Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Blaðsíða 78
78 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1 . tbl. 99. árg. 2023
Um 98% hjúkrunarfræðinga hér á landi eru konur (Guðbjörg
Pálsdóttir o.fl., 2017) og í kynjuðu samfélagi virðast konur
bera hitann og þungann af ólaunuðum störfum, sérstaklega
gagnvart börnum og heimili (Robertson o.fl., 2019). Konur
hafa því fleiri skyldum að gegna umfram launað starf og
eru líklegri til að endurskipuleggja þætti í lífi sínu til að
láta barnauppeldi og heimilishald ganga upp. Er þessi
forgangsröðun á kostnað annarra þátta svo sem vinnu,
félagslegs samneytis og áhugamála (Andrea Hjálmsdóttir og
Marta Einarsdóttir, 2019). Konur hérlendis í stjórnunarstöðum
upplifa óskýrari mörk og meiri árekstra á milli vinnu og
einkalífs en karlkyns stjórnendur (Rafnsdóttir og Júlíusdóttir,
2018) og einn af þeim þáttum sem letur hjúkrunarfræðinga
til að taka að sér stjórnunarstöður er álag og óstöðugleiki
milli vinnu og einkalífs (Sabei o.fl., 2019; Steege o.fl., 2017).
Yngri hjúkrunarfræðingar eru líklegri en eldri til að hafa
áhuga á að taka að sér stjórnunarstöðu (Haaland o.fl., 2019;
Sabei o.fl., 2019) en streita er jafnframt algengari meðal
yngri hjúkrunarfræðinga (Berglind Harpa Svavarsdóttir og
Elísabet Hjörleifsdóttir, 2020). Vísbendingar eru um að ungir
aðstoðardeildarstjórar finni oft fyrir einkennum kvíða, of
háum blóðþrýstingi og kulnun (Sandra Sif Gunnarsdóttir
og Sigríður Halldórsdóttir, 2020). Hérlendis eru kvenkyns
stjórnendur, umfram þá sem eru karlkyns, líklegri til að finna
fyrir heilsufarsvanda svo sem vöðvabólgu og svefntruflunum
(Jonsdottir o.fl., 2020).
Reynsla kvenna af endurkomu í vinnu eftir fæðingarorlof
er ólík eftir löndum hvað varðar réttindi, velferðarkerfi
og ríkjandi viðhorf gagnvart vinnandi mæðrum (Collins,
2021). Reynsla mæðra hér á landi af endurkomu í vinnu eftir
fæðingarorlof hefur lítið verið rannsökuð. Ber þó að nefna
nýlega meistararannsókn á tengslum kvenna í fæðingarorlofi
við vinnustað sem sýnir að konurnar í rannsókninni drógu
úr starfshlutfalli eftir fæðingarorlof á grundvelli breytts
fjölskyldumynsturs (Sigrún Edda Kristjánsdóttir, 2019). Þeir
þættir sem vega þyngst við ákvarðanatöku frumbyrja um að
hætta eða halda áfram á sama vinnustað eftir fæðingarorlof
eru stuðningur sem konan upplifir frá yfirmanni og
starfshlutfall á fyrstu mánuðum eftir endurkomu (Ladge o.fl.,
2018). Rannsóknir sýna að þegar konur fá að stýra endurkomu
sinni með lækkuðu starfshlutfalli og sveigjanlegum vinnutíma
getur það dregið úr togstreitu milli vinnu og fjölskyldulífs.
Stuðningur yfirmanns í orði og á borði skiptir máli sem og
hvatning frá yfirmanni um að hafa endurkomuna á forsendum
kvennanna og án þrýstings (Hideg o.fl., 2018; Sigrún Edda
Kristjánsdóttir, 2019). Vinnuveitendur geta einnig sýnt
stuðning með því að koma því skýrt á framfæri við starfsmenn
að meðganga, fæðingarorlof og foreldrahlutverk muni ekki
hafa áhrif á verðmæti eða starfstækifæri vinnandi mæðra
(Ladge o.fl., 2018). Vinnuveitendum ber að gera ráðstafanir til
að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur og ábyrgð
gagnvart fjölskyldu, óháð kyni, til dæmis með sveigjanleika
á vinnutíma, til að auðvelda endurkomu til starfa eftir
fæðingarorlof (Þingskjal nr.150/2020).
