi verkefni og þessi tími hefur verið kaflaskiptur.
Þegar ég tók við var starfið í raun ómótað en það hafði orðið
grundvallarbreyting á því nokkrum árum áður, starfið var áður
mjög rekstrarmiðað og aðaláherslan var á stjórnun. Því hafði
svo verið breytt þannig að sá sem gengdi því var fyrst og fremst
faglegur leiðtogi en þegar ég tók við starfinu þá studdu innviðirnir
ekki við það markmið. Ég til að mynda hafði nánast engin
mannaforráð þegar ég tók við og átti að vera að predika faglegan
boðskap án þess að hafa tæki og tól til að framkvæma og stuðla að
breytingum. Fljótlega eftir að ég tók við voru gerðar breytingar á
skipuriti spítalans þegar starfsemi framkvæmdastjóra hjúkrunar og
framkvæmdastjóra lækninga var sameinuð og samstarf þeirra jókst
til muna. Á sama tíma var svið vísinda, mennta og nýsköpunar lagt
niður og fært undir framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga.
Við þetta fengum við forræði yfir málaflokkum sem gerðu okkur
raunverulega kleift að stuðla að breytingum.
Fyrstu árin fór mikill tími í að byggja þetta starf upp. Mikil
áhersla var lögð á gæði og umbætur í starfseminni og fyrstu árin
einkenndust má segja af því að koma upp þessum innviðum en
á sama tíma voru erfið og þung mál í gangi sem lúta að öryggi
og gæðamálum. Við vorum að taka upp nýtt verklag við að
greina og fara yfir alvarleg atvik og að reyna að innleiða opna
öryggismenningu. Markmiðið var að rýna í alvarleg atvik til að
læra af þeim og fara úr þessari gömlu hugsun, að það sé refsivert
að verða á í starfi. Mistök eru óhjákvæmilegur hluti af starfinu
en okkar hlutverk var að fækka þeim og lágmarka skaðann.
Mikilvægast er að læra af mistökum og nota þau til þess að vinna
að umbótum.“
Sigríður segir að átökin við að breyta þessari menningu standi
upp úr: „Vegna þess að við vorum að reyna að breyta ákveðnum
hugsunarhætti inni á spítalanum á sama tíma og ytra umhverfið
var ekki tilbúið í slíkar breytingar og er ekki enn öllum þessum
árum síðar.“
Viðtal: Sigríður Elín Ámundsdóttir | Myndir: Þorkell Þorkelsson og úr einkasafni
Þrífst á því að vinna
með fólki, bæta,
þróa og taka þátt í
uppbyggingu
Dr. Sigríður Gunnarsdóttir
Viðtal