Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 94
94 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023
Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa vísbendingar um að
breytinga sé þörf þegar kemur að aðlögun nýútskrifaðra
hjúkrunarfræðinga ef leitast á við að halda þeim innan
stéttarinnar. Starfið krefst færni sem eingöngu þróast með
reynslu og því er ekki hægt að ætlast til að nýútskrifaðir
hjúkrunarfræðingar séu fullmótaðir við útskrift. Þeim þarf að
vera veittur markviss stuðningur á meðan þeir fóta sig í starfi,
gefast kostur á að starfa undir minna álagi og bera minni
ábyrgð en þeir sem eru reyndari. Sérstarfsstaða nýútskrifaðra
hjúkrunarfræðinga væri ákjósanleg lausn í þeim efnum. Þá
þurfa stjórnendur að vera meðvitaðir um ábyrgð sína. Með
því að kynnast nýliðunum, vera til staðar og eiga í reglulegum
samskiptum við þá, geta stjórnendur stuðlað að því að
einstaklingsbundnum þörfum þeirra sé mætt. Skilningur
á því hve erfið fyrstu ár í starfi geta reynst þarf að aukast
innan stéttarinnar og framkoma gagnvart nýútskrifuðum
hjúkrunarfræðingum þarf að endurspegla hversu dýrmætur
starfskraftur þeir eru í raun. Í niðurstöðum kemur fram
kynjamunur sem er athyglisverður og til þess fallinn að gerðar
séu ítarlegri rannsóknir á stöðu hjúkrunar á íslandi út frá
kynjasjónarmiði og menningu í garð kvenna í hjúkrunarstétt.
Rannsóknin tók óvænta stefnu þegar fram kom afgerandi
munur í frásögnum kynjanna. Með þeim fyrirvara að úrtakið
er smátt er þó athyglisvert að karlmennirnir í rannsókninni
virtust búa yfir meiri trú á eigin getu og upplifðu meira öryggi
í starfi en konurnar. Líklega gæti það tengst því að þeir
fengu frekar hrós fyrir störf sín, en hrós hefur jákvæð áhrif á
afkastagetu og starfsánægju nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga
(Herdís Sveinsdóttir o.fl., 2015; Li o.fl., 2020). Karlmennirnir
virtust jafnframt eiga auðveldara með að takast á við
starfstengt álag, sem gæti tengst því að þeir upplifðu meiri
virðingu í sinn garð og lýstu betri samskiptum en konurnar.
Rannsóknarniðurstöður ten Hoeve o.fl. (2020) renna stoðum
undir þá greiningu, en þar kom fram að samskipti á vinnustað
er einn stærsti áhrifaþátturinn þegar kemur að líðan í starfi.
Rannsókn Smith o.fl. (2020), sem fjallar um starfstengda
líðan karlmanna í hjúkrun sýnir einnig að þeir upplifa meiri
viðurkenningu af hálfu yfirmanna og lækna, sem auðveldar
þeim samskipti á vinnustað. Áhugavert væri að sjá slíka
rannsókn sem lýsir íslenskum veruleika.
Flestir hjúkrunarfræðingarnir í rannsókninni höfðu íhugað
að hætta og helmingur hafði áform um það. öll höfðu þau
margt gott um starfið að segja en þeir þátttakendur sem
upplifðu virðingarleysi og slæm samskipti á vinnustað, ásamt
stuðningsleysi virtust líklegri til að hafa áform um að hætta
þrátt fyrir að hafa brunnið fyrir starfinu í upphafi. Þetta þyrfti
að rannsaka nánar.
Styrkleikar og takmarkanir rannsóknar
Niðurstöður veita aukna þekkingu og dýpri skilning á reynslu
nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga af hjúkrunarstarfinu
og mikilvægi góðra stjórnenda í því sambandi. Ítrekað er
að um lítið úrtak er að ræða og því ekki hægt að alhæfa
um niðurstöður og yfirfæra þær á alla nýútskrifaða
hjúkrunarfræðinga. Hafa þarf einnig í huga að yfirstandandi
heimsfaraldur gæti hafa haft áhrif á niðurstöður.
ÁLYKTANIR
„Svo átti maður bara að vera tilbúinn“