AÐFERÐ
Reynsla hjúkrunarstjórnenda af endurkomu í vinnu eftir fæðingarorlof
Til að svara rannsóknarspurningunni var notað eigindlegt
afturskyggnt rannsóknarsnið með aðferð Vancouver-skólans
í fyrirbærafræði, sem er talin henta vel til að dýpka skilning
á mannlegum þáttum og hafa þann eiginleika að geta leitt
til úrbóta í þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu (Sigríður
Halldórsdóttir, 2021). Rannsóknarferlið byggir á samvinnu
sem miðar að því að vera eins fullviss og mögulegt er um að
niðurstöður endurspegli reynslu viðmælenda. Ferlinu svipar
til flæðandi hrings þar sem farið er fram og til baka í ákveðnu
flæði. Hringferillinn byggir á sex vitrænum meginþáttum: Að
vera kyrr; að koma auga á; að velja; að túlka; að raða saman
og að sannreyna (Sigríður Halldórsdóttir, 2021). Hringferlið
er skilgreint frekar í framsetningu á 12 þrepum sem á að vera
leiðarljós rannsakanda út rannsóknina (Tafla 1).
Þátttakendur
Við val á þátttakendum var notað tilgangsúrtak og sam-
kvæmt Vancouver-skólanum valdir einstaklingar til að taka
þátt í rannsókninni sem búa yfir persónulegri reynslu af
fyrirbærinu sem átti að rannsaka (Sigríður Halldórsdóttir,
2021). Í september 2021 var auglýsing birt á samfélagsmiðlum
hjúkrunarfræðinga. Skilyrði fyrir þátttöku var að vera íslensku-
mælandi kvenkyns hjúkrunarfræðingur sem fór í fæðingarorlof
á árunum 2018–2021 og var í stöðu hjúkrunarstjóra, deildar-
stjóra eða aðstoðardeildarstjóra á þeim tíma og hafði verið
að minnsta kosti tvo mánuði í starfi eftir endurkomu í vinnu.
Ekki var sett sem skilyrði að hafa snúið til baka í sömu stöðu.
Þátttakendur höfðu samband við rannsakanda í gegnum
netfang sem gefið var upp í auglýsingu. Allar fengu sent
kynningarbréf fyrir fyrsta viðtal, þar sem fyrirkomulagi og
tilgangi rannsóknarinnar var lýst.
Alls buðu 10 stjórnendur fram þátttöku sína og allar féllu
undir inntökuskilyrði. Ekki þótti ástæða til að leita að fleiri
viðmælendum þar sem mettun var náð eftir viðtöl við
þá 10 stjórnendur sem buðu sig fram. Þátttakendur voru
allar í sambúð, á aldrinum 31–49 ára (meðalaldur 35,7 ár),
og áttu 1–4 börn. Starfsaldur þeirra var á bilinu 6–21ár
og meðalstarfsaldur sem hjúkrunarfræðingur var 9,6 ár.
Fæðingarorlofslengd þeirra var á bilinu 9–18 mánuðir og
meðallengd þess var 12 mánuðir.
Gagnasöfnun og gagnagreining
Gagnasöfnun og gagnagreining fór fram samhliða í
rannsóknarferlinu. Viðtölin voru tekin á vinnustað
viðmælanda eða í gegnum fjarfundarbúnað. Viðtölin voru á
bilinu 35–65 mínútur að lengd, meðallengd var 52 mínútur.
Notaður var hálfstaðlaður viðtalsrammi. Viðtölin voru tekin
upp og síðan rituð upp orðrétt, eftir það var upptökum
eytt. Persónugreinanlegum upplýsingum, svo sem nöfnum
og staðháttum, var breytt. Leitast var eftir að skilja í þaula
innihald þess sem fram kom í samræðum og það í kjölfarið
greint í yfir- og undirþemu. Annað viðtal var tekið við hvern
viðmælanda, um 10–45 mín. að lengd, þar sem skoðað var
nánar hvort sameiginlegur skilningur um reynsluna væri á
milli rannsakanda og þátttakenda. Viðbótarupplýsingum var
bætt við greiningarlíkanið í kjölfarið. Rannsóknin byggir því
á 20 viðtölum samtals. Öll greiningarlíkön voru borin saman
og heildarmynd reynslunnar sett upp í heildargreiningarlíkan.
Í kjölfarið voru gögn aftur lesin yfir og borin saman við